„Það er margt hægt að gera í lífinu ef maður gefst ekki upp þótt á móti blási,“ segir Rannveig Anna Jónsdóttir, kölluð Anna, stofnandi Konubókastofu á Eyrarbakka. Anna fæddist með galla í hrygg sem setti af stað slitgigt þegar hún var á fermingaraldri. Hún hefur verið öryrki frá því hún var 21 árs, en það hefur ekki aftrað henni frá að taka sér ýmislegt áhugavert fyrir hendur. Konubókastofu stofnaði hún upp á eigið eindæmi árið 2013, en þar eru varðveitt ritverk eftir íslenskar konur og verk sem skrifuð hafa verið um konur. Nú hefur safnið sprengt utan af sér húsnæðið og er að lenda í vanda.
Anna er orðin mjög slæm í hálsi og mjóbaki og á leiðinni í enn aðra aðgerðina þegar blaðamann Lifðu núna ber að garði í Konubókastofu. „Seinustu árin hef ég verið slæm í fæti og farið í tvær aðgerðir út af því. Annars er ég búin að fara í um það bil 13 aðgerðir og er eiginlega hætt að nenna að telja. Með tímanum hefur vefjagigt, lungnavandamál og hjartavesen bæst við ásamt öðru.“
Alin upp á sveitaheimili
Anna fluttist til Eyrarbakka ásamt eiginmanni sínum, Þorvaldi Halldóri Gunnarssyni, og tveimur dætrum þeirra árið 1998 og hefur búið þar síðan. „Húsið sem við keyptum er 39 fermetrar og í því bjuggum við í sex ár áður en við stækkuðum það í 80 fermetra. Hamingjan felst ekki í fermetrafjölda og heilsu, heldur afstöðunni til lífsins,“ segir Anna brosandi.
Anna er fædd á Blönduósi og ólst upp á Snæringsstöðum í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. „Ég ólst upp á sveitaheimili þar sem mikið var talað um bækur og jafnréttismál.“ Þaðan sprettur áhugi hennar á íslenskum kvennabókmenntum sem hún hefur sýnt einstaka ræktarsemi. Hún nam bókmenntafræði við Háskóla Íslands og fór svo í framhaldsnám í menningarfræðum í Árósum. „Í náminu í Háskólanum kynntist ég kvennabókmenntum betur og sá hve margar bækur eftir konur hafa týnst og farið forgörðum.“ Hún byrjaði að safna að sér bókum eftir konur árið 2008 þangað til magnið var orðið svo mikið að það rúmaðist ekki lengur heima hjá henni.
Hugmyndin að breskri fyrirmynd
Hugmyndin að stofnun Konubókastofu kviknaði þegar Anna var á ferðalagi á Englandi árið 2008. „Við fórum saman fjölskyldan til Bath og þar sá ég að í Hampshire, skammt frá, var safn með merkilegum heimildum um ritstörf breskra kvenna. Safnið heitir Chawton House og er í húsi sem bróðir Jane Austen átti, en hússins er getið í bréfum skáldkonunnar. Ég hringdi á undan mér til að fá leiðsögn um safnið og flestir gestir voru komnir þangað út af tengingunni við Austen. Þegar ég gekk út úr húsinu voru maðurinn minn og dætur úti í garði í glampandi sól. Ég man að ég fór rakleitt til þeirra og tilkynnti þeim að ég ætlaði að stofna svona safn þegar ég kæmi heim.“
Landsbankinn var lengi með aðstöðu á neðri hæð Blátúns við Túngötu þar sem Konubókastofa er nú. Þegar bankinn ákvað að loka útibúinu árið 2013 hafði Anna samband við Árborg og spurði hvort hún mætti setja upp safnið í húsnæðinu. Það var samþykkt. Sveitarfélagið leggur til húsnæðið Konubókastofu að kostnaðarlausu.
