„Ég er nýfluttur og er að hamast við að koma mér fyrir á nýja staðnum. Ég leigði íbúð í tæplega aldargömlu húsi hér í Sala en húsinu var ekkert haldið við, allar lagnir voru ónýtar, um áramót var mér tilkynnt að ég yrði að rýma fyrir fyrsta maí og það tókst mér. Í yfirvofandi húsnæðisvandræðum mínum mundi ég eftir því að ég var á biðlista hjá bænum eftir íbúð í miðbænum og var búinn að vera það í fjögur fimm ár. Það ótrúlega gerðist að það var laus íbúð þegar ég þurfti á henni að halda. Þegar ég stóð í þessu húsnæðisveseni rifjaðist margoft upp fyrir mér mér ljóðlína eftir Sigfús Daðason sem hljóðar svo „og djöfullinn spanderar enn einum degi á þig í the City,“ segir Hjalti Rögnvaldsson leikari.
Hann flutti til Svíþjóðar fyrir fjórtán árum og settist að í Sala litlum smábæ sem er um 100 kílómetra norðan við Stokkhólm og 60 kílómetrum austan við Uppsala. „Sala er miklu líkara hæli en bæ. Miðbærinn er steindauður og hér gerist ekkert. Það er alger kyrrstaða. Þrátt fyrir það er þetta góður staður og hér er einstök náttúrufegurð, segir Hjalti og bætir við að honum finnist gott að vera fluttur í miðbæinn. „Á gamla staðnum átti ég á hættu að snjóa inni á veturna og fótbrotna þegar ég fór í mjólkurbúðina. Hér er hins vegar allt við hendina, öll þjónusta sem ég þarf á að halda, verslanir og stofnanir. Ég kemst allra minna ferða hér.“ Hann segist hafa verið heppinn að fá húsnæði. Það sé mikil húsnæðisekla í Svíþjóð. Lítið hafi verið byggt undanfarin tuttugu ár en nú séu menn farnir að byggja á nýjan leik. Það sé því örlítið að losna um húsnæðismarkaðinn. „Íslendingar vita hins vegar ekkert um húsnæðisskortinn hér. Við vitum ekkert hvert um annað á þessum rígmontnu Norðurlöndum. Það er engin samvinna á milli þessara landa. Þrátt fyrir allskonar ráð og þing sem fyrirmenni sækja þá veit almenningur ekkert hvað er að gerast. Fæstir tala annað norðurlandamál en sitt eigið. Ég minnist þess að á þingi sem norrænir handritafræðingar sóttu, var töluð enska. Menn reyndu ekki einu sinni að tala skandinavísku. Við ættum að vera fimmtugasta og eitthvað ríki Bandaríkjanna. Allt þetta tal um samvinnu og menningartengsl er mont.“
Hjalti fagnaði tímamótum í lífi sínu í vetur þegar hann varð sjötugur. Hann var líka tilnefndur til íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir bókina Þetta er Alla eftir Jon Fosse. Dómnefndin sagði þýðingu Hjalta virka áreynslulausa og vera á látlausu máli sem falli vel að efni og inntaki sögunnar. „Það var gaman að fá tilnefninguna. En ég er dauðfeginn að hafa ekki fengið verðlaunin, ekki það að það hefði ekki verið gaman en ég fór í gjaldþrotameðferð hér í Svíþjóð fyrir nokkrum árum. Það var afleiðing af þessu velheppnaða íslenska hruni. Eftir gjaldþrotameðferðina má ég ekki græða neitt eða eiga neitt næstu árin.“
Hjalti hefur þýtt fimm bækur eftir Jon Fosse og fleiri eru væntanlegar. „Þegar ég var að flytja voru vinnugögnin mín það fyrsta sem ég pakkaði niður og þau voru það fyrsta sem ég pakkaði upp, eftir að ég var komin í nýju íbúðina. Og nú er ég tekinn til við þýðingarnar á nýjan leik. Bókmenntir eru ástríða mín. Þess vegna nenni ég að þýða sama hvað á gengur. Ég mæti daglega í vinnuna sem ég hef sjálfur ráðið mig í. Það fer ekkert eftir andagiftinni á hverjum tíma. Fyrir mér er þetta ekkert flóknara en að maður ákveður að vinna eitthvert verk og gerir það eins vel og maður getur. Það geta hins vegar ekki allir dagar verið jafnfrjóir.“
Liðin eru fimm ár síðan Hjalti kom síðast til Íslands þá stóð hann á sviði Borgarleikhússins og lék í tveimur verkum, Enron og Gauragangi. „Það er rúmt ár síðan einhverjir voru að reyna að fá mig til að leika í kvikmynd. Ég með tinnitus það er stöðugt eyrnasuð. Þegar þetta kom til tals var ég búinn bíða eftir að komast í meðferð hér í Svíþjóð í fjögur ár við eyrnasuðinu og gat ekki sleppt því þegar það var loksins komið að mér. Ég var líka dálítið brenndur af því að vinna fyrir fólk á Íslandi. Ég hafði tekið að mér nokkur verkefni fyrir nokkrum árum en menn gleymdu alveg að borga mér fyrir þau.“
Hjalti segist þó sakna leikhússins á Íslandi, honum hafi alltaf þótt mjög gaman að vinna í leikhúsinu. Hann fór ungur í leiklistarskóla Ævars Kvaran og rúmlega tvítugur fór hann að lesa upp í Ríkisútvarpinu. Eitt af því fyrsta sem hann las upp í útvarpið voru Nonnabækurnar „Ég var orðin húsamús í útvarpinu ungur maður. Ég hef alltaf haft alveg sérstaka ást á Ríkisútvarpinu. Ætli það sé ekki ástríða mín fyrir bókum sem ræður þar mestu. Mér finnst gott að vinna einn, en borða með öðrum. Annars er leikhúsið alveg makalaus töfraveröld og ég er svo sem ekkert að gera upp á milli leikhússins og útvarpsins þó ég orði þetta svona.“
Hjalti býr einn í Sala. „Þegar maður er búinn að fá sína skelli sættir maður sig við ýmislegt. Mig langar þó að lesa meira upp í útvarpi og kannski kemur að því að ég komi heim og lesi upp. Mér finnst eiginlega leiðinlegra að hafa dottið út úr útvarpinu heldur en leikhúsinu,“ segir hann að lokum.