Austurlandabúar voru á árum áður undrandi á þeim margvíslegu og mörgu sveiflum sem tískan á Vesturlöndum tók. Í Kína og Japan var hefðbundinn klæðanaður óbreyttur öldum saman. Búningar gengu í erfðir, enda vel til þeirra vandað og forn fatnaður frá Japan og Kína sannkölluð listaverk. Árið 1609 hreykti aðstoðarmaður japanska Shogunsins sér af því við spænskan erindreka að japanskur fatnaður hefði ekkert breyst í þúsund ár.
Þetta voru töluverðar ýkjur hjá hinum kokhrausta embættismanni en í fullyrðingunni þó eitthvert sannleikskorn. Hið rétta er að klæði fólks í Kína og Japan tóku breytingum eftir efnahagsástandi og þegar vel áraði sá þess merki í vandaðri og skrautlegri klæðum.
Á Vesturlöndum voru hins vegar árstíðaskipti í klæðaburði manna og ekki bara á þann veg að bætt væri við hlýrri fatnaði og utanyfirflíkum. Snið og línur breyttust lítillega og þótt þessar sveiflur væru hvergi nærri jafnmiklar og áberandi og nú er, blöskraði þeim austurlensku og töldu þetta til marks um óstöðugleika og eyðslusemi. Síbreytileg tískan varð þannig ein af ástæðum þess að lengi tortryggðu Kínverjar og Japanir vestrænar þjóðir svo mjög að þeir vildu helst ekki eiga í neinum viðskiptum við þær.
Hægt er að tímasetja nokkuð nákvæmlega hvenær evrópsk tíska fór að taka miklum breytingu frá einni árstíð til annarrar. Sagnfræðingar rekja upphafið til miðrar fjórtándu aldar en þá urðu gífurlegar breytingar á fatnaði karla. Jakkinn eða yfirhöfnin styttist mikið og þrengdist. Áður höfðu menn verið í yfirhöfnum sem náðu niður á kálfa en þarna urðu til jakkar sem náðu eingöngu niður á rass. Þeir voru fylltir að framan svo brjóstkassinn virtist meiri og við þennan flotta búning voru menn í þröngum buxum ekkert ósvipuðum þeim leggings sem konur ganga í nú á dögum.
„Hægt er að tímasetja nokkuð nákvæmlega hvenær evrópsk tíska fór að taka miklum breytingu frá einni árstíð til annarrar.“
Örar breytingar
Næstu öldina héldu breytingar á klæðnaði áfram vera örar og miklar. Ekki var nóg með fötin sjálf væru háð tískusveiflum, hárgreiðslan varð stöðugt flóknari og svo fór að lokum að menn kusu að bera hárkollur fremur en að reyna að aga hár sitt daglega að því sem tískan krafðist. Þá eins og nú var erfitt fyrir þá sem minna máttu sín að tolla í tískunni en greina má viðleitni lægri stéttanna til að laga sig að hinum efri í málverkum og þeim fatnaði sem varðveist hefur. Föt eru einnig ómetanlegur fjársjóður fyrir sagnfræðinga því þótt samgangur væri milli Evrópulanda hafði hvert eitt land sinn stíl og sína tísku. Þjóðlegu áhrifin á klæðaburð tóku að dvína á seinni hluta sautjándu aldar og fram á þá átjándu. Vaxandi velgengni borgarstéttarinnar er þar stærsti áhrifavaldurinn en um leið og hún fór að hafa efni á að klæða sig betur varð til iðnaður í kringum fataframleiðslu sem teygði sig yfir öll landamæri.
Fyrir þennan tíma höfðu Spánn og Ítalía leitt tískuna í Evrópu en Frakkland tekur forystuna um þetta leyti. Parísartískan verður til og skyndilega fara allar konur í Evrópu að líta þangað eftir sniðum, efnum, litum og mynstrum. Í kringum aldamótin átjánhundruð má greina þessa breytingu því allir Vestur-Evrópubúar eru skyndilega farnir að klæðast mjög svipuðum fötum.
Klæðskerar og saumakonur í hverju landi fyrir sig eru auðvitað fyrst og fremst ábyrg fyrir mörgum af þeim nýungum sem þarna urðu til. Iðnbyltingin gerði mönnum líka auðveldar fyrir að þróa efni og mynstur. Enn einn vendipunktur er augljóslega þegar Englendingurinn Charles Fredrick Worth opnar fyrsta hátískuhúsið í París, haute couture, hugtakið verður til. Haute couture var hugtak sem yfirvöld gáfu tískuhúsum sem uppfylltu tilteknar kröfur um vöruvöndun. Hvert slíkt hús þurfti að hafa að minnsta kosti tuttugu starfsmenn, sýna alla vega tvær vörulínur á ári og hafa ákveðinn fjölda efna á lager handa viðskiptavinum að velja úr. Þarna varð starfstéttin fatahönnuður til.
