Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir loftmengun sem eitt helsta umhverfisvandamál nútímans. Samkvæmt mati stofnunarinnar er hægt að rekja allt að sjö milljónir dauðsfalla í heiminum á ári til loftmengunar og talið er að flest þeirra orsakist af fínu svifryki. Frá þessu er greint í innleggi á Vísindavef Háskóla Íslands, þar sem Þröstur Þorsteinsson prófessor við HÍ og Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun svara spurningunni „Hvaða áhrif hefur svifryk á heilsu fólks?“
Í niðurstöðum rannsóknarskýrslu sem unnin var fyrir Vegagerðina á tímabilinu 1. ágúst 2019 til 1. júlí 2020 kemur fram að á veturna og vorin sé sérstök hætta á að aðstæður myndist þar sem svifryksmengun fer yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu. Þessar aðstæður myndast í þurru veðri þegar mikill efniviður til svifryksmyndunar er fyrir hendi, eins og nú þegar klaki og snjór er farinn af götum og gangstéttum borgarinnar en sandur, salt og agnir úr malbikssliti sitja eftir.
Niðurstöður úr rannsókninni gefa til kynna að nagladekk séu lang veigamesti þátturinn í myndun svifryks frá umferð hérlendis. Aðrir áhrifavaldar í myndun svifryks eru tegund vegyfirborðs, umferðarmagn, umferðarhraði og vegþjónusta, eins og söltun og skolun gatna. En langmestu munar um þátt nagladekkjanna.
Þó er vert að geta þess að Ísland kemur þrátt fyrir þetta vel út í alþjóðlegum samanburði; samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) er Ísland með lægsta ársmeðaltal fyrir svifryk PM2,5 og nituroxíð (NO2) samanborið við önnur Evrópulönd.
Svifryk, sem eru litlar agnir í lofti, er yfirleitt mælt í míkrógrömmum á rúmmetra (µg/m3). Algengast er að talað sé um PM10, sem eru agnir með þvermál minna en 10 míkrómetra (µm, 10×10-6 m), eða fínt svifryk, PM2,5 (þvermál minna en 2,5 µm). Svifryk sem er 0,1 til 1 míkrómetri í þvermál getur svifið um í loftinu í marga daga, jafnvel vikur, og því borist langar leiðir frá uppsprettunum. Svifryk er þannig fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin, en heilsuverndarmörk á sólarhring miðast við 50 míkrógrömm á rúmmetra.
Áhrif á heilsu fólks margstaðfest
Áhrif svifryks á heilsu eru margvísleg og vel staðfest. Áhrifanna gætir bæði vegna skammtíma útsetningar (klukkustundir, dagar) og langtíma mengunar (mánuðir, ár). Helstu sjúkdómarnir sem svifryksmengun hefur verið tengd við eru öndunarfærasjúkdómar og hjarta- og æðasjúkdómar. Heilsufarsbrestir koma fram sem versnandi einkenni sjúkdómanna, sem sjá má í aukningu í innlögnum á spítala vegna þeirra auk hærri dánartíðni af sömu sökum. Til viðbótar geta atburðir með háum styrk svifryksmengunar valdið heilablóðföllum, hjartaáföllum, hjartsláttartruflunum, hærri blóðþrýstingi jafnvel hjá yngri einstaklingum (undir 55 ára) og skyndidauða. Einnig hefur verið sýnt fram á að svifryksmengun getur dregið úr lungnaþroska barna. Loftmengun hefur einnig verið tengd við hærri dánartíðni vegna lungnakrabbameins og nýleg rannsókn á áhrifum fíns svifryks á fjölda dauðsfalla eldri borgara sýndi að aukning um 10 µg/m3 olli 1,42 fleiri dauðsföllum fyrir hverja milljón sem varð fyrir mengun samanborið við þá sem ekki urðu fyrir henni.
Smæstu agnirnar sem ná niður í lungnablöðrur og í blóðið eru taldar geta borist til heilans og valdið þar bólgum sem tengdar eru við elliglöp og Alzheimerssjúkdóm. Örfínar agnir (<0,1 µm) eru taldar geta komist í gegnum frumuveggi, safnast fyrir í heila og haft áhrif á þroska barna og farið gegnum fylgjuna til fósturs. Einnig aukast líkurnar á því að börn fæðist of snemma eða séu léttari séu mæður þeirra útsettar fyrir loftmengun á meðgöngunni, skv. því sem segir á Vísindavef HÍ. Til viðbótar hefur útsetning fyrir fínu svifryki verið tengd við slæm áhrif á gæði sáðfrumna.
Reglulegar loftgæðamælingar
Rannsóknir á áhrifum svifryks á heilsu á Íslandi eru enn sem komið er fáar en benda til sambærilegra heilsufarsáhrifa og engin ástæða kvað vera til að ætla að áhrifin séu minni hérlendis. Í rannsókn frá árinu 2012 mátti sjá beint samband milli svifryksmengunar í Reykjavík og aukinnar úttektar á astmalyfjum.
Á vegum Umhverfisstofnunar eru loftgæði víða um land mæld reglulega, og hægt er að fylgjast með þeim mælingum á vefnum loftgæði.is.