Tengdar greinar

Húsálfar, búálfar og húsandar

Mjög margir Íslendingar heyrðu í æsku álfkonunni í hólnum kennt um ef eitthvað hvarf á heimilinu. Skærin, hamarinn, sleifin eða ausan hurfu og fundust ekki þrátt fyrir leit. Þá varð ömmu eða mömmu að orði að ný hafi álfkonan þurft á þessu að halda. Og jú mikið rétt alltaf skilaði þetta sér á endanum og þá hafði hún, blessunin, náð að klára verkið. En Ísland er ekki eina landið þar sem þetta kemur fyrir og víða um heim eru álfar og andar í húsum sem gera mönnum ýmist greiða eða skráveifu.

Nissar eða búálfar

Í Noregi eru það nissar eða búálfar sem eiga sér bústaði milli veggja í húsum fólks. Þeir koma fram á kvöldin og ef þú skilur eftir mjólk, brauð eða einhvern annan gómsætan glaðning, laga þeir til fyrir þig, gera við bilaða hluti eða sjá til þess að gæfan fylgi heimilinu. En sinni fólk þeim ekki eru þeir hrekkjóttir og hika ekki við að stela, skemma eða valda öðrum skaða.

Heimilisgyðjan Hestía

Forn-Grikkir reiddu sig á Hestíu. Hún vað gyðja arinsins eða heimilistóarinnar. Arininn var miðpunktur eldhússins og þar var maturinn eldaður. Hestía sá til þess að hann kulnaði ekki og hún hélt einnig á lífi glæðum ástar og kærleika milli heimilisfólksins og sá til þess að gæfan brosti við.

Hobs eða hobbitar?

Á Norður-Englandi the hobs eða húsálfarnir þeir sem þurfti að varast. Ekki er nokkur vafi að J.K. Rowling hafði þá í huga þegar hún skapaði Dobby í Harry Potter. Nafn þeirra er einnig mjög líkt heitinu sem J. R. R. Tolkien valdi fyrir verurnar í Bag End, Bilbo Baggins, Frodo og Samwise Gamgee. The hobs líkt og Hestía gættu eldsins en gátu verið varasamir ef ekki var vel komið fram við þá. Þeir stálu þá pottum, matarafgöngum og brutu diska, skálar og könnur. Þeir tóku sér einnig oft búsetu í verslunum og á bóndabæjum og voru þá ómetanlegir aðstoðarmenn við að raða í hillur, halda öllu hreinu og sinna skepnunum. Þeir eru smávaxnir álfar og ósýnilegar nema ef þeir koma úr felum til að hjálpa þér við vinnuna. Þá máttu ekki gefa til kynna að þú sjáir þá því þá hætta þeir. Þeir vilja nefnilega ekki þakkir og ekki að neinn viti að þeir hafi unnið verkið. En aldrei má launa hob fyrir vinnu sína. Ef húseigandi gefur honum fatnað lætur hann sig umsvifalaust hverfa, sármóðgaður. Aðdáendur Harrys muna ábyggilega að Dobby öðlaðist frelsi þegar eigandi hans, Lucius Malfoy, henti í hann skó.

Litlir loðnir domovoi

Slafneskar þjóðsögur segja frá domovoi, litlum loðnum verum sem búa hverju húsi. Oftast eiga þær sér íverustað undir þröskuldinum við útidyrnar eða undir eldavélinni. Stundum er sagt að þetta séu sálir þess sem upphaflega byggði húsið og bjó í því. Ef einhver kemur auga á þá eru þeir oftast eins og pínulitlir gamlir menn, með langt grátt hár og skegg. Í sumum tilfellum má sjá svip með þeim og einhverjum löngu liðnum forföður húseigandans en stundum ekki. Þeir geta einnig tekið á sig mynd hunds eða kattar, í sjaldgæfum tilfellum snáks. En til að halda þeim ánægðum verða menn að þrífa og taka til í kringum sig. Domovoi þolir ekki óreiðu og ef ekki er vaskað upp á hverju kvöldi og gengið frá öllu getur það haft slæmar afleiðingar. Enginn matur má vera á borðum þegar gengið er til náða nema ofurlítil gómsæt gjöf handa domovoinum þínum.

