Árstíðirnar og ofnæmi
Mjög margir þjást af árstíðabundnu ofnæmi og þótt það sé sjaldnast lífshættulegt er það engu að síður hvimleitt og gerir það að verkum að fólk á erfiðara með að sinna sínum daglegu verkefnum. Árstíðabundið ofnæmi er ofnæmi fyrir frjókornum jurta og þar sem það er mismunandi hvenær jurtir senda frá sér frjókorn er fólk misslæmt eftir því hvaða jurt veldur ofnæminu. Á vorin eru það oftast frjókorn trjáa sem valda ofnæmi en á sumrin eru þeir sem hafa ofnæmi fyrir grasi slæmir. Á haustin fara ýmsir runnar og margar trjátegundir að senda frá sér frjókorn og þá geta ofnæmissjúklingar búist við að ganga um rauðeygir og hnerrandi með stöðugt nefrennsli.
Læknar segja að ofnæmissjúklingar geti bætt líðan sína með því að ganga um utan dyra á frjókornatímanum með sólgleraugu til að hindra að frjókornin berist í augu eða andlitsgrímur sem hindra að menn andi að sér frjókornum. Með því að ryksuga á hverjum degi hátt og lágt á heimilinu má minnka mjög frjókornamagnið þar og eins með því að setja utan um sængur og kodda ver sem hrinda frá sér, þ.e. úr efnum sem hafa minni viðloðun en t.d. bómull. Hægt er að koma fyrir síum í loftræstikerfum húsa til að hindra að frjókorn berist þar inn og sjálfsagt er að fara fram á það við vinnuveitanda að það sé gert.
Í hnotskurn
Hnetur eru hollar og þær gefa ótrúlega gott bragð þegar þær eru notaðar í mat. Hins vegar er til fólk sem hefur ofnæmi fyrir hnetum og það verður að fara ákaflega varlega því aðeins örlítið magn getur valdið ofnæmisviðbrögðum. Algeng ofnæmisviðbrögð við hnetum eru uppköst, niðurgangur, útbrot, asmi og sárir verkir í kviðarholi. Hnetuofnæmi getur verið svo heiftarlegt að sjúklingar séu í lífshættu við það eitt að borða af pottrétti sem inniheldur eina teskeið af hnetusmjöri. Börn eru líklegri en fullorðnir til að fá hnetuofnæmi en það getur komið fram hvenær sem er á ævinni. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir hnetum ættu að fara varlega í að borða fræ, eins og t.d. sesamfræ og sólblómafræ, því ofnæmi fyrir fræjum fylgir oft hnetuofnæmi. Jarðhnetur vaxa neðanjarðar en aðrar hnetur á trjám. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir jarðhnetum hafa yfirleitt alltaf ofnæmi fyrir trjáhnetum en margir sem hafa ofnæmi fyrir trjáhnetum geta borðað jarðhnetur. Ef þið hafið grun um að þið þjáist af hnetuofnæmi lesið þá vel innihaldslýsingar utan á pakkningum tilbúinna rétta, því hnetur leynast í mörgum þeirra.
Appelsínur góðar fyrir húðina
Rannsóknir sýna að sítrusávextir eru góðir fyrir húðina. Appelsínur, sítrónur og límónur eru auðugar af C-vítamíni sem stuðlar að því að menn fái síður kvef en einnig hægir það á öldrun húðarinnar. C-vítamín er einnig talið geta hægt á skiptingu frumna í húðkrabbameini. Þeir sem reykja eiga erfiðara með að nýta C-vítamín en þeir sem ekki reykja og þurfa því margfalt stærri skammta af þessu holla efni yfir daginn en hinir. Reyklaus maður þarf aðeins 60 mg af C-vítamíni á dag en þann skammt má auðveldlega fá úr fæðunni, til að mynda nægir að borða eina stóra appelsínu eða eitt kíví til að ná því. Reykingamaður þarf hins vegar 2000 mg á dag og þeim skammti nær enginn án þess að taka hreinlega inn C-vítamín í töfluformi.
Sólþurrkaðir tómatar
Sólþurrkaðir tómatar eru mikið sælgæti í pottrétti, á pizzur og einir sér. Þeir eru fitusnauðir en góð uppspretta vítamína og einnig litarefnis sem er í berki tómatanna og talið er geta hamlað gegn ýmsum tegundum krabbameins. Þeir sem hafa áhyggjur af aukakílóunum ættu hins vegar að forðast sólþurrkaða tómata maríneraða í kryddolíu því ótrúlega mikill fita síast inn í tómatana úr olíunni.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.