Getur að hámarki fengið aðstoð við böðun einu sinni í viku

Ögmundur Jónasson

„Fyrir fáeinum árum breyttust áherslur stjórnvalda í úrræðum fyrir aldrað fólk sem þarf á stuðningi og umönnun að halda. Í stað þess að stefna að því að fólk fengi vistun á stofnun skyldi nú stefnt að því að sem flestir yrðu sem lengst á heimilum sínum,“ segir Ögmundur Jónasson fyrrverandi alþingismaður og heilbrigðisráðherra í grein í Morgunblaðinu.

„Forsenda þessa var þá sú að í stað þess að veita fólki stuðning á stofnunum kæmi sá stuðningur inn á heimilið, bæði í aðstoð við heimilishaldið eftir atvikum, og þá ekki síður við að sinna líkamlegum og félagslegum þörfum.

Þessi stefna hefur notið almenns stuðnings í samfélaginu. En þá fyrst og fremst sem stefna. Það fólk sem hefur kynnst stefnunni í framkvæmd er ekki allt jafn sannfært.

Öllum ber þó saman um að alhæfingar séu varasamar. Í fyrsta lagi eru þarfir fólks mjög mismunandi, bæði líkamlegar og félagslegar. Sumir verða snemma illa á sig komnir til líkama og sálar og þurfa fyrir vikið mikinn stuðning, aðrir eru lengur sjálfbjarga. Hin félagslega umgjörð er einnig afar mismunandi, sumir búa við þéttriðið öryggisnet fjölskyldu og vina, aðrir eru einangraðir. Á endanum þurfa þó flestir mikla aðstoð.

Ég hef séð til verka fólks sem sinnir heimahjúkrun og aðhlynningu í heimahúsum og sannfærst um að þar er upp til hópa afar hæft og gott fólk. En ég hef líka fengið að kynnast álaginu sem þetta fólk starfar undir og hver kjör því eru búin.

Nú fréttist að svo sé komið að erfitt verði að manna þjónustuna til að sinna lágmarksþörfum á komandi mánuðum. Í stað þess að halda í horfinu, hvað þá að draga úr þjónustunni(!), hefði þurft að bæta verulega í, því ekki hef ég hitt þann einstakling sem telur ástandið viðunandi.

Hjálparþurfi fólk á tíræðisaldri í heimahúsi í Reykjavík getur að hámarki fengið aðstoð við böðun einu sinni í viku. Er það þannig sem við viljum hafa þetta? Er þetta dæmi um framangreinda stefnu – allir heima sem lengst – í framkvæmd?

Næstkomandi laugardag klukkan 12 á hádegi verður efnt til fundar í Iðnó í Reykjavík um þetta málefni til að fræðast og fylkja síðan liði til að fá úr þessu bætt. Það þarf að gerast. En það gerist ekki með þögninni og ekki af sjálfu sér. Mér segir svo hugur að ástandið sé ekki að batna heldur versna. Hvað segja yfirvöld? Er þetta rétt og er það þá ásættanlegt?

Þetta er alvörumál. Þetta er mannréttindamál. Og við eigum að sameinast um að knýja á um að úr þessu verði bætt. Það þolir enga bið,“ sagði Ögmundur ennfremur í Morgunblaðinu.

 

Ritstjórn maí 11, 2017 11:30