Fyrrverandi starfsmenn í Breiðholtsskóla – ,,Strengjasveit listaakademíunnar við Arnarbakka“

Hér má sjá servíettur sem gjarnan eru dregnar fram á samkomum Gítarbandsins. Viðhorf meðlimanna kemur fram í textanum á þeim.

Fyrrverandi kennarar og samstarfsfólk þeirra í Breiðholtsskóla hafa haldið hópinn í 25 ár og saga hópsins er verulega áhugaverð en augljóst er að hláturtaugarnar eru kitlaðar vel á öllum þeirra fundum. Lifðu núna forvitnaðist um tilurð þessa merkilega hóps sem samanstendur af konum sem eru fæddar á tímabilinu 1930 til 1956. Þær höfðu allar unnið saman við skólann um árabil og örlögin höguðu því þannig að

Hláturtaugarnar kitlaðar vel.

þær stofnuðu gítarhóp sem heitir því virðulega nafni. Þær koma enn saman reglulega og spila á gítar og syngja og njóta samvista hver við aðra.

Hópurinn var strax kallaður ,,Strengjasveit listaakademíunnar við Arnarbakka“ en í daglegu tali kallaður Gítarbandið.

Í dag er mjög áhugavert að heyra álit slíkra reynslubolta á ástandinu í skólamálum Íslendinga en fyrst segja þær frá ástæðu þess að þær fóru að spila saman á gítar.

 Tilurð Strengjasveitarinnar 

Breiðholtsskóli stendur við Arnarbakka og þess vegna heitir hópurinn þessu virðulega nafni. Anna María, sú yngsta í hópnum, er  konsertmeistari gítarbandsins

Guðmundur var alltaf skemmtilegur.

og bætir hlæjandi við að það sé í raun það hæsta sem hún muni komast í virðingarstiganum í þessu lífi. ,,Þetta gerðist eiginlega þannig að þegar ég var um fertugt var ég að klára mikla krabbameinsmeðferð, eða fyrir tæpum 30 árum,“ segir Anna. ,,Ég fór í raun út úr lífinu í heil tvö ár á meðan á því stóð en þegar ég var að feta mig til baka vildi þannig til að maður nokkur, Guðmundur J. Hallvarðsson sem  bar út Morgunblaðið til okkar, rukkaði einu sinni í mánuði fyrir áskriftina og var þá auðvitað boðið inn í kaffi eins og Íslendinga er siður,“ segir Anna María og brosir. ,,Ég vissi að þessi maður var mikill vinstri maður en í skjóli nætur bar hann út Morgunblaðið. Hann var

Anna fékk hugmyndina að stofnun Gítarbands Breiðholtsskóla á fundi þeirra Guðmundar.

nefnilega allt í einu búinn að eignast þrjú börn og þurfti á aukavinnu að halda. Á daginn var hann hins vegar tónlistarkennari. Þar sem við hjónin sátum yfir kaffibolla með Guðmundi blaðburðarmanni segir maðurinn minn allt í einu: ,,Heyrðu Anna, viltu ekki bara skrá þig í nám hjá Guðmundi og fara að læra meira á gítarinn sem þú átt?“ og svona byrjaði ævintýri  ,,Gítarbandsins“. Og Þess vegna hef ég það forskot fram yfir aðra í hópnum að ég hef lært á klassískan gítar í eitt ár og þar með er ég sjálfkjörinn konsertmeistari hópsins,“ segir hún og brosir. ,,Ég spurði Guðmund síðan hvort hann væri til í að búa til hóp meðal starfsmanna í Breiðholtsskóla og kenna gítargrip. Hann var til, ég auglýsti þetta uppi í skóla og það urðu strax til tveir hópar. Það var meira að segja hringt frá Kennarasambandinu og spurt hvað væri eiginlega um að vera í Breiðholtsskóla því allur endurmenntunarsjóðurinn væri að klárast. Það væru svo margir að læra á gítar þarna hjá okkur. Svo fækkaði smám saman í hópunum og þá tókum við okkur saman tíu starfsmenn skólans sem vildum halda áfram og hér erum við enn, 25 árum síðar,“ segja þær ánægðar með sig.