„Frá sjónarhóli kvenna hefur líklega stærsta tískusveiflan orðið upp úr 1920 þegar flapper-stíllinn varð allsráðandi.“
Flappertímabilið frelsaði konur
Frá sjónarhóli kvenna hefur líklega stærsta tískusveiflan orðið upp úr 1920 þegar flapper-stíllinn varð allsráðandi. Pilsin styttust gríðarlega, fötin urðu víðari og þægilegri og þær losnuðu úr spennitreyju korselettsins. Um svipað leyti fengu þær leyfi til að ganga í buxum nokkuð sem engin kona vildi vera án í dag. En upp frá þessu hafa pilsin styttst, síkkað, víkkað, þrengst og skekkst á víxl, allt eftir sköpunarkrafti og hugmyndaflugi tískuleiðtoga sem nú á dögum eiga höfuðstöðvar sínar í París, Mílanó, New York og London. Vetur, sumar, vor og haust setja tískuvikur stærstu tískuhúsanna svip sinn á borgarlífið og þar eru lagðar línur sem öll önnur fataframleiðslufyrirtæki líta til og skapa út frá.
Tískan á götum borga út um allan heim er á einhvern hátt mörkuð af þeim litum, mynstrum og sniðum sem þarna eru sett fram. Og nú fylgja Japan og Kína í kjölfar hinar óstöðugu og ótraustu vestrænu tísku. Þar spretta nú upp hátískuhús sem sýna vörur sínar og leggja línur rétt eins og á Vesturlöndum. Fyrir svo utan að í Kína og nágrannalöndum þess iðnaðarrisa er stærstur hluti tískuvara Vesturlanda framleiddur. Efnin í fötin, fötin sjálf, leður í töskur og skó, töskur og skófatnaður allt er meira og minna Made in China, India, Taiwan og víðar.
„En hvort sem aðrir eru líklegir til að apa eftir þinn stíl eða forðast hann eins og heitan eldinn er eitt nokkuð öruggt, þú sendir skilaboð með klæðnaði þínum um hver þú ert og hvert þú stefnir.“
Þinn eigin stíll
Á tuttugustu öld og þeirri tuttugustu og fyrstu þróast tískan hratt og er orðin svo breytileg að varla er hægt að tala um línu lengur, réttara væri að hafa orðið í fleirtölu, enda er orðinn til fatnaður fyrir öll tilefni og hverja þá athöfn sem menn vilja iðka. Þannig er tíska í öllum íþróttafatnaði, vinnufatnaði, skjólflíkum og fleira og fleira. Tennis og golf eru líklega þær íþróttagreinar sem hvað mest hafa verið háðar tískusveiflum í fatnaði í gegnum tíðina en nú á það líklega við um þær allar. Bolir, buxur, peysur og úlpur sem anda, halda frá raka eða svita, auka svita eða minnka og fleira og fleira. Nýjungar á þessu sviði eru einnig margar og margvíslegar og notkun gerviefna á borð við goritex, flís, polartec og fleiri hafa skapað bæði nýtt útlit og aukna vernd gegn náttúruöflunum. Sólar íþróttaskónna eru núorðið með loftpúðum til að verja fótinn höggi og hægt er að fá þá alveg vatnshelda eða þannig að þeir hleypi ekki í gegnum sig raka, Ein skemmtilegasta nýjungin er kannski sú að nú má blanda saman hverju sem er. Vera í íþróttaskóm við silkikjól og mæta þannig klæddur í veislu.
Líklega veltir enginn iðnaður í heiminum hærri fjárhæðum en tískan og kannski ekki að undra. Menn hafa þörf fyrir að skera sig úr fjöldanum, skapa sér stíl og sérstöðu. Flestir koma á einhvern hátt til skila stöðu sinni í samfélaginu með þeim fatnaði sem þeir velja, ertu ríkur, fátækur, listamaður, ungur, gamall, í góðri stöðu eða í andstöðu við menninguna? Fræga fólkið verður oft fyrst til að koma af stað nýrri tískubylgju en engir hljóta jafnóvægna gagnrýni ef klæðnaður þeirra þykir ekki eins og best verður á kosið. Fárið út af fatnaði stjarnanna á rauða dreglinum á Óskarsverðlaunahátíðinni er líklega flestum enn í fersku minni. En hvort sem aðrir eru líklegir til að apa eftir þinn stíl eða forðast hann eins og heitan eldinn er eitt nokkuð öruggt, þú sendir skilaboð með klæðnaði þínum um hver þú ert og hvert þú stefnir.