Hjúkrun í 100 ár

Hjúkrun í 100 ár er yfirskrift sýningar sem nýlega var opnuð í Árbæjarsafni. Af því tilefni mun Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir sagnfræðingur og höfundur sýningarinnar ganga um sýninguna og segja frá því sem þar ber fyrir augu. Leiðsögnin fer fram 23.júní klukkan 13.

Saga hjúkrunar hefst í Reykjavík í byrjun 20. aldar þegar smitsjúkdómar og skortur á mat og almennu hreinlæti var helsta ógn við heilsu bæjarbúa. Henni lýkur í sérhæfðum og tæknivæddum heimi hjúkrunar dagsins í dag þegar hreyfingaleysi og allsnægtir ógna heilsu okkar.

Grunnur hjúkrunar er óbreyttur og miðar að því að skapa sjúklingnum öruggt umhverfi og þannig hindra, stöðva eða lina afleiðingar sjúkdóma og slysa. Umgjörðin hefur breyst í takt við breytingar samfélagsins og þróunar í tækni og vísindum og í leiðsögninni verður athygli gesta beint að þessum breytingum og á þeim grunni verður vöngum velt yfir því hvert er stefnt.

Leiðsögn Önnu Þorbjargar fer fram á íslensku.

 

Ritstjórn júní 21, 2019 11:09