Séu þeir ánægðir með þig eru þeir líklegir til að taka að sér smáviðvik inni á heimilinu eða í garðinum. Sértu hins vegar bölvaður sóði og óreiðupési verða þeir reiðir og tala að stela smáhlutum, brjóta eitthvað sem þér er annt um og trufla nætursvefn þinn.

Verndarandar

Frændur okkar Finnar segja sögur af verndaröndum, haltija. Þeir sjá til þess að ekkert illt hendi og hver tegund þeirra hefur sitt hlutverk, kotihaltia, eru verndarar heimilisins.

Likt og mjög víða annars staðar eru kotihaltia smávaxnir og líkir álfum í þjóðsögunum, þar að segja ef maður er svo heppinn að koma auga á þá. Þeir búa á háaloftum eða í hlöðunni og eru óþreytandi að passa og vernda fjölskylduna í húsinu sínu. Þeir eru nánir ættingjar annarra ættbálka haltija-andanna en þeir ýmist vernda saununa, garðinn eða akrana.

Rauðklæddir álfar

Spænskar sögur segja frá trasgu. Þeir eru upprunnir á Norður-Spáni og virðast líkt og fjarskyldir ættingjar þeirra víða um Evrópu hafa undarlegan áhuga á hvernig menn hirða hús sín og gaman af að hjálpa mönnum við húsverkin þegar því er að skipta. Þeir eru litlir og renglulegir og klæðast rauðum skikkjum og bera rauðar húfur. Annað sem einkennir þá er að þeir ganga haltir, sumir eru með horn og í vinstra lófa er hola. Þeir þurfa ofurlítinn glaðning í formi matar og hlýjan stað til að sofa á, helst nærri skorsteinum. Þá eru þeir ánægðir og gera mönnum gott en ef ekki má búast við að hlutir taki að hverfa og margvísleg önnur óhöpp að henda. Ef þig vantar að losna við trasgu þarftu að setja hann í óvinnandi verk til dæmis að tína upp pínulítil korn sem munu alltaf leka í gegnum holuna í vinstri hönd þeirra og þeir því ekki ná að klára verkið. Að lokum verða þeir svo leiðir og svekktir að þeir yfirgefa húsið.

Haltu þeim hjá þér

Zashiki-warashi eru japanskir húsandar sem þarf að vernda hvað sem það kostar. Ef þeir hrekjast frá þér er mjög líklegt að einhver ógæfa hendi íbúa hússins. Þess vegna þarf að halda í þá hvað sem það kostar. Þeir eru ósýnilegir öllum nema börnum og ef þau sjá þá út undan sér er engu líkara en þar fari lítið, þéttvaxið barn. Yfirleitt eru zashiki-warashi mjög varkárir og mjög fá börn ná að sjá þá. Í einu skiptin sem fullorðnir geta orðið svo heppnir er ef þeir eru að flytja út húsinu. Þeir geta verið hrekkjóttir. Oftast skapa þeir hávaða eða rugla nýumbúnum rúmum en það er um að gera að þola þeim grikkina því ef þeir fara bíður ekki annað en versta ógæfa og jafnvel algjört þrot. Þeir kjósa fremur að búa í gömlu og fallegum húsum en nýjum steinhúsum en setjist þeir að á heimili þínu ættir þú að líta á það sem hinn mesta heiður og gleðiviðburð.

Eldheit gyðja

Litháískar þjóðsögur segja frá gabija, ansi illskeyttri húsgyðju. Hún líkt og Hestía gætir arinsins eða stóarinnar en er fremur fulltrúi hins eyðandi afls eldsins en hlýjunnar sem hann veitir. Hún tekur yfirleitt á sig form glæsilegrar konu klæddrar í rauðan kjól en stundum birtist hún í gervi kattar eða hana. Það þarf að halda henni góðri því sé það ekki gert getur heimili þitt orðið eldi að bráð. Þú þarft að huga vel að eldinum og passa að hann sé slökktur á kvöldin og það gerir þú með hreinu vatni því notir þú til þess skólp móðgar þú gyðjuna og þá gæti hún tekið upp á því að flakka um húsið í formi glóðarmola og kveikja í. Að sinna einnig vel um skorsteininn og arinhelluna er líklegt til að gleðja hana.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 4, 2024 07:00