Halldór Reynisson er einn þeirra sem hafa með árunum gert sér grein fyrir því að kynslóð okkar, sem komin erum á miðjan aldur og yfir, er ekki að skila jörðinni í jafngóðum málum og við tókum við henni. Í því augnamiði að „gera eitthvað í málunum“ skrifaði hann grein í fyrra sem hann nefndi „Eftir mig, flóðið“ – umhverfismál og eldra fólk og birti á visir.is og á Facebook. Halldór fékk góð viðbrögð við greininni, og í framhaldinu fór hópur fólks að velta fyrir sér að stofna hóp eldri aðgerðarsinna um loftslagsmál.
Sá félagsskapur hefur starfað síðasta árið og hefur fengið nafnið „Aldin – félag eldri aðgerðarsinna gegn loftslagsvá“. Það var reyndar eiginkona Halldórs, Guðrún Thulinius sem átti hugmyndina að þessu snjalla nafni en Guðrún var lengst af tungumálakennari við MH. „Aldin“ hefur tvíræða merkingu, getur bæði þýtt ávöxtur sem er að þroskast en líka eldri lífvera, – manneskja sem er þroskuð og hokin af reynslu.
Þau hjón eru bæði komin yfir miðjan aldur en þegar blaðamann bar að garði var Guðrún á leið í sjósund með vinkonu. Þau Halldór eru dæmi um fólk sem komið er á eftirlaunaaldurinn en gætir þess að njóta en ekki þjóta. Þeirra kynslóð er alin upp af fólki sem vildi að afkomendur þeirra fengju að njóta þess sem þau fengu ekki notið, en þótt Halldór og Guðrún vilji njóta lífsins langar þau sannarlega til að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn betri.
Láta eigið egó ekki þvælast fyrir
„Í þessum félagsskap er samankomið fólk sem vill fyrst og fremst vinna í þágu verðugs verkefnis og setur sjálft sig ekki í fyrsta sæti,“ segir Halldór. „Maður ætti nefnilega að vera búinn að afgreiða misskilinn metnað þegar maður er kominn á þennan aldur,“ segir hann og brosir. „Ég hef stundum séð mína eigin lífsgöngu þannig að nú sé ég lausari undan mínu eigin egói en þegar ég var ungur maður og það er gott. Í Aldini finn ég fólk sem tekur loftslagsvána alvarlega og er afslappað gagnvart sjálfu sér. Það er jákvætt gagnvart því að eldast og býr flest yfir mikilli reynslu eftir að hafa verið á vinnumarkaði í kannski 40 ár. Á langri starfsævi hefur maður gjarnan lært hvernig best er að vinna hlutina. Þegar við erum ung er minnið öflugt en við kunnum ekki endilega að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Þegar við eldumst eigum við auðveldara með að greina aðalatriði frá aukaatriðum þótt við getum ekki treyst jafnmikið á minnið og áður.“
Best ef kynslóðirnar vinna saman
Halldór segir að besti árangur náist án efa þegar kynslóðirnar nýti sína krafta og vinni saman. „Við þau eldri höfum reynsluna en yngra fólkið býr yfir getu sem allir vita að þverr með aldrinum. Í okkar hópi er eldra fólk sem er tilbúið að berjast á móti þeim hugsunarhætti að „það lafi meðan ég lifi“. Halldór vitnaði einmitt í slíkt viðhorf sem kom fram í frægum orðum Loðvíks 15.: „Aprés moi, le deluge“ eða „Eftir mig, flóðið“. Þau orð þóttu til merkis um ábyrgðarleysi hans og annarra forréttindakólfa sem væri sama um hvað gerðist eftir þeirra daga. „Loftslagsváin er svo áríðandi og við brennum fyrir því að hafa áhrif á gang mála,“ segir Halldór um ástríðuna sem býr í félögum Aldins. „Þetta er rosalega stórt viðfangsefni en við verðum að rífa okkur upp úr því viðhorfi að það skipti ekki máli hvað einstaklingurinn geri því það sé svo lítilvægt. Í gömlum gyðinglegum fræðum segir að ef maður bjargar einni manneskju þá bjargi maður heiminum.“
Öflug félög í mörgum löndum
Þegar Halldór skrifaði greinina „Eftir mig, flóðið“, var hann óviss um viðbrögðin. „Þegar ég skrifaði þetta á sínum tíma fannst mér þessi viðhorf einhvern veginn liggja í loftinu. Það stóð heima og Tryggvi Felixson greip strax boltann á lofti og við ásamt Dagnýju Halldórsdóttur fórum að ræða saman um hvað við gætum gert. Og smátt og smátt varð þessi hreyfing eldra fólks til – Aldin – sem leggur áherslu á baráttu fyrir loftslagsmálum. Við áttum fljótlega samræður við Halldór Þorgeirsson hjá Loftslagsráði og skömmu síðar bættist Stefán Jón Hafstein við, og svo fleira fólk sem lætur sig náttúruvernd varða. Allt er þetta öflugt og vel upplýst fólk sem veit sannarlega sínu viti og langar að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað.“ Halldór bætti við að þau hefðu fljótlega komist að raun um að það væru öflug félög eldri borgara víða um lönd sem létu sig loftslagsmálin varða.
„Við erum öll af „eftirstríðsárakynslóðinni“ eða „´68-kynslóðinni“ og það má segja að við höfum vaknað upp við vondan draum, þegar okkur varð ljóst að heimurinn sem afkomendur okkar erfa var sennilega verri en sá sem við vorum svo lánsöm að fæðast inn í,“ segir Halldór.
„Í þessum félagsskap Aldin er fólk sem flest er hætt að vinna, en er í fullu fjöri og langar að vinna að því að snúa þróuninni við. Einn í hópnum sagðist hafa vaknað fyrir alvöru þegar hann hætti að vinna og fór að passa barnabörnin meira en áður, en hann hafði alla ævi starfað í bankageiranum. Hann gæti ekki hugsað sér að skilja barnabörnin eftir í þeim vanda sem okkar kynslóð hefði átt stóran þátt í að skapa.“
Þess má geta að fundir í Aldin eru nú um stundir í safnaðarheimili Neskirkju, alltaf fyrsta fimmtudag í mánuði kl.10 að morgni og eru allir velkomnir sem áhuga hafa á málefninu.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.