Gullbrúðkaup í sjónmáli

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

„Manstu hvað okkur þóttu afi þinn og amma gömul þegar þau héldu upp á gullbrúðkaupið,” sagði minn betri helmingur þegar við vöknuðum einn morguninn nú í janúarbyrjun. Ástæða þessarar upprifjunar frúarinnar á gullbrúðkaupi þessa góða fólks, sem ég er kominn út af, er að þennan dimma vetrarmorgun fyrir skemmstu mundum við að 47 ár voru liðin frá því að við hjónakornin hófum okkar vegferð saman. Brúðkaup okkar héldum við að vísu síðar en það breytir ekki því að saman höfum við rölt æviveginn í nær hálfa öld.

„Við erum ekki eins gömul og þau voru þá – er það nokkuð?” sagði mín góða eiginkona um leið og hún vatt sér fimlega fram úr rúminu. „Nei, nei,” sagði ég og fullvissaði konuna um það að við værum ekki síður ungleg en vel strekktir Hollýwúddleikarar. „Þú verður að muna það að við vorum rétt af barnsaldri þegar við byrjuðum saman, þú átján og ég nítján.”

„Þau voru nú heldur ekkert gömul þegar þegar þau giftu sig, amma þín og afi, hún kannski 21-22 ára og hann árinu eldri,” hélt konan áfram og rifjaði upp gullbrúðkaupsveisluna í stórhýsi þeirra skipstjórahjóna við Háteigsveginn hátíðarárið 1974. Þangað mættum við, gift frá haustinu áður, með ársgamlan frumburð okkar. Óhætt er að segja að við höfum stungið í stúf við prúðbúna gullbrúðkaupsgestina, í eins samfestingum úr gallabuxnaefni, bæði með hár á herðar niður. Hárprýði eiginmannsins unga var heldur meiri en konunnar, ef eitthvað var. Afi og amma létu sem ekkert væri en virðulegar töntur slógu sér á lær. „Ja, þessi ungdómur,” hvísluðu þær sín á milli, „maður veit varla hvort er hvað.”

Þessi ungdómur ársins 1974 hefur samt þroskast og dafnað og nálgast nú óðfluga formlegan ellilífeyrisaldur, að minnsta kosti pistilskrifarinn sem er árinu eldri en frúin. Til viðbótar við áðurnefndan frumburð bættust þrjú börn í hópinn á sextán árum. Barnabörnin eru níu svo afkomendur okkar eru þrettán. Með tengdabörnunum fjórum telur stórfjölskyldan því nítján manns með okkur. Það er dágott dagsverk, þykir okkur, og bendir til þess að úr samfestingapari þjóðhátíðarársins hafi ræst.

Enn eru líka fáein ár í gullbrúðkaup okkar – og enn finnst okkur við vera til þess að gera ung, heilsuhraust sem betur fer og bæði í fullri vinnu. Hvort afkomendum okkar, það er að segja barnabörnum okkar, finnst við vera jafn gömul þegar þar að kemur og okkur þótti afi og amma vera þegar þau fögnuðu sínu gullbrúðkaupi verður að koma í ljós. Kannski finnst þeim það og þá tökum við því. Þótt amma sé náttúrlega bæði ungleg og sæt hefur það stöku sinnum hrokkið upp úr barnabarni að afi sé gamall og gráhærður – og það er erfitt að neita því, að minnsta kosti hvað háralit afans varðar.

Samt leyfi ég mér að halda, svona almennt séð, að fólk á aldri við okkur hjónin í dag sé til muna unglegra en fólk á þeim aldri var fyrir tveimur kynslóðum. Getur verið að það muni áratug eða svo, að þeir sem eru sjötugir í dag séu eins og forfeðurnir voru sextugir? Lífaldur hefur smám saman lengst. Nútímamenn eru sennilega ekki eins slitnir þegar líður að lokum starfsævi og var fyrir nærfellt fimmtíu árum.

Hvorugt okkar hjóna er verulega farið að huga að starfslokum. Við sjáum til hvernig það þróast. Vitaskuld er skynsamlegt að gera það og kannski stytta vinnuvikuna smám saman. Rétt fyrir áramót hitti ég eiginkonu æskuvinar míns og jafnaldra. Hann hætti að vinna síðastliðið haust og hafði undirbúið þá breytingu um hríð. Ég spurði konuna hans hvað hann gerði eftir að hann hætti að vinna, hvernig hann eyddi deginum. „Hann hefur aldrei haft jafn mikið að gera og nú,” sagði hún og taldi upp langa og viðamikla dagskrá hans á hverjum degi.

Það er gott að vita og í sjálfu sér tilhlökkunarefni að taka þátt í stuðinu þegar þar að kemur. Það þýðir ekkert að leggjast upp í sófa, með tærnar upp í loft, gónandi á endursýnda þætti í sjónvarpinu.

Svo er að vita hvort einhverjar gamlar frænkur hneykslast í gullbrúðkaupi okkar hjóna, sem við vonandi náum, á klæðaburði og hártísku ungdómsins. Ég held ekki. Það er flest leyfilegt í dag og verður væntanlega þegar þar að kemur. Klæðnaður barnabarna okkar er frjálslegur og hið sama gildir um hártískuna. Þau eru ýmist stutt- eða síðhærð og gildir þá einu hvort um er að ræða drengina eða stúlkurnar.

Ég sé mína ágætu eiginkonu því fyrir mér þann gullbrúðkaupsmorgun þar sem hún vippar sér fram úr, fimlega sem fyrr, hnippir í gráhærða brúðgumann og segir: „Á lappir með þig góði minn, nú dugar ekkert hangs, það er nóg að gera.”

Jónas Haraldsson janúar 14, 2019 05:46