Erna Indriðadóttir skrifar
Mér brá í brún þegar heyrnartækið mitt hætti allt í einu að virka. Hringdi í Heyrnartækni sem seldi mér tækið og spurði hvað gæti verið á seyði. Fékk þau svör að líklega væri tækið stíflað af merg og ég þyrfti að hreinsa það. Ég náði mér náttúrulega í leiðbeiningarnar sem fylgdu tækinu, en þær eru mjög fínar og á íslensku! Hefði betur verið búin að lesa þær almennilega áður en ég byrjaði að nota tækið. En sum sé, betra er seint en aldrei. Það skal tekið fram að það sem hér fer á eftir á við um heyrnartækið sem kallast Opn 2, en þetta kann að vera eitthvað mismunandi eftir tækjum.
Það kemur fram í leiðbeiningabæklingnum að ef tækið hættir að virka, er það annað hvort vegna þess að batteríið er búið eða það er stíflað af eyrnamerg, eins og var í mínu tilviki. Það þarf að hirða tækið vel. Hreinsa hljóðnemaopin og skipta reglulega um mergsíur, sem fylgdu með heyrnartækinu þegar ég keypti það. Það fylgdi líka lítill bursti til að hreinsa hátalaraopin. Það eru ágætar leiðbeiningar í bæklingnum um hvernig þetta er gert og hjá Heyrnartækni var mér sagt að það væri gott að tékka á því mánaðarlega hvernig gengi með mergsíuna. Yfir mergsíuna kemur lítil mjúk plasthetta sem tekur í sig eyrnamerg og það þarf að skipta um hana mánaðarlega.
Björn Víðisson tækjasérfræðingurinn hjá Heyrnartækni segir mikið um að fólk komi með tækið stíflað og átti sig ekki á hvað er í gangi. „Fólk gleymir mergsíunum. Það gerist kannski einu sinni tvisvar og þá kveikir fólk á þessu og man eftir að hreinsa tækið“, segir hann.
Það eru líka aðvaranir í leiðbeiningabæklingnum um Opn 2 heyrnartækið. Þetta eru lítil tæki og örsmáir fylgihlutir, þannig að það er mælt með því að þau séu geymd þar sem börn ná ekki til. Þau gætu gleypt bæði batterí og svo tækið sjálft.
Það á eingöngu að nota tækin eftir ráðleggingum læknis og það er bannað að lána þau öðrum.
Menn eiga að taka tækið úr eyranu ef þeir fara í röntgenmyndatöku, sneiðmyndatöku, MRI, PET skanna, rafmagnsmeðferð eða skurðaðgerð, þar sem heyrnartækið getur skemmst ef það er berskjaldað á svæði með mikla rafsegulvirkni.
Það er varað við því að skilja heyrnartækið eftir í bíl þar sem er mikill hiti, til dæmis í sólskini. Það á yfirhöfuð ekki að vera með það í miklum hita. Það má ekki þurrka það í örbylgjuofni eða öðrum ofnum og svo geta efni í snyrtivörum skemmt heyrnartæki. Þess vegna eiga menn að taka þau úr eyrunum áður en þeir nota hárlakk, ilmvatn, rakspíra, sólarvörn eða skordýrafælur. Það á að gefa þessum vörum tíma til að þorna áður en heyrnartækin eru sett aftur í eyrun.
Það á ekki að nota heyrnartækið í sturtu eða vatnsíþróttum og ekki setja það ofan í vatn eða aðra vökva.
Þá þarf að stilla heyrnartækið á flugstillingu, þegar farið er um borð í flugvél, rétt eins og farsímana.
Ég var mun upplýstari eftir þennan lestur og heiti því að lesa framvegis betur, leiðbeiningar með þeim tækjum sem ég er að kaupa.