Hjákonur hafa haft undarlega stöðu í gegnum tíðina og verið umtalaðri en elskhugar. Þær hafa á stundum notið viðurkenningar samfélagsins en þess á milli útskúfunar. Enn í dag ríkja tvíbent viðhorf til þeirra og tilhneiging er til að kenna konunni og hennar töfrum um að karlinn falli í freistni. Flestar hjákonur er þó ósköp venjulegar konur og aðstæður þeirra sjaldnast eftirsóknarverðar.
Hinn ótrúi eiginmaður naut lengi nokkurrar samúðar og virðingar, enda engu líkara í sumum hópum að litið væri á það sem sérstakan rétt karlmannsins að leita út fyrir hjónabandið. Það er vel hugsanlegt að slíkt sé arfur frá fyrri tíð þegar kóngafólk og aðallinn giftust til að tryggja völd sín, lönd og eignir en völdu sér frillur fram hjá eiginkonunni. Vissulega þekktist að konur gerðu slikt hið sama en þeirra ástarævintýri vöktu iðulega mikla hneykslun og fyrir kom að þær misstu höfuðið fyrir óvarkárnina eða að elskhuginn var leiddur undir fallöxina líkt og sjá mátti í dönsku myndinni En kongelig affære þegar Struensee læknir lét lífið vegna ástar sinnar á Danadrottningu.
Valdamiklir karlmenn hafa í gegnum tíðina notið ótrúlega mikils umburðarlyndis og sumiir virðast þeir líta þannig á að með stöðunni komi rétturinn til að halda kvennabúr. Konungar Evrópu eru gott dæmi um slíkt og bæði við bresku og frönsku hirðina var alþekkt að þeir sem sátu í hásætinu héldu frillur og þær nutu virðingar meðan þær voru í uppáhaldi. Þess eru dæmi að alþýðukonur hafi ratað inn í lokrekkjur kónga og náð að hefja sig upp úr fátækt til auðs og valda vegna þess. Madame Pompadour er ein þeirra og eins Nell Gwynne. Sú fyrrnefnda var dóttir borgarlegs embættismanns sem varð að flýja Frakkland í kjölfar hneykslismála en hin leikkona.

Nell Gwynne var leikkona en náði að heilla Karl II Bretakonung.
„Ég hafði ekki kynmök við þessa konu“
En það þarf ekki kórónur til. John F. Kennedy Bandaríkjaforseti var djarftækur til kvenna og allar muna eftir einlægninni í svip Bill Clintons þegar hann sagði: „Ég hafði ekki kynmök við þessa konu.“ (I did not have sexual relations with that woman.) Honum var nokkur vorkunn því hann taldi munnmök ekki til kynmaka. Hilary fyrirgaf rétt eins og Jackie. Þær voru góðhjartaðar konur sem elskuðu sína ótrú menn rétt eins og sú sem hljómsveitin Randver söng um á árum áður.
En hvort sem konur fyrirgefa eða kjósa að skilja við menn sína eftir tryggðarrof er víst að allt er þetta enn verra þegar þetta er fyrir allra augum. Sandra Bullock lokaði sig af og lét lítið fara fyrir sér eftir að Jesse James varð uppvís að því að hafa átt í ástarsambandi við hina mjög svo myndskreyttu Michelle Bombshell McGee. Jennifer Aniston fór ekkert ósvipað að þegar Brad Pitt lék eiginmann Angelinu Jolie og komst að þeirri niðurstöðu að það hlutverk væri honum ekki á móti skapi að taka að sér líka utan hvíta tjaldsins.
Það er sárt að vera svikinn hvort sem fólk er áberandi eða hin venjulegu meðal-Jón og –Gunna. Eitt af því alversta að upplifa eru tvöföld svik en þá er vísað til þess þegar besta vinkona eiginkonunnar reynist hjákona hans. Í fyrra kom út bókin Parísarkonan um Hadley Hemingway fyrstu konu skáldsins og líf þeirra saman. Pauline Pfeiffer landa þeirra fluttist til Frakklands um svipað leyti og lagði sig mjög eftir því að vingast við Hadley. Þær urðu fljótlega bestu vinkonur en flestir sem rýnt hafa í ævi þeirra telja að Pauline hafi alltaf stefnt að því að komast upp á milli hjónanna.

Ernst Hemingway og önnur eiginkona hans, Pauline Pfeiffer.
Ekki endilega glæsikvendið
Ástarsamband þeirra hófst árið 1926 en tveimur árum síðar giftu þau sig. Hemingway hélt til Evrópu árið 1937 og hitti þar Mörthu Gelhorn sem varð hans þriðja eiginkona. Heima sat Pauline og mátti nú sætta sig við sömu örlög og Hadley áður. Á annan veg fór fyrir Shaniu Twain en þessi fórnfúsa og duglega kanadíska söngkona sem tók umönnun og uppeldi systkina sinna fram yfir eigin frama komst að því árið 2008 að eiginmaður hennar Robert „Mutt“ Lange átti í ástarsambandi við bestu vinkonu hennar, Marie-Anne Thiébaud. Söngkonan varð fyrir gífurlegu áfalli og átti mjög erfitt uppdráttar um tíma. Henni til bjargar varð að eiginmaður vinkonunnar, Frédric Thiébaud átti líka um sárt að binda og þau hugguðu hvort annað. Í kjölfarið tókust með þeim ástir og þau giftust árið 2011.
Margir undruðust mjög val Roberts á konu því Anne-Marie er mun hversdagslegri í útliti en Shania en allflestir hafa þá trú að þegar menn haldi fram hjá konum sínum sé það yfirleitt með yngri og fallegri konu. Rannsóknir sýna hins vegar að þetta er alrangt. Karl Bretaprins kaus Camillu fram yfir Díönu, ekki var að sjá að þær konur sem Tiger Woods var í tygjum hefðu eitthvað fram yfir Elinu Nordegren og ráðskonan sem Arnold Schwartzenegger átti son með hefur ekki brot af glæsileika Mariu Shriver. Þjóðsagan um tælandi ægifegurð og æsku hjákonunnar er nefnilega bara þjóðsaga, lífseig þjóðsaga en jafnósönn fyrir því.
Í kvikmyndum og bókmenntum er hin konan líka iðulega sýnd sem harðsækinn veiðimaður sem einskis svífst til að landa bráð sinni, hinum glæsilega gifta manni. Ekkert gæti verið fjær sanni. Bandarískar rannsóknir sýna að langflest ástarsambönd giftra karla byrja á því að þeir ljúga og segjast einhleypir. Hjákonan kemst iðulega ekki að því að elskhugi hennar sé giftur fyrr en sambandið hefur staðið í nokkurn tíma og hefur þá bundist honum það sterkum tilfinningaböndum að hún á erfitt með að slíta því.
Karlmaðurinn heldur leiknum áfram og telur hjákonu sinni trú um að hjónabandið sé og hafi verið mjög slæmt um tíma og hann hyggist ljúka því fljótlega. Iðulega hefur eiginkona mannsins allt aðra sögu að segja og hin konan verður fyrir sáru og miklu áfalli þegar í ljós kemur að hann hyggst alls ekki skilja. En hvernig sem sambandið endar er erfitt að vera hjákona. Að geta aldrei sýnt sig opinberlega með ástinni sinni eða notið þess að vera ástfangin og margar enda svo einar og yfirgefnar.
Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar







