Hollt, gott og fljótlegt

Margir hafa beðið lengi eftir því að Albert Eiríksson gæfi út matreiðslubók. Hann hefur lengi haldið úti vinsælum vef þar sem finna má uppskriftir, ráðleggingar, fróðleik um borðsiði og upplýsingar um góða veitingastaði. Þangað er gott að leita þegar von er á gestum en það jafnast einhvern veginn ekkert á við að halda á bók, njóta myndanna og velja sér uppskrift til að elda.

Albert eldar, Einfaldir & hollir réttir, sprettur upp úr þeirri reynslu höfundar að standa fyrir heilsuvikum á Austurlandi. Þar dvelur hann með hópi erlendra ferðamanna og nýtur náttúrunnar, gönguferða, félagsskapar og umfram allt hollra og góðra rétta. Og bókin ber þess merki að höfundur njóti innblásturs því hún er ótrúlega fjölbreytt, skemmtilega framsett og allir réttirnir aðgengilegir og auðvelt að búa þá til. Mönnum er að verða æ betur ljóst hversu miklu mataræði skiptir þegar kemur að góðri heilsu og vellíðan, ekki hvað síst þegar árunum fjölgar.

Albert er vel meðvitaður um þetta sem og það að matur þarf ekki bara að vera hollur heldur hafa þennan sérstaka x-factor sem Japanir kalla umami. Grunnbragðtegundirnar eru fjórar, sætt, salt, beiskt og súrt en umami er fimmta bragðtegundin, þetta einstaka, ljúffenga sem kemur þegar bragðtegundum er blandað saman þannig að úr verði eitthvað alveg sérstakt sem geymist ekki bara á tungunni heldur einnig í minninu. Undirrituð er þegar búin að prófa Karrýkókospottrétt, Pönnusteiktan silung memð möndluflögum og Sveppapaté og getur vitnað um að allt þetta stendur undir væntingum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.