Flórída í Reykjavík

Rannveig Ernudóttir

Rannveig Ernudóttir skrifar. Hún er varaborgarfulltrúi og í framboði fyrir Pírata í kosningunum á laugardag.

Sagt er að það þurfi þorp til að ala upp barn. Það þarf jú vissulega fyrst og fremst foreldra sína eða einhvern staðgengil en við mannfólkið erum líka samfélagsverur og því öflugra tengslanet sem við höfum því betra. Þó hefur þróunin því miður oft leitað í hina áttina og tilhneigingin til þess í vestrænni menningu hefur í langan tíma verið sú að aðgreina hin ýmsu æviskeið sem og ýmsa samfélagshópa. Hefur sú þróun verið einangrandi, alið á sundrungu og dýpkað gjána milli mismunandi hópa.

Það að einangra hópa, hvort sem er út frá aldri, kyni, stöðu, trúarskoðunum, þjóðerni og svo framvegis, er hreinlega hugmyndafræði sem við erum alltaf að yfirgefa meira. Í stað hennar eru samfélög nútímans í sí auknum mæli að líta til þess að auka enn frekar blöndun og samfélagslegt flæði. Það er eitt að byggja fjölbýlishús fyrir 60+, en þau eru æskilegri inni í miðju hverfi. Hverfi í líkingu við Dalbrautarþorpið sem inniheldur félagslega heimaþjónustu sem og félagsstarf sem við eigum að byggja framtíðarhugmyndir, um þjónustu við aldraða, á. Langflest okkar vilja búa heima sem lengst og því fagna ég því að þar er verið að horfa einmitt til þess. Einnig líkar mér sú hugmynd í að hönnunin á hverfum eigi að fara í samkeppni. Það væri áhugavert að sjá hvernig Flórída Reykjavíkur myndi líta út í slíkri samkeppni.

Einstaklingshyggja eða samfélagshyggja? 

Sjálfri hefur mér þótt einstaklingshyggjan vera orðin of plássfrek og áberandi í umhverfi okkar. Hún hefur klippt á ýmis samskipti þvert á samfélagið og einangrað okkur. Svo miklum skaða hefur hún valdið að við þurfum að vera í sérstökum átökum reglulega til að sporna gegn einmanaleika og einangrun fólks. Meðal annars einmanaleika eldra fólks, sem varð sérstaklega áberandi eftir að heimsfaraldur hélt innreið sína í samfélagið okkar.

Þess vegna hljómar heilt hverfi eingöngu fyrir eldra fólk ekki vel í mínum huga, ekkert frekar en að í mínum huga væri vont að hanna heilt hverfi eingöngu fyrir fólk með fötlun, hinsegin fólk, eða fólk af erlendum uppruna. Slíkt hverfi myndi hreinlega vera einangrandi hverfi fyrir ákveðin samfélagshóp, hóp sem hefur einmitt mikla þörf fyrir hið gagnstæða.

Við leggjum frekar áherslu á að byggja upp samfélag út frá algildri hönnun, sem felur þá í sér meðal annars að borgin sé aldursvæn, að hér eigi allir aldurshópar pláss ekki síður en öll kyn, fólk með fötlun, fólk í heimilisleysi og svo framvegis.

Kynslóðablöndun

Eitt af því sem við höfum verið að láta flæða inn í öldrunarmálin á þessu kjörtímabili er hugmyndafræði kynslóðarblöndunnar sem gengur útá það að ýta undir og styðja enn frekar við samskipti mismunandi kynslóða. Kynslóðir búa yfir mismunandi reynslu og sögu sem dýrmætt og mikilvægt er að láta ganga sín á milli, þættir eins og fjölskylduvenjur, hefðir og sögur.

Kynslóðablöndun til að mynda samvera barna við ömmur og afa hefur ekki eingöngu jákvæð áhrif á börnin, heldur hafa þessi tengsli milli kynslóða einnig jákvæð áhrif á eldra fólkið. Þau áhrif eru aukið hreysti og líkamlegt heilbrigði, aukin sköpunargáfa, vellíðan og jafnframt aukin færni sem felst m.a.í því að læra af yngri kynslóðum nýja hluti á borð við að nota nýja tækni, en við hjá Píratar höfum einmitt sett af stað kynslóðarverkefni sem gengur útá það að láta yngri kynslóðir kenna eldri kynslóðum á snjalltæki, eða að efla tæknilæsi fullorðinna og er það verkefni ansi vinsælt og vel þegin viðbót í félagsstarfi fullorðinna hér í borginni.

Ég tel að dýrmætt væri að skapa fleiri lítil þorp, eins og Dalbrautarþorpið, sem er þá mögulega innan sama hverfis og barnabörnin búa í. Sú tilhugsun að geta hreinlega farið beint eftir skóla að heimsækja ömmu, eða fyrir afa að ganga í leikskólann og sækja barnabarnið sitt, er í mínum huga mun æskilegri en sú að setja ömmu og afa í sérhverfi. Eða eins og 14 ára gömul dóttir mín, sem gengur í unglingaskóla við hlið Dalbrautarþorpsins, sagði nýverið við mig: “Mamma það er svo gott og fallegt að hafa eldra fólkið í næsta húsi, þau fara í göngutúr framhjá okkur og heilsa upp á okkur og ég held að þeim líði vel að vera nálægt okkur krökkunum”.

Þetta er hugmyndafræði sem við Píratar heillumst af og viljum byggja á í Reykjavík. Þar sem öflugt félagsstarf er grundvöllur heilsueflingar og farsællar öldrunnar, byggt á hugsjónum kynslóðablöndunnar.

Höfundur er varaborgarfulltrúi og frambjóðandi fyrir Pírata í Reykjavík.

 

Ritstjórn maí 12, 2022 21:09