Biðin eftir þjónustumiðstöð og hjúkrunarheimili í tengslum við húsnæði Samtaka aldraðra á Sléttuvegi í Reykjavík er orðin löng, en í gær undirrituðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri samning um byggingu þessara mannvirkja. Ingibjörg Elíasdóttir og Agnes Sigurþórs eru meðal þeirra sem hafa barist fyrir að þjónustumiðstöðin og hjúkrunarheimilið rísi. „Það eru 10 ár síðan farið var að tala um þetta og fimm ár síðan ég flutti hingað. Þá töldu menn að þetta væri alveg að koma“, segir Ingibjörg. „Þetta er búið að taka allan þennan tíma og mörg viðtöl. En okkur var sagt fyrst þegar við fórum á fund ráðherra að þrýsta á um þetta. Við höfum gert það nokkur úr þessum húsum, sem eru hér við Sléttuveginn“.
Hengdu upp mynd af Degi og Kristjáni Þór í anddyrinu
Ingibjörg segir að þau hafi skrifað bréf og tölvupósta og verið í sambandi bæði við Stefán Eiríksson hjá borginni og Guðmund Hallvarðsson hjá Hrafnistu. Það hafi legið í loftinu að þau væru efst á blaði með hjúkrunarheimili á Sléttuveginum, en þau hafi varla þorað að trúa því fyrr en búið væri að skrifa undir. „Núna er búið að því og manni skilst að það eigi að hefja framkvæmdir strax eftir áramót. Þetta lítur vel út og fólkið hér hoppar af kæti“, segir hún og bætir við að þau hafi í gær hengt upp mynd í anddyrinu af Degi og Kristjáni Þór að undirrita samninginn.
Mikill munur að fá þjónustumiðstöð
Ingibjörg segir að það verði mikill munur að fá þjónustumiðstöðina við hlið húsanna á Sléttuvegi. Þar verði ýmiss konar þjónusta, mötuneyti, fótsnyrting, hárgreiðslustofa og lítil verslun eða sjoppa. „Ég hætti að keyra fyrir ári. Það er bæði aldurinn og svo er sjónin farin að breytast. Þá er það orðið töluvert fyrirtæki að fara í Nóatún sem er næsta verslunin hér. En það verður hægt að ganga í þessa litlu búð og kaupa eitthvað smálegt sem fólk vanhagar um“, segir hún.
Halda saumaklúbbinn á Hrafnistu og fá sér sérrý
„Þetta lofar mjög góðu“, heldur hún áfram og segir að saumaklúbburinn sinn hittist til dæmis ennþá. „ Við hittumst um daginn á Hrafnistu, þú manst eftir umdeildu kaffistofunni með sérrýinu! Þar er gott aðgengi fyrir fólk með göngugrind. Hún Guðný Guðjónsdóttir sem á Mokka hefur farið í hvíldarinnlögn þar og ákvað þá að halda saumaklúbbinn á kaffistofunni, og svo gerðum við það aftur núna um daginn“. Ingibjörg segir að þar sé hægt að panta kökur og pönnukökur og svo kaffi og sérrý. „Þannig að við sjáum þetta í rósrauðu ljósi þegar þjónustumiðstöðin verður komuin hér. Það er mikið atriði að gleyma ekki gamla fólkinu“.