Wilhelm W.G. Wessman rifjar upp atvik úr námi sínu í Kaupmannahöfn.
Hluta af námi mínu stundaði ég á Palace Hotel við Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn. Þar voru hefðir og siðareglur í hávegum hafðar, bæði í umgengni við gesti og starfsfólks í milli. Við þurrftum alltaf að þérast og yfirmenn ávörpuðum við með efntirnafni. Einn af gestunum, sem gisti þar reglulega, ásamt konu, sex ára dóttur, barnfóstru og hundi, var stærsti hluthafi í Berlingske tidende. Hann bjó í Sviss sem þá var skattaparadís. Hefði sennilega verið kallaður útrásarvíkingur í dag. Hjónin ásamt hundi gistu í stærstu íbúð hótelsins, en dóttirin og barnfóstran í sér herbergi sem var í hinum enda hótelsins. Þær borðuðu aldrei með hjónunum og mér virtist sem einu samskiptin, sem dóttirin átti við foreldrana, bæri að bjóða góðan daginn og góða nótt.
Eitt, af því sem fór ákaflega í pirrurnar á okkur starfsfólkinu , var að hjónin hringdu alltaf á herbergjaþjónustu þegar þau komu heim á kvöldin og pöntuðu hakkaða hráa kálfakótelettu. Hakkaða kjötið átti að formast eins og kóteletta og beinið að vera á sínum stað. Við þoldum ekki að vera á „hunda service“. Eitt sinn, þegar ég var á kvöldvakt, pöntuðu þau hundamatinn óvenju seint. Ég var að missa af síðustu lest og varð því mjög argur. Þegar ég var að hakka kjötið segi ég við kollega minn: „Heldur þú ekki að hundurinn hafi gott af smá lauk?“.
Hann nikkaði og í fór laukurinn. Þegar ég mætti á vakt daginn eftir biðu mín skilaboð um að mæta á „teppið“ hjá hótelstjóranum, án tafar!
Þegar ég kom inn á skrifstofuna segir hann: „Segið þér mér, Wessman, var ekki kjötið, sem þér fóruð með á herbergi 101 í gærkvöldi, ekki örugglega ferskt?“
„Jú, herra hótelstjóri.“
„Og þér settuð ekki neitt krydd út í hakkið?“
„Nei herra hótelstjóri, ekki neitt. Samkvæmt mínum kokkabókum er laukur ekki krydd.“
Hann horfði lengi á mig og sagði síðan: „Þér gerið yður grein fyrir því herra, Wessman, að ef ég kemst að því að brögð séu í tafli þá rek ég yður.“
Þegar ég gekk út stundi ég upp: „Kom eitthvað fyrir?“
„Ekki annað en það að þegar hjónin vöknuðu í morgun var eins og mykjudreifari „gödningsspreder“ hefði farið um herbergið.“
Þega ég kom út af skrifstofunni hitti ég yfirþernuna, sem var að býsnast yfir þrifunum á 101. Hún hristi höfuðið og sagði: „Ég get ekki skilið hvernig allur þessi skítur gat komið úr einum búk.“
Hundurinn var ekki með í næsta skipti sem þau gistu á hótelinu.