Eftir hátíðarnar er gott að hvíla magann og borða grænmetisrétti í nokkur mál eftir margar, þungar veislumáltíðir. Hér er uppskrift að einum sem óhætt er að mæla með, Hann er ætlaður fyrir fjóra:
1 laukur
2-3 hvítlauksrif
2 msk. olía
2 tsk. kummin
2 tsk. túrmerik
1 tsk. engiferduft
1/4 tsk. chili pipar
1 dós tómatar
1 dós kjúklingabaunir
350 ml vatn
salt
500 g sætar kartöflur
15o g gulrætur
1 kúrbítur
Saxið laukinn og pressið hvítlaukinn. Hitið olíuna í potti og látið laukinn og hvítlaukinn krauma við meðalhita í nokkrar mínútur án þess að brúnast. Bætið þá þurrkryddinu út í pottinn og hitið þar til kryddið ilmar vel. Setjið tómatana og kjúklingabaunirnar út í ásamt vökvanum í dósunum. Bætið vatninu við, saltið og hitið að suðu. Látið malla í smá stund. Afhýðið sætu kartöflurnar og gulræturnar og skerið í fremur litla bita. Skerið kúrbírinn í bita. Setjið grænmetið út í pottinn og látið réttinn malla undir loki í um 20 mínútur eða þar til grænmetið er orðið meyrt. Berið fram með kúskúsi.
Kúskús:
250 g kúskús
sjóðandi vatn eftir þörfum
2 msk. ólífuolía
safi úr einni sítrónu
nýmalaður, svartur pipar
salt
1/2 knippi steinselja, söxuð
Útbúið kúskúsið samkvæmt leiðbeiningum á pakka og látið standa í nokkrar mínútur. Hærið þá olíu og síterónusafa saman við, kryddið með pipar og salti og hrærið að lokum steinseljunni saman við.