Á meðan umheimurinn horfir með forundran á Trumpismann rústa bandarísku samfélagi á örfáum vikum, finn ég aðallega fyrir sorg og söknuði. Söknuði eftir þeirri Ameríku sem ég kom til haustið 1967, þá full tortryggni í garð samfélags sem herjaði á fátækt fólk í Víetnam og kunni ekki einu sinni borðsiði! En þetta fólk hafði sem sagt boðið mér ókeypis skólavist með fæði og húsnæði, svo ég ákvað að lúta svo lágt að þiggja boðið þótt ekki væri þetta fyrirheitna landið í mínum huga.

Skólafélagar Laufeyjar frá University of Washington. Þau hafa haldið hópinn frá skólaárunum1967 til 1970 og hist bæði hér og í Bandaríkjunum. Hér eru þau í heimsókn á Íslandi.
En ég hafði ekki verið lengi við háskólann í Seattle þegar ég áttaði mig á hversu fordómafull ég hafði verið og fávís um land og þjóð. Ég heillaðist af fjölbreyttri mannflórunni, kraftinum í stúdentamótmælunum við háskólana, náungakærleiknum og umhyggjunni fyrir nágrönnum og samferðafólki. Ég var líka standandi hissa yfir jöfnuðinum í samfélaginu, sem á þessum tíma var á pari við Svíþjóð. Við þennan flotta fylkisháskóla gátu krakkar úr fylkinu stundað nám gegn vægum skólagjöldum, og það þótti sjálfsagt að börn venjulegs launafólks gengju í háskóla. Allur þorri fólks bjó í litlum einbýlishúsum með fallegum garði, átti bifreið og fór í sumarfrí. Þetta var blómatími amerísku miðstéttarinnar sem langflest fólk tilheyrði, en líka tími hippanna og stúdentaóeirðanna.
Allt var þetta svo ólíkt litla einsleita Íslandi, og eftir því sem árin liðu og mér var boðin áframhaldandi ókeypis skólavist, fyrst til BSc gráðu í dýrafræði við University of Washington, og síðar við Columbia háskóla til doktorsprófs í næringarfræði, urðu Bandaríkin mér sem annað heimaland. En sú kollsteypa sem nú hefur orðið, og kemur flestum í opna skjöldu, á sér sannarlega aðdraganda. Þróunin undanfarna áratugi í Bandaríkjunum hefur verið í átt að gríðarlegum ójöfnuði, þar sem auðmenn og stórfyrirtæki stjórna landinu eftir sínum geðþótta og venjulegt fólk hefur gjörsamlega misst trú á stjórnvöldum og ríkisstofnunum. Við slíkar aðstæður getur allt gerst, eins og nú hefur komið á daginn.
Háskólinn minn í Seattle þjónar nú fyrst og fremst börnum erlendra auðkýfinga því skólagjöldin eru orðin himinhá. Ekki gerðist það bara í valdatíð Trumps. Skólastyrkir til minnihlutahópa og erlendra nemenda sem ég naut svo góðs af, eru löngu liðin tíð. Ekki er ástandið betra við Columbia háskólann því á síðasta ári varð rektor skólans, Minouche-Shafik, að segja af sér, þar sem háskólaráði þótti hún ekki sýna mótmælendum innrásarinnar á Gaza næga hörku. Það er bara rökrétt framhald að nú hafi Columbia og fleiri háskólum verið hótað að missa alla ríkisstyrki lúti þeir ekki vilja forseta í einu og öllu. Háskólar, ásamt fjölmiðlum og dómstólum, eru greinilega helsta ógn við duttlungakennt vald og yfirgang Trumpismanns, og þangað er spjótunum beint óhikað.
En þessir flottu háskólar voru samt löngu búnir að missa tiltrú alls venjulegs fólks, með því að gerast þrælar auðjöfra og fjárfestingarsjóða til að fá fjármagn til rannsókna. Einhverjir hafa kallað Columbia háskóla risastóran fjárfestingasjóð sem frontar sem háskóli, og svipað má sjálfsagt segja um fleiri skóla.

Svona tók Olason fjölskyldan, sem hafði reynst Laufeyju sem foreldrar á háskólaárunum í Seattle, á móti henni og manni hennar, Daniel, þegar þau komu þangað með frumburðinn frá Íslandi 1981.
Það er auðvitað sitthvað stjórnvöld og almenningur. Samt get ég ekki annað en hugsað: Er þetta virkilega sama þjóðin og tók okkur svo fallega veturinn 1987, þar sem ég kom með fjölskyldunni til Madison í rannsóknarleyfi við háskólann í Wisconsin? Við vorum varla flutt inn í nýja heimilið, þegar barið var að dyrum. Þar stóðu eldri hjón úr næsta húsi með kökubox fullt af ilmandi heimabökuðum smákökum. Þau sögðust hafa frétt að það væru lítil börn frá erlendu landi að flytja í húsið og vildu bjóða okkur velkomin. Fallegra samfélagi hef ég varla kynnst annars staðar. Sex ára dóttir gekk í almennan barnaskóla þar sem nemendur voru af öllum kynþáttum, þjóðernum og stéttum, mörg börnin töluðu ekki stakt orð í ensku – dóttir okkar þar með talin – og sumir foreldrarnir jafnvel ólæsir. Þrátt fyrir þessar aðstæður var haldið uppi faglegu skólastarfi, börnin fengu enskukennslu eftir þörfum og á einhvern óskiljanlegan hátt var haldið uppi aga og friði í skólastofunni.
Mannfyrirlitningin sem nú ræður ríkjum meðal æðstu manna Bandaríkjanna getur varla skorað hátt hjá þessu fólki. Því síður er hún að skapi vina minna í Seattle, sem flykktust að moskunni í hverfinu sínu þegar fréttist af hryðjuverkaárásinni á tvíburaturnana. Þeirra fyrsta hugsun var að standa vörð um moskuna næstu daga og nætur til koma í veg fyrir skemmdarverk. Þar hópuðust nágrannarnir saman með kertaljós, teppi, mat og kaffi, vitandi að einhverjir gætu látið réttláta reiði sína bitna á moskunni. Fáir í þessum hópi voru múslimatrúar. Þeir voru einfaldlega góðir nágrannar.
Hvar er þetta fólk nú? Flestir eru vísast bálreiðir, aðrir hræddir, en það hlýtur að koma að því að mönnum verður nóg boðið. Þessa dagana erum við líklega vitni að meiri samfélagssviftingum en verið hafa um árhundruð í hinum vestræna heimi. Hvort sem við trúum á viðnámsþrótt bandarísks stjórnkerfis eður ei, þá er lítið fyrir okkur að gera annað en vona að úr rústum bandarísks samfélags rísi eitthvað betra og fallegra en það sem blasir við þessa stundina.