Hamingjan eykst með hækkandi aldri

Vísindalegar rannsóknir hafa sannað að hamingjan eykst með hækkandi aldri. Aldurinn einn og sér tryggir þó ekki hamingjuna heldur viðhorfin sem við tileinkum okkur og það sem við gerum. „Við getum öll tileinkað okkur aðferðir sem geta stuðlað að aukinni hamingju okkar og vellíðan. Fjölmargar æfingar og andleg „leikfimi“ getur aukið vellíðan okkar,“ segir Ragnhildur Vigfúsdóttir markþjálfi, en hún og Edda Björgvinsdóttir leikkona eru með námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands sem þær kalla Fjörefni fyrir 50+. Þær kynntust í námi í jákvæðri sálfræði og ætla á námskeiðinu að deila því sem einkennir fólk sem gengur vel í lífinu.

Allir þurfa andlegt fjörefni

En þarf eldra fólk frekar á andlegu fjörefni að halda, en þeir sem yngri eru? Ragnhildur segir að allir þurfi andlegt fjörefni, en þær langi til að vinna með hópnum sem er að komast á það sem kallast þriðja æviskeiðið og er til í að takast á við ný verkefni, nýjar áskoranir og ný tækifæri. Edda vitnar hins vegar í kollega sinn Jane Fonda sem kallar þriðja æviskeiðið 3. þátt – og vill frekar horfa á lífið sem stiga en sem kúrfu. „ Við höldum áfram að þroskast, eða getum það að minnsta kosti ef við viljum“, segir Edda. Jane Fonda sagðist hafa orðið að horfa til baka – á fyrstu tvo þættina – áður en hún gat ákveðið hvernig hún vildi hafa þriða þáttinn. „Við ætlum reyndar ekki að dvelja við fortíðina á námskeiðinu, heldur staldra við nútíðina og undirbúa framtíðina“, segja þær stöllur.

Auðvelt að gleyma sjálfum sér í amstri daganna

Hvað getur svona námskeið gert fyrir fólk? „Kraftaverk,“ segja þær en draga svo strax í land. „Við vonumst til að námskeiðið geti stutt við lífsstílsbreytingar hjá fólki, aðstoðað þátttakendur við að tileinka sér nýja siði sem vonandi auka vellíðan þeirra og jafnvel hamingju.“ Þær segja alltaf þörf fyrir fjörefni af þessu tagi. „það er svo auðvelt að gleyma sjálfum sér í amstri daganna og leyfa lífinu að líða hjá. Við höfum öll gott af því að nema staðar og velta því fyrir okkur hvernig okkur líður og hvað við getum gert til að auka enn frekar vellíðan okkar“.

 

Ritstjórn febrúar 25, 2016 11:07