Bækur til varðveislu, ekki útláns
Á heimasíðu Konubókastofu eru allar bækur safnsins skráðar og þar má sjá hvað er til og þá jafnframt hvað vantar. Safnkosturinn er hins vegar ekki skráður í landskerfi bókasafnanna. „Það kostar svo mikið að vera þar að Konubókastofa hefur ekki efni á því,“ segir Anna. „Það eru bækur hér sem hafa verið gefnar út í litlu upplagi og konur vilja að séu á þessu safni, en þær eru ekkert endilega til á öðrum söfnum.“
Konubókastofa er varðveislusafn. „Það hringdi kona áðan og ætlaði að fá bók lánaða sem hún sá hér skráða, en við lánum ekki bækurnar. Við varðveitum þær. Gestum er hins vegar velkomið að koma hingað, skoða bækurnar og lesa þær. Ég ákvað að kalla þetta Konubókastofu af því að ég vildi að gestum, sem hingað kæmu, liði eins og þeir væru inni í stofu á heimili.“
Fjölbreytt úrval bóka
Anna segir að öll verkin á safninu hafi einstaklingar, bókaútgáfur, rithöfundar og bókasöfn gefið. „Núna er til mjög mikið af eldra efni, bæði bókum og blöðum, mörg ótrúlega falleg prentverk,“ segir Anna. „Helst vantar efni sem kom út eftir 1980 og til dagsins í dag. Við höfum leitast við að eiga eitt eintak af hverju verki.“
Ljóðaunnendur sjá fljótt að á Konubókastofu ber vel í veiði. „Margar af ljóðabókunum hér hafa komið út í mjög litlu upplagi,“ segir Anna. „Ættingjar og höfundar sjálfir hafa séð til þess að bækurnar væru að minnsta kosti til hér. Þá eru hér matreiðslubækur eftir konur, uppeldisráð og leiðbeiningar um hvernig konur skuli haga sér. Hér er til dæmis bók þar sem einn kaflinn fjallar um það hvernig stúlka á að tala við pilt. Þá er í einni bók kafli sem heitir „peysuuppskriftir fyrir grannar og feitar konur“. Sérstæðasta bókin á safninu er þó líklega sú sem skrifuð er með ósjálfráðri skrift, en hún er dulræn og torræð.“
Nokkur gömul lykilverk eru varðveitt á safninu, til dæmis Stúlka, ljóðabók eftir Júlíönu Jónsdóttur frá 1876. Helga Kress bókmenntafræðingur gaf safninu hana, en hún er árnaðarmaður Konubókastofu. „Við erum með fyrstu handavinnubókina sem kom út á Íslandi, höfum ljósrit af henni sem gestir geta komið og skoðað. Þá eigum við öll eintök af Nýju kvennablaði, Emblu, Hlín og mjög mikið af Veru, 19. júní og Húsfreyjunni,“ segir Anna hróðug.
Konubókastofa er í alþjóðlegum samtökum kvennasafna og í gegnum þau tengsl hafa erlendir ferðamenn sýnt safninu áhuga. „Sumir koma hingað út af því hvað við erum þekkt bókaþjóð og eins út af kvennabaráttunni hér á landi. Það er vinkill sem ég fór ekki af stað með í upphafi, okkur finnst þetta svo sjálfsagt, Íslendingum. En það hafa komið hingað fjórir blaðamenn frá fjórum mismunandi löndum og þráspurt um réttindi íslenskra kvenna sem við erum ekki lengur að spá í, eins og til dæmis hvort konur megi gefa brjóst á almannafæri. Þetta er nokkuð sem ástæða væri til að sinna betur á Konubókastofu þegar húsnæðisvandinn hefur verið leystur,“ segir Anna.
Dreymir um að safnið verði eins og Þórbergssetur
Önnu segist dreyma um að Konubókastofa verði menningarmiðstöð í ætt við Þórbergssetur á Hala í Suðursveit. „Að síðustu tveimur árum undanskildum, þá eru viðburðir hér um það bil tvisvar á ári og þeir hafa verið haldnir í Rauða húsinu, hér skammt frá, af því að húsnæði safnsins er einfaldlega of lítið. Þarna höfum við verið með alls konar dagskrá, ljóðadagskrá, ævisögur og fleira. Konubókastofa er að safna saman rituðu efni og markmið starfseminnar er að kynna höfundana og verk þeirra. Þennan þátt þarf að efla enn frekar þegar húsnæðismálin hafa verið leyst. Stundum hefur verið upplestur í safninu. En núna erum við að glíma við ákveðinn lúxusvanda, því að þegar ég auglýsi komast færri að en vilja. Því miður er ekki pláss fyrir nema 20–30 manns. Þegar stofan er komin með stærra húsnæði verður hægt að efla þennan þátt,“ segir Anna.
