„Ég er safnstjóri Flugsafnsins á Akureyri og búinn að vera í rúm tíu ár. Hér kann ég ákaflega vel við mig enda hefur flug og allt sem tengist því verið eitt af mínum stærstu áhugamálum í lífinu. Ég fór að hafa áhuga á flugi sem barn enda starfaði faðir minn sem flugumferðarstjóri og þannig komst ég snemma í kynni við flugið,“ segir fjölmiðlamaðurinn og leikarinn Gestur Einar Jónasson.
Gestur er menntaður leikari en fannst það ekki gefa nóg í aðra hönd svo hann söðlaði um og fór að vinna sem blaðamaður á Degi og sem lausamaður hjá Ríkisútvarpinu á Akureyri. „Það var ótrúlega magnað að vinna á svona lítilli starfsstöð eins og RÚVAK var. Maður var allt í öllu, var í fréttum, íþróttafréttum, dagskrár- og þáttagerð. Maður gerði bara það sem þurfti að gera á hverjum tíma,“ segir hann. Gestur Einar var í rúm tuttugu ára hjá RÚVAK. Í nokkur ár stjórnaði hann tveimur af vinsælustu þáttum Rásar tvö auk þess sem hann var með vikulegan Laufskálaþátt á Rás 1. Á Rás tvö var hann þættina Með grátt í vöngum og Hvíta máva. „Þetta voru ólíkir þættir. Hvítir mávar voru á dagskrá alla virka daga. Þátturinn endurspeglaði dáldið hvernig hlustendum leið á hverjum tíma. Ég spjallaði við þá og fólk sendi mér allskonar sögur og kveðjur sem ég las upp og svo spilaði ég óskalög. Þegar ég byrjaði með þáttinn var faxvélin aðal hjálpar tækið. Ég safnaði á tímabili öllum þeim föxum sem ég fékk og þegar ég henti þeim voru þetta um 15 þúsund sendingar sem mér höfðu borist. Með Grátt í vöngum var annarskonar þáttur sem var í loftinu síðdegis á laugardögum. Í þættinum spilaði ég tónlist frá mínum æskuárum. Þetta var þátturinn sem fólk hlustaði á þegar það var að undirbúa sig undir laugardagsgrillið eða að þrífa heima hjá sér.“ Gestur Einar segir að fólk hafi verið þakklátt fyrir þessa þætti og honum hafi borist margar persónulegar kveðjur, harðfiskur blóm og konfekt. Svo kom hrunið og það var ákveðið að skera niður hjá RÚV og það var til þess að Gestur Einar missti vinnuna.
Gestur Einar á glæsilegan feril að baki sem leikari og fjölmiðlamaður. Hann stóð á sviðinu hjá Leikfélagi Akureyrar í nærri 20 ár og lék í nokkrum kvikmyndum. Hann lék meðal annars nokkuð stórt hlutverk í hinni sígildu mynd Stellu í orlofi. Þar fór hann með hlutverk fýlupúkans Georg eiginmanns Stellu. „Stella er klassík. Það kemur oft fyrir að þeir sem koma að skoða safnið muna eftir mér úr myndinni og biðja um eiginhandaráritun. Mér finnst alltaf gaman þegar fólk kann textabrot úr myndinni og fer með þau fyrir mig,“ segir hann og hlær.
Hin síðari ár hefur Gestur verið með þætti á sjónvarpsstöðinni N4. „Hvítir mávar gengu í endurnýjun lífdaga þar. Þar fékk ég góða gesti sem rifjuðu upp skemmtileg atvik úr eigin ævi. Í sumar var gert hlé á gerð þáttanna og það er ekki ljóst hvert framhaldið verður. Það kemur bara í jós.“
Í dag er í nógu að snúast á Flugsafninu á Akureyri. Þar eru nú staddir 25 flugvirkjanemar að taka í sundur flugvélar og setja þær saman aftur. „Ég sé ekki betur en þeir uni hag sínum vel. Mér finnst alveg einstaklega gaman að hafa þetta unga fólk hér á safninu. Þetta er daufasti tíminn á árinu og þau lífga svo sannarlega upp á dagana,“ segir Gestur Einar. Sjálfur tók hann flugpróf fyrir áratugum síðan og segist enn vera að fljúga. „Ég á hlut í lítilli flugvél ásamt nokkrum vinum mínum. Vélina nota ég af og til. Flugbakterían hverfur aldrei, það er ég vissum um,“ segir Gestur Einar að lokum.