Þórður er fæddur í Reykjavík árið 1930. Hann er elstur þriggja systkina og það eina sem enn lifir. Þórður er hávaxinn, hvíthærður maður sem samsvarar sér vel. Hann er glaðlegur athugull og stríðinn. Þórður er kvæntur og á tvö uppkomin börn og tvö barnabörn. Hann býr ásamt eiginkonu sinni í húsi sem hann byggði um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Þegar Þórður var barn smíðaði faðir hans bíla úr tré handa honum og svo bjó hann sér sjálfur til byssur af ýmsu tagi. Þetta voru leikföngin. Hann segir að börn í dag leiki sér miklu minna úti við en hans kynslóð gerði. Hann og jafnaldrar hans hafi leikið sér úti allan liðlangan daginn í allskonar leikjum þó hafi hermannaleikir verið skemmtilegastir.
Varð að hætta í skóla
Stríðsárin höfðu í för með sér miklar breytingar og á þeim árum fékk hann að gjöf, frá hermanni, bíl úr málmi fjöldaframleiddan. Það var fyrsta verksmiðjugerða leikfangið sem hann eignaðist og jafnframt það eina. Hann segist ekki hafa haft mikinn tíma til að iðka tómstundir, þó æfði hann sund einn vetur. Hann varð að hætta í sundinu enda höfðu slíkir hlutir ekki forgang, segir hann. Þórður fór snemma að vinna, ellefu ára var hann farinn að vinna við uppskipun. Hann lauk barnaprófi og fór í gagnfræðaskóla en varð að hætta í fyrsta bekk þegar móðir hans veiktist. Það gekk fyrir að hjálpa til heima. Þórður segir að fjölskylda hans hafi verið samhent og trúrækin. Faðir hans var verkstjóri við vegagerð og það þótt gott starf.
Dansa með eldri borgurum
Þórður eignaðist bíl þrítugur að aldri en við það opnuðust möguleikar til að ferðast um og skoða landið. Fjölskyldan ók um holótta malarvegi landsins með tjald í skottinu. Árin sem hann var að byggja húsið sitt og stússa við barnauppeldi voru silungsveiðar hans helsta tómstundagaman. Raunar eignaðist hann ekki veiðstöng fyrr en hann varð fertugur. Segir að á þeim tíma hafi slíkar græjur verið margfalt dýrari en í dag. Hitt helsta tómstundagaman hans var að rækta kartöflur á sumrin. Í dag sækja Þórður og kona hans tónleika, málverkasýningar og ýmsa menningarviðburði. Auk þess sem þau sækja dansleiki hjá eldri borgurum.
Sér um morgunkaffið
Virka daga sér Þórður um morgunkaffið í gömlu vinnunni sinni, og heldur þannig tengslum við fyrrverandi vinnufélaga. Hann fer í göngutúra á hverjum morgni með vini sínum, segir að þannig haldi hann sér í formi. Barnabörnin eiga einnig ríkan þátt í daglegu lífi hans, og er hann svona afi sem er til staðar fyrir þau og nýtur þess. Saga Þórðar er ein af þeim sögum sem nemendur á námskeiðinu tómstundir og eldra fólk, og kennt er við Menntavísindasvið HÍ hafa safnað. Nemendurnir hafa undanfarin misseri farið í vettvangsrannsóknir á dvalarheimili og í félagamiðstöðvar eldri borgara til að skrá tómstunda og félagsmálasögur fólks sem er orðið 70 ára og eldra. Auk þess að skrá tómstunda og félagsmálasögu hvers og eins, er safnað bakgrunnsupplýsingum um viðkomandi svo sem hvað hann vann við, búsetu, fjölda barna, atriði sem hægt er að nota í félagslegt flokkunarkerfi. Viðtölin eru undir dulnefni. Sjá nánar hér og hér.