Tengdar greinar

Mest lesnu greinar árisins 2023

1. Er í lagi að halda framhjá alvarlega veikum maka sem er kannski kominn út úr heiminum.

Þessi mest lesna grein á Lifðu núna á þessu ári hófst þannig:

Síðustu tvö árin sem ég sá ég algerlega um að annast manninn minn veikan voru erfið. Ég væri að ljúga ef ég héldi því fram að mér hafi aldrei dottið í hug að leita huggunar hjá öðrum karlmanni á þessum tíma. Ég var að drukkna í verkefnum sem tengdust umönnuninni og hungraði í nánd og blíðu. En ég gerði aldrei neitt í málinu. Svona hefst grein á bandaríska vefnum aarp, sem fer hér á eftir stytt og endursögð

Hvers vegna gerði ég ekkert? Það er ekki flóknara en það að ég hafði hvorki tíma né orku til að vera í öðru sambandi, hvað þá til að finna einhvern til að vera með. Ég var í fullri vinnu, var með tvo unglinga og varð að sjá um að allt gengi upp dags daglega hjá okkur öllum. Einu stundirnar sem ég átti í ró og næði, voru þegar ég stoppaði í umferðinni á rauðu ljósi. Ég átti fullt í fangi með líf mitt og það síðasta sem mig vantaði voru meiri flækjur.

Það þýðir ekki að ég hafi verið hamingjusöm. Ég var hætt að vera eiginkona mannsins míns og félagi löngu áður en hann hætti að draga andann“

Hér er hægt að lesa greinina í heild.

2. Gott veður og maturinn hlægilega ódýr á Kanaríeyjum.

Hjónin Dóra Stefánsdóttir og Stefán Rafn Geirsson hafa í vetur búið í þorpinu Arguineguín á eynni Gran Canaría í hinum fræga Kanaríeyjaklasa. Dóra skrifaði þrjár greinar um efnið sem voru birtar á Lifðu núna og margir lesendur voru greinilega forvitnir.

Það fyrsta sem flestum dettur ugglaust í hug þegar rætt er um Kanaríeyjar er sólskin og hiti. Hvorugt hefur verið sparað við okkur hér í vetur. Lægsta hitastig að næturlagi hefur farið niður í 12-14 gráður í okkar litla þorpi á suðvesturströnd eyjarinnar og upp undir 30 gráður þá daga sem hafa verið heitastir. Skýjaðir dagar eru sjaldgæfir og samanlögð rigning í fimm mánuði hefur mælst í millimetrum frekar en sentimetrum. Stundum blæs hressilegur austanvindur sem færir með sér örfínt ryk frá Sahara eyðimörkinni en jafnvel þá er sjaldan þörf á þykkari flíkum en þunnum peysum eða jökkum. Sé haldið upp í fjöllin eða á norðurhluta eyjarinnar er hins vegar umtalsvert svalara og það náði að snjóa í hæstu tinda einu sinni í vetur. Sem betur fer, rignir mun meira þar og yfirleitt nær regnvatn að duga jafnt eyjarskeggjum og okkur útlendingunum árið um kring“.

Hér er linkur á greinina í heild

3. Vilja ekki að tengdabörnin fari í burtu með arfinn

Greinar um erfðamál eru almennt mikið lesnar hjá Lifðu núna. Hér var viðtal við lögmanninn Elínu Sigrúnu Jónsdóttur.

Foreldrar sem sjálfir hafa skilið velja í auknu mæli að gera erfðaskrá þar sem kveðið er á um að arfur frá þeim verði séreign barnanna þeirra. Ég tel að það hafi  færst í vöxt að fólk geri þetta og skiljanlega, þegar  helmingur hjónabanda endar með skilnaði“. Þetta segir Elín Sigrún lögmaður hjá Búum vel, en hún hefur sérhæft sig í þjónustu við eldra fólk.  Hún segir líka að fólk erfi almennt hærri fjárhæðir nú, en það gerði fyrir nokkrum áratugum. „Þegar ég var að byrja í lögmennsku var oft lítið í dánarbúum. Í dag er fasteignaverð hátt, þannig að ef fólk á hús og sumarbústað, getur arfur barnanna numið 100 – 200 milljónum króna sem skiptast kannski milli tveggja, en í sumum búum er lítið og kannski eingöngu skuldir. Það er mat mitt að  þessar upphæðir hafi hækkað töluvert í ljósi betri lífskjara.“

Greinin í heild er hér.

