Gömul hús í úthverfum á lægra verði en nýjar íbúðir

Sverrir Kristinsson

Sverrir Kristinsson

Margir sem eru að komast yfir miðjan aldur, velta fyrir sér að skipta um húsnæði, en aðrir eru ákveðnir í að búa í sínum húseignum eins lengi og þeir geta.

Margir vilja selja stóru húsin

Töluvert framboð er á höfðuborgarsvæðinu af einbýlishúsum sem eru milli 200 og 300 fermetrar að stærð, en yfirleitt er það fólk sem er komið yfir miðjan aldur sem er að selja þessar eignir. Samkvæmt uppýsingum  Fasteignamatsins hafa þessar eignir hækkað minna í verði á undanförnum árum en eignir í fjölbýli. 

Nýjar íbúðir geta kostað meira en ódýrustu húsin

Það er algengt að verð á þessum húsum sé á bilinu 50-70 milljónir króna, en það fer eftir staðsetningu.  Nýlegar stórar blokkaríbúðir sem verið er að selja sérstaklega fyrir þennan aldurshóp eru á mjög breytilegu verði ýmist lægra verði eða hærra, allt eftir því hvar þær eru.  Sverrir segir það afstætt hvort verðið sé lágt á þessum eldri húsum.  Nýjar íbúðir eru yfirleitt dýrari en gamlar íbúðir.  Það segir þó ekki alla söguna því að fyrstu árin verður viðhaldskostnaður væntanlega lítill eða enginn. Stundum sé sett of hátt verð á eldri hús, eða hús sem eru 30-50 ára gömul.  Þegar mikið þurfi að gera fyrir þau, taki sá sem býður í eignina mið af því.

Viðunandi verð

„Það selst allt á markaðsverði“, segir Sverrir sem telur að þessi eldri hús hafi verið að seljast á viðunandi verði.  Það sé ekki óeðlilegt að einhverjar afskriftir séu af húsum sem séu orðin nokkurra áratuga gömul.  En verðið fari eftir ýmsu og staðsetning húsanna vegi þarna hvað þyngst.  Sverrir segir að það sé alþjóðleg þróun að fermetraverð íbúðarhúsnæðis sé hæst í miðborgum og hverfunum sem að þeim liggja.

Fermetraverðið lækkar fjær miðborginni

Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær, að fasteignaverð í miðborginni hafi farið að hækka eftir árið 1997.  Blaðið vitnaði í lokaverkefni Kára Auðuns Þorsteinssonar til meistaraprófs í fjármálahagfræði við Háskóla Íslands, en samkvæmt því lækkaði fermetraverðið í Reykjavík  um 15 þúsund krónur, við hvern kílómetra sem fjarlægðin frá miðborg Reykjavíkur jókst.

Mikil eftirspurn eftir eignum í miðbænum

Þannig er fermetraverð í miðbænum hærra en annars staðar. Ef stórar eignir koma á markaðinn í miðborginni er mikil eftirspurn eftir þeim.  Eftirspurnin er meiri en framboðið, sem ýtir verðinu upp. Sverrir segir að það hafi einnig haft áhrif til hækkunar á fasteignaverði í miðborginni að fjárfestar hafi keypt þar húsnæði til að leigja ferðamönnum.

 

 

 

 

 

Ritstjórn október 2, 2014 10:22