Það er ekki að ástæðulausu að Viðey hefur verið kölluð perla Reykjavíkur. Náttúra eyjarinnar er fjölbreytt og falleg og saga hennar merkileg. Undanfarin ár hefur verið boðið upp nokkra fasta viðburði í eynni meðal annars sólstöðugöngu á Jónsmessu og kúmentínslu á hverju hausti. Kúmenið fer að verða fullþroskað og það er tilvalið að undirbúa sig fyrir kúmensöfnun með því að ganga um Viðey undir leiðsögn Bjarkar Bjarnadóttur, skoða aðrar plöntur þar og hlusta á þjóðsögur. Hér að neðan er að finna allar upplýsingar um komandi viðburði í Viðey.
Þjóðsögur og plöntuskoðun
Laugardaginn 17. ágúst kl. 13:15 verða börnum sagðar þjóðsögur í Viðey í skemmtilegri náttúrugöngu þar sem sögukonan verður Björk Bjarnadóttir umhverfis- og þjóðfræðingur.
Spáð verður í jurtirnar, nöfn þeirra, athugað verður hvort það fylgi þeim einhver þjóðtrú, nytjar þeirra skoðaðar og fjallað um lækningamátt þeirra ásamt því sem fylgst verður með fuglalífi á eynni. Horft verður á hafið og sagðar þjóðsögur af marbendlum, margýgjum, hafmönnum, hafströmbum og öðrum verum sem búa í hafinu. Rætt verður um uppruna huldufólks og sögð saga sem tengist Magnúsi Stephensen konferenzráð og huldukonu einni. Fjölbreytt saga eyjunnar mun fléttast inn í gönguferðina.
Gangan er jafnt fyrir börn og fullorðna og ef fólk vill getur verið gaman að koma með jurta- eða fuglabækur og stækkunargler.
Ókeypis er á viðburðinn, en greiða þarf í ferjuna. Gestir eru hvattir til að kaupa miða fyrirfram í ferjuna á elding.is.
Siglt er frá Skarfabakka í Viðey kl. 13:15 og tilbaka ekki seinna en 15:30.
Kúmentínsla
Þriðjudagskvöldið 20. ágúst kl. 18:00 verður farið í hina árlegu kúmentínslu um Viðey. Kúmen vex villt í Viðey og er nú orðið fullþroskað og tilbúið til tínslu. Farin verður skipulögð kúmentínsla um eynna þar sem kynnt verður meðferð og virkni kúmens og hvar það sé helst að finna. Björk Bjarnadóttir, umhverfis- og þjóðfræðingur leiðir kúmentínsluna og segir gestum frá sögu kúmensins og fleiru sem tengist Viðey.
Upphaf kúmenræktunar má rekja aftur til Skúla Magnúsar landfógeta sem hóf ýmsar ræktunartilraunir í Viðey upp úr miðri átjándu öld, þó með misjöfnum árangri. Viðeyjarkúmenið vex þar enn og þykir smærra og sætara en annað kúmen en það eru ekki allir sem vita að þetta litla fræ hefur þónokkurn lækningamátt og ekki skemmir fyrir hversu bragðgott það er.
Gestir eru hvattir til að taka með sér taupoka, skæri, jurtabækur og nesti.
Ókeypis er á viðburðinn, en greiða þarf í ferjuna. Gestir eru hvattir til að kaupa miða fyrirfram í ferjuna á elding.is.
Siglt er frá Skarfabakka í Viðey kl. 18:00 og tilbaka ekki seinna en 21:30.