4. Skreppitúrinn varð að sjúkrahúslegu

Jóhanna Björk Briem var að klifra í stiga í sumarbústaðnum þegar hún datt illa. Fallið átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Ég hefði sannarlega viljað læra um þakklæti og þolinmæði á annan hátt en þennan,“ segir Jóhanna sem segist hafa orðið að tileinka sér þessa tvo eftirsóknarverðu eiginleika til að komast í gegnum mikla raun. Hún mölbraut á sér annað hnéð í ágúst í fyrra, svo illa að hún þurfti að fara í tvær miklar aðgerðir. ,,Ég var ekki bara með brotið hné heldur líka mölbrotna sál,“ bætir hún við. ,,Læknirinn sagði mér uppörvandi eftir aðgerðina að ég myndi líklegast getað klifrað upp á fjall en ekki niður það aftur,“ segir Jóhanna brosandi. ,,Mér til mikillar gleði er sjúkraþjálfarinn minn ósammála og hann ætlar að koma mér niður fjallið aftur. Það ótrúlega gerðist að þegar ég fór að hugsa um að kannski gæti ég ekki stundað fjallgöngur aftur að þá var mér í raun alveg sama. Ég bara fann fyrir svo miklu þakklæti og æðruleysi yfir því hvað ég var nú þegar búin að fara á mörg fjöll að ég var alveg sátt við að hálendisferðir yrðu á annan hátt í framtíðinni. Ég hef gengið allar þessar helstu gönguleiðir á Íslandi og farið fjölda hestaferða upp á hálendið en svo kemur það bara í ljós hver kjarkurinn verður varðandi það að fara aftur á hestbak.“

Lesið greinina í heild með því að smella hér.

5. Ekki að fara að hitta fjölda manns daglega

Guðrún Pétursdóttir er lífeðlisfræðingur að mennt og er nú prófessor emeritus, prófessor á eftirlaunum, við Háskóla Íslands en hún er fædd 1950. Hún hefur fengist við ótal verkefni um dagana, en starfslokin á miðju covid tímabili komu henni á óvart.

Guðrún segist ekki hafa áttað sig á því að það yrði erfitt að hætta að vinna, en síðasta ár hennar á vinnumarkaði var 2020 ,,Ég hélt að þetta yrði enginn vandi en í ljós kom að þetta varð mér erfitt,“ segir hún hreinskilin. ,,Það sem villti mér kannski sýn til að byrja með var að covid var búið að loka okkur inni um tíma. Mér þótti spennandi að vera innilokuð og þurfa ekki að fara neitt og sat alltaf með prjónana mína þegar þríeykið kom fram í sjónvarpinu og hlustaði af athygli. Það endað með því að ég var búin að prjóna hosur á þau öll þrjú og senda þeim af því þetta dróst svo á langinn,“ segir Guðrún og hlær. ,,Við vorum allt í einu farin að lifa allt öðruvísi lífi og mér þótti það skemmtilegt til að byrja með. En svo þegar covidtímabilinu lauk, áttaði mig á því að ég var ekki að fara í vinnuna. Ég var allt í einu ekki á leiðinni að hitta fjölda manns á dag eins og ég var vön og þá varð mér dálítið brugðið,“ segir Guðrún.

Viðtalið í heild má sjá  með því að smella hér

Hérna fyrir neðan eru greinarnar sem voru númer 6-10. Hægt að lesa þær með því að smella á fyrirsagnirnar.

6. Skilnaður ekki eina lausnin í miðaldurskrísu

7. „Ólæknandi“ þýðir ekki það sama og áður.

8. Ástæða þess að þér gengur ekkert að léttast.

9. Vilja nýta tímann á meðan heilsan heldur.

10. Efnileg ung kona kemur á óvart á Netflix

Ritstjórn desember 30, 2023 07:00