Húðþurrkur; ástæður og leiðir til úrbóta

Húðþurrkur getur stafað af mörgum ástæðum en hann veldur því að húðin flagnar, kláði og óþægindi gera vart við sig á þurrksvæðum. Fljótlega má svo greina roða eða flagnandi yfirborð og húðin fer að líta illa út. Á köldum svæðum eins og Íslandi er þurr húð oft vandamál einkum á frostatímabilum að vetri og eftir langvarandi þurrkatíð á sumrin. En orsakirnar geta verið margvíslegar og mismunandi ráð duga til hjálpar.

Frost og þurrt loft

Fegurð stilltra vetrarkvölda á Íslandi er mikil, einkum þegar Norðurljósin láta sjá sig og skapa ævintýralegt umhverfi. Samspil kulda, mengunar og rafagna í andrúmslofti veldur á hinn bóginn ekki bara dásamlegum dansi grænna, fjólublárra og rauðra ljósa í lofti heldur einnig erfiðum þurrki í húð. Algengt er að blettir myndist í andliti, á hálsi eða bringu en einnig á fótum, höndum, baki og kvið. Á sumrin er sólin aðalóvinurinn meðan frostið og kuldinn á veturna veldur vandræðum. Stundum fylgir mikill kláði, roði, bólgur eða upphleyptar bólur. Sterakrem á borð við Mildison geta hjálpað, einnig góð rakakrem kvölds og morgna, verja húðina í andlitinu með treflum og passa að drekka vel yfir daginn.

Húðin þornar með árunum

Eftir því sem við eldumst þornar húðin. Ein af ástæðum þess að hrukkur myndast er einmitt þessi skortur á raka. Með árunum minnka náttúrlegir rakagjafar og olíur í húðinni og hún missir ljóma og fallegt útlit. Umhverfið hefur hér mikið að segja. Búi menn á þurrum svæðum þar sem mengun er mikil er nauðsynlegt að gera varúðarráðstafanir og næra húðina með vönduðum rakakremum. Rakastig í andrúmslofti hefur mikil áhrif á húðina en einnig svifryk og hitastig.

Þurrkur af völdum efna

Í sápum og þvottaefnum geta verið efni sem valda ertingu og þurrki í húð. Það er alls ekki heppilegt að þvo sér of oft yfir daginn en sé það nauðsynlegt ætti að leitast við að nota sápu sem minnst eða velja mildari tegundir. Þvotta- og ræstiefni innihalda sömuleiðis ýmislegt sem getur haft vond áhrif á húðina. Hægt er að velja umhverfisvænni vörur eða nota mun minna í hvert sinn. Flestir nota of mikið af þessum efnum og hér á landi þar sem gott vatn er þarf alls ekki að nota sterk hreinsiefni.

Mengunarvarnir

Lengi var því haldið fram að krem væru slæm fyrir húðina en svo er alls ekki. Í góðum rakakremum eru andoxunarefni sem veita vörn gegn mengunaráhrifum. Margir farðar og dagkrem innihalda sólarvörn og veita þar með hlíf gegn útfjólubláum geislum sólar. Húð fólks er mjög mismunandi og gott er að leita til fagmanna þegar velja á krem. Kremin geta verið of feit fyrir þína húðgerð eða innihalda eitthvað ertandi fremur en græðandi. Allar þekkja orðið skaðsemi parabena, pthaleta, triclosan, formaldehýðs, litar- og ilmefna. Mikið úrval húðvara er nú orðið að finna á markaðnum sem innihalda engin slík efni og því auðvelt að forðast þau. Aldrei ætti að nota húðvöru sem inniheldur alkóhól.

Nærðu húðina

Hægt er að fá margvísleg krem sem innihalda næringarefni fyrir húðina. Steinefni, vítamín og rakagjafar eru þar á meðal en einnig uppbyggjandi efni sem hjálpa húðinni að endurnýja sig þar á meðal má nefna kollagen og elastín.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 24, 2024 07:00