Forstjórinn og verkalýðsforinginn urðu par

Lilja Ólafsdóttir viðskiptafræðingur ólst upp í Hrunamannahreppnum og átti síðar eftir að verða rauðsokka og fyrsta konan til að gegna starfi forstjóra Strætó „Fyrsta og eina konan“, segir hún og brosir, þegar við setjumst niður við borðstofuborðið heima hjá henni. Samanlagt vann hún í 39 ár hjá Reykjavíkurborg, fyrst hjá Rafmagnsveitunni, en síðar hjá Skýrsluvélum, bæði sem framkvæmdastjóri og aðstoðarforstjóri. Hún segir að starfið hjá Strætó hafi verið skemmtilegast.

Hissa að maðurinn skyldi ekki skilja við mig

„Þar fékk ég tækifæri við að vinna við verkefni á mínu áhugasviði og við það sem ég hafði lært“, segir Lilja. En hún lærði viðskiptafræði við bandarískan háskóla, Loyola University i Chicago, með áherslu á stjórnun og skipulagsmál. Námið tók hún utanskóla með vinnunni hjá Skýrsluvélum. Hún segist ekkert hafa vitað hvað hún var að fara útí. „Ég skil varla enn að ég skuli ekki hafa verið rekin úr vinnunni eða að maðurinn skyldi ekki skilja við mig á þessum tíma“, segir hún. Þarna var hún um fertugt og steypti sér út í námið vegna þess að henni fannst það spennandi.

Lilja á góðri stund með Áslaugu Kristinsdóttur vagnstjóra og skákmeistara

Lilja á góðri stund með Áslaugu Kristinsdóttur vagnstjóra og skákmeistara

Strætó þótti fyrir

Henni fannst gaman að fá tækifæri til að stjórna fyrirtæki eins og Strætó. Að setja starfseminni markmið, gera áætlanir og fylgja þeim eftir og sjá þær síðan raungerast. Á þessum árum hafi einkabílisminn verið allsráðandi og umræðan um umhverfismál óþroskuð hér á landi.Henni fannst fróðlegt að halda fram sjónarmiðum almenningssamgangna í borgarkerfinu, sem gekk þvert á skipulagsstefnu borgarinnar þar sem einkabíllinn var í aðalhlutverki og strætó þótti bara vera fyrir.

Var beðin um að vera lengur

Lilja hætti að vinna launaða vinnu fyrir 9 árum. En um sama leyti féll eiginmaður hennar til 47 ára frá. Hann hét Gunnar Sigurðsson og eignuðust þau Lilja einn son. Lilja var búin að hlakka til að hætta að vinna til að geta farið að gera það sem hana langaði til, en hafði ekki haft tíma til að sinna með erilsömum störfum. „Ég var í skemmtilegum störfum hjá borginni og fékk að njóta mín þar. Þetta voru vel launuð störf og ég átti ágætan eftirlaunarétt“. Lilja var á 95 ára reglunni og ætlaði að hætta að vinna 62ja ára, en var beðin um að vinna lengur. Hún hætti 63ja ára.

Lífið á eftirlaunum

Lilja segist hafa ákveðið að fara áfram á fætur á sama tíma og áður og byrja daginn á því að fara í sund eins og hún hafði alltaf gert. Þetta hafi hún gert æ síðan, en tekið sér stöku frídag og sofið út. Hún segist ánægð með lífið og telja sig vera í hópi þeirra sem hafa það einna best. „Ég er hraust“, segir Lilja „og á mitt hús og minn sumarbústað. Umhverfis húsið er risagarður sem ég vinn mikið í. Ég hef meira gaman af garðræktinni, en að ganga um á golfvelli“.

Eldra fólk þverskurður af þjóðfélaginu

Hún telur að það þurfi vitundarvakningu í þjóðfélaginu um stöðu eldri kynslóðarinnar. „Menn þurfa að átta sig á því að þetta fólk er þverskurður af þjóðfélaginu. „Í þessum hópi er fólk sem nær ekki endum saman og hefur kannski aldrei gert það, en líka fólk sem stendur vel að vígi og er jafnvel forríkt. Þarna er líka öll breiddin af heilsufari“, segir Lilja og bætir við að langstærsti hluti þessa fólks hafi mikla starfsorku og lífsorku. Það megi ekki setja alla undir sama hatt þannig að umræðan snúist eingöngu um þá sem höllustum fæti standa.

Lilja, sonardóttirin Íris Birna og sonurinn Gaukur

Lilja, sonardóttirin Íris Birna og sonurinn Gaukur

Fjarskiptatæknin bylti öllu

Lilja hefur ekki setið auðum höndum frá því hún hætti launuðu starfi. Um fjögurra ára skeið vann hún sem sjálfboðaliði við að kenna eldra fólki á tölvurnar sínar. „Það er afar mikilvægt að kunna að nýta sér þessa tækni. Fjarskiptatæknin bylti öllu og því kynntist ég í starfi mínu hjá Skýrr. Það komu píptæki sem tæknimennirnir þar gátu haft í vasanum og þannig var hægt að ná í þá þegar á þurfti að halda. Við hlógum að því þá, að sennilega myndi þetta enda með því að menn hefðu símann bara í vasanum!“

Þurfa að tileinka sér lágmarksfærni

Það kom að því eins og allir vita og Lilja segir að eldra fólk verði að tileinka sér lágmarksfærni á tölvur. Sumir hafi kynnst tölvum í atvinnulífinu en ekki allir. En hafi menn ekki tölvupóst í dag eða kunni ekki á netið, sé erfitt að ná til þeirra. Félagasamtök og ýmsir hópar noti tölvupóst til að ná til allra í hópnum og það séu aukasnúningar að koma bréfum í póst til kannski einnar manneskju í hópnum sem notar ekki tölvu. Það sé hætt við að þeir sem hafi ekki þessa færni lendi utangarðs. Þetta gildi einnig um bankaþjónustuna sem sé öll komin á netið.   Hún segir það atriði þegar eldra fólk læri á tölvu að fara rólega. Taka eitt skref í einu og æfa það, síðan næsta skref og æfa það og þannig koll af kolli.

