Grænmetisréttur við allra hæfi

Nú hafa kjötmáltíðir verið fyrirferðarmiklar yfir sumartímann þar sem grill og kjöt er samofið í hugum margra. Og nú er sláturtíðin í algleymingi og fé komið af fjalli svo lambakjötið fær sitt pláss. Þá er ekki vitlaust að prófa dýrindis grænmetisrétt sem óhætt er að fullyrða að fellur flestum í geð. Þeir sem sakna kjötsins geta hæglega steikt kjúklingabringur og borið fram með eða jafnvel skorið þær niður í réttinn, í svipaða bita og grænmetið og látið kjötið eldast með. Þannig tekur kjötið bragð af gómsætri sósunni. Hugmyndin að þessari uppskrift er fengin hjá Alberti Eiríkssyni sem heldur úti uppskriftavefnum www.alberteldar.com.

Pottréttur með kókos og karrí

3 laukar

2 dl jómfrúarólífuolía

1 miðlungs sæt kartafla

lítið brokkólíhöfuð

1 rauð paprika

2 gulrætur

6 kirsuberjatómatar

1 grænmetisteningur

1 dl vatn

4 msk. ferskt kóríander

1 dós kókosmjólk

linsubaunir eða smjörbaunir eftir smekk

1-2 msk. karrímauk eða karríduft

Skerið allt grænmetið í hæfilega stóra bita og kjötið ef það er með. Hitið olíuna í stórum potti, látið karríið og laukinn út í og steikið um stund. Bætið við gulrótum, sætum kartöflum, brokkólí, papriku, tómötum, grænmetiskrafti og vatni. Sjóðið í um 20 mínútur við lágan hita. Bætið þá kóríander, kókosmjólk, soðnum baunum og karríi út í. Mörgum þykir ómissandi að hafa banana í þessum rétti þótt sumum þyki þeir of sætir. Þeir eiga þó vel við karríbragðið. Látið sjóða í nokkrar mínútur til viðbótar. Saltið og piprið ef þarf. Berið fram með hrísgrjónum og brauði ef vill.

Ritstjórn september 25, 2020 14:12