Árið 1969 voru Hljómar vinsælasta hljómsveit landsins. Stjarna hljómsveitarinnar var Rúnar Júlíusson. Sama ár varð María Baldursdóttir söngkona, fegurðardrottning Íslands. Á forsíðu bókarinnar Öll mín bestu ár, er mynd af þessu stjörnupari. Bókin er eftir þá Kristinn Benediktsson og Stefán Halldórsson og hefur að geyma yfir 1000 ljósmyndir Kristins úr skemmtanalífinu á árunum 1966-1979. Stefán Halldórsson skrifar hins vegar um viðburðina og fólkið sem var í sviðsljósinu. Þetta er góð heimild um lífið og stemminguna á þessum árum.
Þótti vænt um að sjá myndina
María Baldursdóttir segir að sér hafi þótt vænt um að sjá þessa mynd í bókinni, en hún hafði aldrei séð hana. Þau Rúnar voru saman í 46 ár og eignuðust tvö börn, en hann féll frá fyrir 7 árum. „Mér finnst hann alltaf með mér“, segir María,“ en mér fannst hann færast nær mér þegar ég sá þessa mynd“. Hún segir að þótt hún hafi verið fegurðardrottning og hann poppstjarna hafi þau bara verið eins og hver annar. „Myndin sýnir bara hvernig við vorum á þessum tíma og við vorum hvorugt fyrir það að vera eitthvað áberandi“, sagði hún í samtali við Lifðu núna.
Landaði þrennu
Í myndatextanum við myndina af Rúnari og Maríu í bókinni segir: Kóngurinn og drottningin: Þetta kvöld náði Rúnar Júlíusson og landa frægri þrennu: Að eiga fegurstu konuna, til viðbótar því að hafa komist í landsliðið í knattspyrnu og vera í vinsælustu hljómsveitinni.