Vísindamenn hafa hingað til talið að háralitur erfist og að hár gráni vegna þess að framleiðsla á litarefninu melanin minnkar þegar fólk eldist.
Á vef Huffington Post var hins vegar nýlega greint frá nýrri rannsókn sem kollvarpar þessum hugmyndum. Vísindamenn telja sig hafa funið gen sem talið er að stýri því að fólk verður gráhært. Reynist það rétt gæti sú þekking nýst til að koma í veg fyrir að fólk verði gráhært í framtíðinni.
„Við þekkjum nokkur gen sem tengjast skallamyndun og háralit en þetta er í fyrsta skipti sem okkur tekst að greina gen sem hafa áhrif á lögun hárs, þéttleika sem og gen sem valda gráu hári“ segir stjórnandi rannsóknarteymisins, Kaustubh Adhikari hjá University College í London.
Rannsóknin sem birtist í tímaritinu Nature Communications tók til úrtakshóps sex þúsund íbúa Suður Ameríku hverra forfeður voru frá Evrópu, Afríku eða voru innfæddir, þ.e. Indjánar. Greining dró svo fram genið IRF4. Áður höfðu menn talið að það gen stæði í sambandi við háralit en nú fékkst vísbending um að genið ylli gránun hárs með því að stjórna myndun melanins sem svo aftur gefur hári, augum og húð lit.
Þetta gætu verið góðar fréttir við þau sem eru að reyna að viðhalda sama háralit og þau höfðu á yngri árum. Það að gráa genið sé fundið gæti hjálpað vísindamönnum til þess að finna leiðir til að hægja á myndun grárra hára í framtíðinni.
„Það sem við fundum gæti aukið þekkingu á því hvernig genin ráða útliti okkar,“ segir Adhikari.
Rannsóknarfólkinu tókst einnig að bera kennsl á gen sem stjórna áferð hárs, liðuðu, sléttu o.s.f.v. sem og þykkt hára í skeggi og augabrúnum.
Þegar við eldumst verður áferð hársins stökkari og þurrari og því mikilvægt að hugsa vel um það. Sé um tímabundna gránun að ræða gæti vítamínskortur eða misvirkur skjaldkirtill verið orsök litaskiptanna og því full ástæða til að láta rannsaka það.