Okkur er boðið til Parísar, beint inn í Rauðu mylluna þar sem bóhemar, skækjur, aðskotadýr, utanveltugemsar, broddborgarar og hversdagskarlar og -kerlingar koma til að skemmta sér og upplifa sínar villtustu fantasíur. Þar skín demanturinn Satine skærast og allir bíða eftir að hún birtist í mögnuðu lokaatriði sýningarinnar.
Og hún veldur ekki vonbrigðum, hvorki áhorfendaskaranum né karlmönnunum tveimur sem eru staðráðnir í að hitta hana. Söngvaskáldið Christian er eggjaður áfram af vinum sínum Henri de Toulouse-Lautrec og Santiago. Þá tvo hefur lengi dreymt um að setja upp sýningu í Rauðu myllunni og sjá sér leik á borði þegar snjall söngvasmiður er mættur í þeirra hóp tilbúinn að hefja hugsjónir þeirra um frelsi, fegurð, sannleik og ást upp á svið. En veröldin snýst um peninga. Satine er ekki frjáls, hún á að fórna sér fyrir hina og halda hertoganum nægilega uppteknum og ánægðum til að hann fjármagni sýninguna og Rauðu myllunni um leið.
Þetta er fjörug og skemmtileg sýning, full af gleði, frábærri tónlist, dásamlegum dansatriðum og fyndnum tilsvörum. Leikmyndin er stórkostleg og ég hef aldrei séð hennar líka á íslensku leiksviði. Ljósahönnun Pálma Jónssonar er sömuleiðis framúrskarandi og leggur línurnar í hvað varðar öll blæbrigði í andrúmslofti hverrar senu. Dansatriðin eru einstaklega vel útfærð og þar er ekki stigið eitt einasta feilspor. Þau eru lifandi, tilþrifamikil, tjáningarrík og áhrifamikil. Íslenskir dansarar eru svo augljóslega á heimsmælikvarða. Danshöfundarnir eru þau Anja Gaardbo, Jennie Widegren, Zain Odelstål og Kirsty McDonald. Justin Levine og Matt Stine sáu um dansútsetningu og það er augljóst að þarna hafa frábærir listamenn lagt gjörva hönd á allt. Svo verður að nefna Braga Valdimar Skúlason sem þýddi leikgerðina og alla söngtexta í sýningunni snilldarlega og það eykur skemmtunina hundraðfalt. Og ekki síður hvernig hann leikur sér með íslenska dægurlagatexta.
Frábærir dansar og dansarar
Brynhildur Guðjónsdóttir leikstjóri og Astrid Lynge Ottosen og Andrea Ruth Andrésdóttir búninga- og leikgervahönnuðir eiga stórkostlegt hrós skilið fyrir að nýta búningana til að koma með þarft innlegg í áleitna og herskáa umræðu í samfélaginu undanfarið. Það er svo gott að sjá fjölbreytileikann og hið margbrotna í hverri manneskju dregið upp á raunsannan máta. En það eru alltaf leikararnir sem mest mæðir á. Ef þeir ná ekki að vera trúverðugir í sínu og hrífa áhorfandann með sér er allt unnið fyrir gíg. En það gerist ekki hér.
Mikael Kaaber og Hildur Vala Baldursdóttir eru frábær í hlutverkum Satine og Christians. Mikael hefur einmitt þetta yfirbragð sakleysis sem til þarf til að túlka ungan hugsjónamann. Hann stígur opineygður og fordómalaus inn í veröld spillingar þar sem peningar tala en nær með einlægni sinni og trú á ástina að snerta löngu hljóðnaða strengi í jafnvel hörðustu hjörtum. Hildur Vala er glitrandi og fögur Satine, kona sem þarf að velja milli vina sinna, í raun fjölskyldunnar, og ástarinnar. Kona sem þarf að halda manni sem hún elskar ekki ánægðum til að veröld hennar fari ekki á hvolf. Gömul saga og ný þótt konur hafi vissulega náð meira sjálfstæði og auknu vali hér á vesturlöndum en var á þeim tímum er sýningin á að gerast. Við vitum þó nú orðið að enginn hóra gengur hamingjusöm að sínu verki og líklega fórnar engin kona sér fyrir heildina með glöðu geði. En hér er auðvitað við söguna að sakast, tíðarandann og viðhorf til kvenna. Áhorfendur fá hins vegar tækifæri til að setja sína fyrirvara við slíkar frásagnir og fyrirgefa það sem kann hljóma á skjön. En ástin fer aldrei úr tísku og ekki heldur þær fórnir sem öll eru tilbúin að færa fyrir hana.
Halldór Gylfason er stórkostlegur Zidler. Hann er meðal okkar allra bestu gamanleikara og hittir alltaf á réttu takkana en hér er hann ekki bara trúður, ekki bara skúrkur tilbúinn að selja demantinn sinn fyrir peninga heldur maður í erfiðri stöðu sem þarf að taka ákvarðanir er varða heill margra. Það verður líka að nefna Björn Stefánsson í hlutverki Henri Toulouse-Lautrec og Val Frey Einarsson í hlutverki hertogans. Þeir eru beinlínis heillandi báðir tveir. Haraldur Ari Stefánsson og Íris Tanja Flygenring leika Santiago og Nini. Þeirra hlutverk gefa minna tilefni til tilþrifa en bæði fara afskaplega vel með sitt. Annars er varla hægt að taka hér einn fram yfir annan. Allur leikhópurinn er sérlega vel samstilltur og hvergi hægt að finna hnökra. Niðurstaðan er sú að eftir kvöld í Rauðu myllunni í Borgarleikhúsinu fer áhorfandinn syngjandi heim og sumir freistast til að taka dansspor.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.