Styður víetnamska fjölskyldu

Lilja segist hafa fundið þörf fyrir að gefa eitthvað af sér, eftir að hún fór á eftirlaun og eitt af því sem hún gerir, er að hún veitir víetnamskri fjölskyldu sem hér býr stuðning. Hún les reglulega með 10 ára gamalli stúlku, kennir henni íslensku og ýmislegt um íslenska siði og menningu. Hún heitir Sóley og á 4ra ára gamla systur sem heitir Dagný. Hluti fjölskyldunnar kom á sínum tíma hingað til lands sem flóttamenn, á vegum Rauða krossins. „Maður kemst að því þegar fólk sest að í öðru landi að það þarfnast tengingar við fólkið í landinu. Við eigum vini og tengslanet hér heima og það skiptir máli að þeir sem hingað flytja einangrist ekki í sínum hópi“, segir Lilja.

Víetnamska fjölskyldan hennar Lilju. Lilja situr með Sóley

Víetnamska fjölskyldan hennar Lilju. Lilja situr með Sóley

Höfðu aldrei séð Evrópubúa

Lilja fór ásamt þessu fólki til Víetnam fyrir tveimur árum og dvaldi í vikutíma hjá ættingjum þess í lítilli borg í Suður Víetnam. „Þau höfðu aldrei hitt Evrópubúa“, segir Lilja. Hún vakti mikla athygli í borginni þar sem erlendir ferðamenn voru fáséðir. Lilja bendir á að birst hafi frétt í blöðunum þess efnis að við þyrftum 5000 manns í vinnu hér á næstu árum, en íslensk stjórnvöld hafi bara ætlað að taka á móti 50 flóttamönnum fyrst, þó þau hafi nú vegna þrýstings sagst munu taka við fleiri. Hún segir flóttamenn frá Sýrlandi vel menntaða og víðsýna. „Það felst í því tækifæri fyrir okkur að taka á móti þessu fólki“.

Hamingjan kemur að innan

Lilja segist hrifin af umræðunni um að vinna gegn sóun í samfélaginu. Það sé ofgnótt af svo mörgu, til dæmis fatnaði. „Þetta var hræðilegur tími í aðdraganda hrunsins“, segir hún. „Fólk henti heilu innréttingunum nýlegum og heilum og ef það flutti í nýtt hús þurfti að kaupa nýtt innbú í stíl við arkitektúrinn“. Hún segir sál í sínu innbúi og segist muna þegar hún var að safna fyrir hlutunum fyrir 50 árum. En hamingjan komi að innan og hana sé ekki hægt að kaupa. Það sé hins vegar átak að skipta um lífsstíl, sérstaklega fyrir fólk sem hefur lifað mjög hröðu lífi og alltaf verið á hlaupum. „Það er átak að ná sér niður í rólegri lífsstíl og vera glaður þar. Hamingjan felst ekki endilega í því að böðlast áfram“.

Forstjórinn og verkalýðsforinginn

Það var áfall fyrir Lilju að missa manninn sinn fyrir 9 árum. „En nokkrum árum seinna hitti ég góðan mann sem var í sömu stöðu og var ekkjumaður. Við erum mjög hamingjusöm, en viljum ekki skemma stemminguna með því að fara að búa saman“, segir Lilja. Hún og Örn Friðriksson fyrrverandi verkalýðsleiðtogi hittust í boði hjá sameiginlegum vinum. Lilja segir að hún hafi ekkert verið að velta því fyrir sér að eignast kærasta. „Mér leið vel einni, ég gat gert allt sjálf og taldi mig ekki hafa þörf fyrir það“. Lilja segir að það hafi verið gantast með þetta í vinahópnum „Forstjórinn og verkalýðsforinginn, hvernig á það að geta gengið upp?.

Lífið ólgar á öllum aldri

Örn á þrjú börn og níu barnabörn, en Lilja son og eina sonardóttur. Hún segir að allir séu mjög glaðir með sambandið og bendir á að fólk nái saman á öllum aldri. „Lífið ólgar í fólki á öllum aldri, alveg fram á grafarbakkann. Ef maður hefur heilsu og hleypir því að“, segir hún. Það sé líka ótrúlega mikilvægt að temja sér jákvætt viðhorf til lífsins. „Sumir hafa allt á hornum sér, ekki vegna þess að þeir séu með gigt, heldur fá þeir gigt af því þeir eru svo neikvæðir“, segir Lilja að lokum áður en hún drífur sig niður í Hörpu á alþjóðlegu kvennaráðstefnuna.

 

 

Ritstjórn október 23, 2015 10:18