Mættu mikilli velvild og fengu meðbyr hjá skólastjórnendum

Gítarbandið fékk strax mikinn meðbyr hjá skólastjórnendum og fékk að æfa á kennarastofunni á hverju mánudagskvöldi í mörg ár. ,,Það var alltaf einstaklega góður starfsandi í Breiðholtsskóla,“ segir þær. ,,Svo sameinuðumst við hópi úr Safamýrarskóla, fórum í gítarbúðir í Sandgerði nokkrum sinnum og líka upp á Kjalarnes,“ segja þær og brosa við minningunni.

Guðmundur blaðburðarmaður var tónlistarkennari í Sandgerði og tilviljun olli því að hann var orðinn aðalgítarþjálfari kennara í Reykjavík. ,,Svona er það þegar lítið fræ ber allan þennan ávöxt,“ segir Anna María. ,,Guðmundur var gífurlega skemmtilegur maður og svo spiluðu veitingarnar nokkuð stóran þátt,“ segja þær því alltaf var og er haft nokkuð við í kaffimeðlæti á fundum þeirra.

Guðmundur heiðraður af meðlimum Gítarbandsins.

Guðmundur var einstaklega skemmtilegur maður

Þeim ber öllum saman um að stór ástæða fyrir því að hugmynd Önnu Maríu hafi orðið svona stór hafi verið að Guðmundur hafi verið einstaklega skemmtilegur maður og þær hafi misst mikið þegar hann lést árið 2014. ,,Guðmundur hafði svo mikinn húmor, var svo einlægur og hafði augljóslega gaman af því að vera með okkur. Svo mætti hann mjög oft þegar við héldum grillveislur eða aðrar veislur þótt námskeiðinu væri lokið og var alltaf jafnskemmtilegur.“

Aldrei nokkurt band fengið jafnmikið klapp

Sýnishorn af hugmyndaríku föndri meðlimanna. Takið eftir gítarnum en hann er búinn til úr flipanum af niðursuðudós.

,,Ég myndi nú líka segja að Guðmundur hafi verið einstaklega þolinmóður maður,“ segir Laufey. ,,Ég vissi sem var að ég var alveg laglaus og gat ekkert lært en ég var duglega að æfa mig,“ bætir hún við alveg einlæg. ,,Svo vorum við alltaf að troða upp og erum með hirðskáld í henni Sigurjónu og svo er hún líka spákonan okkar. Gítarhópurinn spilaði mikið í afmælum og einu sinni fyrir forsetann og líka fyrir borgarstjórann. Eftir að hafa troðið upp á einni árshátíð Breiðholtsskóla sagði ekki ómerkari maður en Vernharður Linnet, sem var kennari við skólann, að aldrei hefði nokkurt band fengið jafn mikið klapp,“ segja þær og skellihlæja.

Sumar kvennanna höfðu átt gítar en segjast ekki hafa kunnað mikið. Guðmundur hafi kennt þeim nóg til að þær hafi getað bjargað sér og notið þess að ,,músísera“ saman.

Starfsandinn mikilvægur

Gerðar eru morgunæfingar í öllum ferðum Gítarhópsins.

Þessar konur segja að starfsandinn í hverjum skóla skipti gríðarlegu máli því líðan kennara færist yfir á börnin. Konurnar eru allar reynsluboltar eftir langa starfsævi í kennslu og við önnur störf í skólanum. Hafa sumar hverjar samanburð við aðra skóla og eru sammála um að á þeim tíma sem þær störfuðu í Breiðholtsskóla hafi starfsandinn verið einstakur.

