Hnefahögg í andlit aldraðra

Aldraðir þurfa að bíða lengur eftir meðferð á sjúkrastofnunum en þeir sem yngri eru og kjör þeirra hafa verið skert á sama tíma og láglaunafólk hefur fengið kjarabætur. Í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík nýlega er þetta fordæmt. Í ályktuninni segir að allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum og njóta sömu mannréttinda, auk þess sem sérstaklega sé kveðið á um það í lögum um málefni aldraðra að þeir eigi að njóta jafnréttis á við aðra þegna þjóðfélagsins.

Bíða eftir heilbrigðisþjónustu

Aldraðir telja að mikill misbrestur sé á að lögunum hafi verið framfylgt, og benda á í því sambandi að rannsóknir sýni að þeir bíði lengur eftir heilbrigðisþjónustu en aðrir og þeir hafi ekki fengið leiðréttingu á kjörum sínum líkt og aðrar þjóðfélagsstéttir. Í ályktuninni segir enn fremur að eldri borgurum hafi verið mismunað freklega. Mannréttindi þeirra hafi verið brotin ítrekað. Kjaraskerðing aldraðra og öryrkja, sem tók gildi árið 2009, hafi verið brot á mannréttindum og hið sama megi segja um kjaragliðnun krepputímans.

Vilja afnema virðisaukaskatt á lyf

Félag eldri borgara í Reykjavík telur að ríkið geti bætt kjör aldraðra verulega með því að afnema virðisaukaskatt af lyfjum en hann nemur nú 24 prósentum. Verð á lyfjum sé svo hátt að margir eldri borgarar eigi erfitt með að leysa þau út og sumir hafi hreinlega ekki efni á að kaupa lyf. Brýna nauðsyn beri til að lækka lyfjaverð sem sé hærra á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi.

Leiga á öryggishnöppum hækkað gríðarlega

Eldri borgarar í Reykjavík segja að ríkisstjórnin hafi hækkað komugjöld í heilbrigðiskerfinu og dregið svo mikið úr niðurgreiðslum á nauðsynlegum hjálpartækjum aldraðra að þær takmörkuðu kjarabætur sem aldraðir og öryrkjar hafi fengið að undanförnu hafi verið teknar til baka. FEB nefnir sérstaklega að leiga fyrir afnot af öryggishnöppum hafi hækkað um 89 prósent. Allar þessar hækkanir séu hnefahögg í andlit aldraðra og öryrkja.

 

 

Ritstjórn mars 3, 2015 11:12