Menningarsetur og félagsheimili
Þegar Anna er spurð hvort sameining Selfoss, Sandvíkurhrepps, Eyrarbakka og Stokkseyrar í sveitarfélagið Árborg hefði haft neikvæð áhrif á menningarlíf Eyrbekkinga, eins og sumir spáðu, svarar hún því neitandi. „Ég kom ekki hingað fyrr en eftir sameininguna og hef ekkert nema gott um hana að segja. Gestir sem sækja viðburði hingað á Konubókastofu eru miklu fremur frá Selfossi en Eyrarbakka. Hér er aðeins lítil verslun, en ekkert pósthús eða banki og fátt um samkomustaði á förnum vegi. Það eru kannski neikvæðustu áhrifin af sameiningunni, ég skal ekki segja. Þeir sem hafa ekki börn á leikskóla eða í grunnskóla, þeir hitta síður aðra bæjarbúa. Ég ákvað af þessum ástæðum að vera með hannyrðastundir hér á safninu öðru hverju þar sem fólk sem er heima yfir daginn hittist. Tvær ungar mæður hafa sótt þessar stundir, öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Þá er Konubókastofa að sumu leyti eins og félagsheimili. Þetta lá að vísu niðri í Covid.“
Þá segir Anna að sveitarfélagið Árborg hafi hlaupið undir bagga í rekstrinum. „Í sumar voru til dæmis tvær stúlkur frá vinnuskóla Árborgar hér og skiptu með sér vinnu á safninu hálfan daginn til að taka á móti gestum. Hinn dagshelminginn voru þær á Knarrarósvita austan við Stokkseyri, sem er opinn almenningi á sumrin.“
Metnaðarfull framtíðarsýn
Anna hefur skýra framtíðarsýn fyrir Konubókastofu þó að hún glími við vanheilsu. Hún sér fyrir sér að þar verði fjölbreyttari starfsemi í framtíðinni, safnið verði m.a. vettvangur fyrir fundi, ráðstefnur, listsýningar og tónleika. „Ég sé fyrir mér rannsóknaraðstöðu þar sem meðal annars væri hægt að bjóða höfundum og fræðimönnum gistiaðstöðu. Hér þyrfti einnig að vera kaffihús með veitingasölu sem laðaði ekki aðeins að sér ferðamenn, heldur væri jafnframt samkomustaður fyrir íbúa og aðra gesti.“
Anna hefur hugmyndir um að á þessu ári verði bókmenntahátíð með íslenskum kvenrithöfundum haldin á Konubókastofu í samvinnu við Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO. Árið 2025 sér hún fyrir sér að Konubókastofa geti staðið að alþjóðlegri bókmenntahátíð með innlendum og erlendum kvenrithöfundum, en dagskrá hennar gæti verið víðsvegar á Suðurlandi.
Öll vinna sjálfboðastarf
Margir hafa lagt Konubókastofu lið með fjárstyrkjum, bæði fyrirtæki og einstaklingar. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veitti styrk í upphafi til að koma safninu á laggirnar og hefur jafnframt veitt marga viðburðastyrki síðan. Seðlabanki Íslands veitti fjárstyrk einu sinni og einnig Rótarý á Selfossi. Baukur er á safninu fyrir frjáls framlög. Anna segist vonast til að fá öruggt fjármagn inn í reksturinn í náinni framtíð. „Öll vinna hér er hins vegar sjálfboðastarf.“
Hagsmunafélagi Konubókastofu hefur verið komið á fót til þess að styðja við starfsemina og geta áhugasamir skráð sig á heimasíðunni konubokastofa.is. „Hver og einn getur stutt við starfsemina, til dæmis með bókasöfnun, kynningu, vinnuframlagi eða hverju sem til fellur,“ segir Anna. „Félagar eru á póstlista og fá að fylgjast með starfseminni. Þeir fá jafnframt afslátt á viðurðum og eins af minjagripum sem verða seldir hér innan tíðar.“ Árgjaldið er 3000 krónur og stendur m.a. straum af kostnaði við að reka heimasíðuna, netið og annað því um líkt.
„Ég er ekki nógu hraust,“ segir Anna. „Það er svo ótalmargt hægt að gera sem er ekki gert. Ég þyrfti í raun að ráða starfsmann, a.m.k. í hlutastarf. Að vísu er stjórn hjá Konubókastofu sem hefur verið mjög hjálpleg í rekstrinum. Fyrir það er ég mjög þakklát.“ Viðtalið við Önnur birtist fyrst á Lifðu núna í september 2021.