Margir hópar stofnaðir

,,Fleiri hópar voru stofnaðir meðal starfsmanna og má nefna prjónahóp, hundavinahóp, saumaklúbbar, danski hópurinn, bókaklúbbur, veiðifélag kristinfræðikennara og fleiri. Þegar starfsandinn er léttur er þetta einn fylgifiskur og allir skemmta sér vel,“ segja þær og bæta við fullum fetum: ,,Við erum nefnilega svo heppnar með okkur“ og skellihlæja. Árið 2006 var stofnað átthagafélag Breiðholtsskóla og í því eru um 70 manns sem allir eru fyrrverandi starfsmenn skólans. Þeir sem geta koma saman einu sinni í mánuði á veitingastaðnum Spírunni síðdegis og spjalla og drekka kaffi. Þetta segja þær vera dýrmætar stundir og margir mæti alltaf þótt eðlilega sé farið að kvarnast úr hópnum.

Samfélagsmiðlar og skóli

Sigurjóna spáir gjanan í bolla og segja þær grafalvarlegar að þær taki engar stórar ákvarðanir nema fá lestur hennar fyrst.

Nú hafa landsmenn fylgst með neikvæðri umræðu um innflytjendur í  Breiðholtinu og Gítarbandið ræddi skýringu á þeirri umræðu.

Þær segja strax að það sé engin ein skýring á þessari neikvæðu umræðu heldur séu ástæðurnar margar. Nemendur af erlendum  uppruna sé aðeins lítill hluti skýringarinnar. Samfélagsmiðlafíkn nemenda sé án efa miklu stærri hluti. ,,Það má rétt ímynda sér hversu erfitt það er að kenna unglingum eftir tilkomu samfélagsmiðla og GSM síma. Hvorugt var til í svo ríkum mæli þegar við vorum að kenna. Nú standa kennarar frammi fyrir gífurlegum áskorunum á hverjum einasta degi sem rekja má beint til nútíma tækni og við því verður að bregðast.“

Þessar konur, sem eru allar komnar á eftirlaun, segjast sjá vel hvernig ungir kennarar koma fullir af eldmóði inn í skólana, tilbúnir til að leggja mikið á sig við að uppfræða nemendur. Þeir verði margir fyrir miklum vonbrigðum því stuðningur við þá sé oft af skornum skammti. „Það þarf sameiginlega stund reglulega til að byggja upp félagsskap og þær stundir voru vel nýttar í Breiðholtsskóla. Okkur grunar að tækifæri kennara til að byggja upp félagsskap séu orðin ansi fá,“  segja þær.

Vildi fara á skauta á níræðisafmælinu

Draumur Þorbjargar var að fara á skauta og Gítarbandið lét þann draum rætast í níræðisafmælisgjöf.

Elst í hópnum er Þorbjörg, sem var reyndar ekki kennari en gegndi mjög mikilvægu hlutverki í skólanum og er nú orðin 95 ára gömul. Hún komst ekki á fundinn þegar blaðamaður fékk að vera fluga á vegg en fram undan var svokallað „Gommubrauð“ sem er alltaf haldið heima hjá henni. Þá koma hinar með veitingarnar en Þorbjörg sér um að leggja á borð og að allt sé tilbúið og jólalegt þegar þær mæta. Þegar Þorbjörg varð níræð spurðu þær hvað hún vildi helst gera í tilefni níræðisafmælisins og eftir nokkra umhugsun sagðist hún eiga sér þann draum að komast á skauta. Gítarhópurinn lét þá þennan draum hennar rætast og allur öryggisbúnaður var notaður. Dagurinn varð stórkostlegur og afmælisbarnið alsælt. Og nú hlakka þær til að fara í Gommubrauð til Þorbjargar á næstunni og spila á gítar og syngja jólalög. Félagsskapur sem þessi er ómetanlegur fyrir alla þátttakendur, sama á hvaða aldri þeir eru.

Gítarbandið hefur farið á hverju ári í gítarbúðir út á land í nokkra daga og notið þess að spila, spjalla og syngja saman og segja þær stundir óborganlega skemmtilegar.

Meðlimir gítarbandsins:

Laufey Bjarnason, Lára Ingólfsdóttir, Sigurlaug Gestsdóttir, Anna Gerður Njálsdóttir, Anna María Ögmundsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Kolbrún Svala Hjaltadóttir, Sigurjóna Björgvinsdóttir, Þorbjörg Gísladóttir og Sigurlín Jóhannesdóttir.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu Núna skrifar.