Vilja vera í sama herbergi og fyrir 40 árum

Það er hefð fyrir því í Menntaskólanum á Akureyri að útskrifa stúdenta á þjóðhátíðardaginn 17.júní. Hvítir kollar stúdentanna setja skemmtilegan svip á hátíðarhöld dagsins og eldri stúdentar flykkjast líka í bæinn til að halda uppá stúdentsafmælin sín. Þau hátíðarhöld standa gjarnan dögum saman eins og veislur fornmanna. Bekkirnir halda uppá stúdentsafmælin á fimm ára fresti og þannig er það einnig með stúdentana sem útskrifuðust 1975 og eru nú saman komnir á Akureyri. Það er ekki nóg með að þeir ætli að halda uppá stúdentsafmælið á Akureyri, hópurinn ætlar einnig saman í 8 daga ferð til Júgóslavíu, en þangað fór hópurinn fyrir 40 árum þegar hann útskrifaðist. Suma dreymir jafnvel um að vera núna í sama herbergi á hótelinu og þeir voru nýútskrifaðir stúdentar.

Lífslangur vinskapur myndaðist í skólanum

„Ég veit ekki hvort okkar árgangur er samheldnari en aðrir, en það er óskapleg samkennd og samheldni sem myndast í kringum skólann sem verður að ævilöngum vinskap“, segir Guðrún Garðarsdóttir ein úr árganginum. Hún segir að mikil vinátta og rómantík tengist skólanum og kjarninn í því sé að skólinn hafi alið þau svona upp. „ Það er söngurinn og það að hafa fengið að læra í þessu sögulega umhverfi og verða hluti af þessum mikla skóla“, segir hún. Guðrún segir að í gær hafi hópurinn farið meðal annars í Skagafjörð og Siglufjörð. Heimamenn á hverjum stað, úr hópnum, hafi sagt frá og verið hver öðrum fróðari, skemmtilegri og hagyrtari. „Míkrófónninn í rútunni var alltaf upptekinn og menn spjölluðu um margvísleg mál, ýmist í bundnu eða óbundnu máli“, segir hún. En allir hafi fengið að njóta sín, hver og einn og svo hópurinn í heild. Að kvöldi sextánda júní er svo aðalveislan hjá stúdentum og „júbílöntum“.

Ritstjórn júní 16, 2015 19:15