Tengdar greinar

Tíu mest lesnu greinarnar á Lifðu núna árið 2021

Langmest lesna greinin á Lifðu núna á árinu sem nú er að líða, var tilkynning frá heilbrigðisyfirvöldum undir fyrirsögninni Hvar ert þú í forgangsröðinni? Það er tímanna tákn að sú grein hafi slegið í gegn, enda birtist hún um síðustu áramót, um það leyti sem farið var að undirbúa bólusetningu þjóðarinnar gegn kórónuveirunni. Allir voru að sjálfsögðu spenntir að sjá hvenær röðin kæmi að þeim. En tíu mest lesnu greinarnar á Lifðu núna þar fyrir utan reyndust vera eftirfarandi:

1.Konur sem fá ístru með aldrinum. Upphaf greinarinnar hljóðar þannig:

Hvað segir mittismálið um heilsuna? Hvers vegna er kviðfita algengari eftir tíðahvörf? Hver er áhættan og hvað er hægt að gera í málinu?  Sérfræðingar hjá Mayo Clinic í Bandaríkjunum velta þessu fyrir sér og gefa góð ráð sem fara hér á eftir í endursögn. 

Það er stundum álitið að það fylgi aldrinum að fá ístru. Karlar fá ístru og konur eiga það líka á hættu, sérstaklega eftir tíðahvörf. Við þau breytist fitusöfnun líkamans hjá konum og fitan fer að setjast einkum á magann og rassinn, sem hún hafði kannski ekki gert áður.

Það er ekki bara að kviðfitan geri það erfiðara að renna upp rennilásnum á gallabuxunum. Rannsóknir sýna að henni geta fylgt alvarleg heilsufarsvandamál. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það er hægt að minnka kviðfituna.

Meira um þetta heilsufarsvandamál hér.

2.Minnkuðu við sig húsnæði.

Þau Halldór Ó Sigurðsson og Margrét Hjaltested bjuggu lengi í húsinu þar sem hann ólst upp í Hólmgarði í Reykjavík. Þau keyptu húsið af foreldrum hans fyrir rúmum þremur áratugum.

Þar með var Halldór kominn á æskustöðvarnar og þar höfðu þau Margrét verið í samanlagt 33 ár eða allt þar til nú að þau ákváðu að minnka við sig fyrir rúmu ári. Nú eru þau komin á eftirlaunaaldur og annar veruleiki blasir við. Margrét segir hlæjandi frá því að þegar þau fluttu inn í Hólmgarðinn hafi hún sagt að hún ætlaði aldrei að flytja aftur því hún var komin með svo mikið nóg af flutningum. “En þegar við fundum þessa íbúð í Kuggavogi vissum við bæði að hér gátum við hugsað okkur að vera,” segir hún. Íbúðin er í nýju hverfi inni í Vogum með góðu útsýni og er hæfilega lítil en þau minnkuðu við sig nánast um helming. Íbúðin sjálf er um 80 fermetrar og svo geymslur þar fyrir utan. Halldór segir að það sé í rauninni töluverður léttir að vera kominn í minna og í ljós hafi komið að þau þurftu sannarlega ekki meira pláss. “Það er svo skrýtið hvað mannskepnan hefur mikla aðlögunarhæfileika,” segir Halldór. “Ég hélt að ég myndi eiga erfitt með að segja skilið við húsið af því ég var búinn að búa svo lengi í því eða í 56 ár alls. Svo var ég búinn að eiga svo mikið við húsið og garðinn o.s.frv. En þegar til kom var ég feginn og fann ekki fyrir söknuði.”

Þau undirbjuggu sig vel áður en þau minnkuðu við sig og um það má lesa hér.

3. Segi að ég elski hann áður en hann fer út í daginn.

Hjónin Ragna Þóra Ragnarsdóttir og Guðlaugur Níelsson lifa með alzheimersjúkdóminum, en Guðlaugur greindist með hann 61 árs. Þá var Ragna 53 ára.

Móðir Rögnu og ömmur höfðu báðar fengið Alzheimer á efri árum og hún þekkti því einkennin. Þegar greiningin kom eftir að Gulli fór í jáeindaskanna um mitt ár 2018, segist hún hafa vitað að þetta var Alzheimer, en þegar niðurstaðan hafi legið fyrir hafi verið hægt að fara að vinna útfrá því. „Gulli hafði tekið þátt í umönnun mömmu, sem lést stuttu áður en hann greindist og hann tók þessu af óskaplega miklu æðruleysi“, rifjar hún upp. „Hann sagði Ég veit ég er eins og ég er, en ég reyni að gera gott úr því“.  Þegar greiningin lá fyrir voru þau kannski frekar undrandi, af því þau héldu í ljósi sögunnar að Ragna væri frekar efni í Alzheimer sjúkling en hann.

Hægt er að lesa þetta einlæga viðtal í heild sinni með því að smella hér.

4. Litarhátturinn skiptir meira máli en gráa hárið.

Viðtal við Heiðar Jónsson snyrti um hvort rétt sé að fara að nota aðra liti, þegar hárið gránar.

Heiðar Jónsson snyrtir sem er einn þeirra sem hefur velt fyrir sér förðun eldri kvenna, er þeirrar skoðunar að litarhátturinn skipti meira máli varðandi litanotkun en háraliturinn, í þessu tilviki gráa hárið. Hann segir að þeir sem gráni fallega séu með kaldan litarhátt. Jóhanna Sigurðardóttir sé dæmi um manneskju sem þurfi ekki að lita á sér hárið. „Svo kemur fólkið með heita litarháttinn, með rauðbirkna hárið og freknurnar. Það er oft með græn eða brún augu. Því fólki fer ekki jafn vel að grána og vill því frekar halda í að lita hárið. En að því sögðu er fólki náttúrulega í sjálfsvald sett hvort það litar hárið eða ekki“.

Þeir sem vilja vita meira um háralit, húðlit og aðra liti, geta smellt hér.

5. Gullmínútur Marentzu og Harðar

Það tekur á að lifa lífinu með Parkinson en skiptir líka miklu að hafa jákvæðnina að vopni. Það hafa þau Hörður og Marentza fengið að reyna.

„Við dönsuðum mikið saman fyrstu skiptin sem við hittumst. Það sem heillaði mig strax við Hörð var að hann var svo skemmtilegur, bragðaði ekki áfengi, söng vel og svo var hann svo góður dansari,“ segir Marentza og hlær og bætir við að þau hafi alltaf farið reglulega að dansa á meðan þau voru ung. Þau fengu um tíma leiðsögn hjá Heiðari Ástvaldssyni en annars segir Hörður að þau hafi bara haft taktinn í líkamanum. „Unnur Arngrímsdóttir hældi okkur einu sinni fyrir góða danshæfileika,“ segir Hörður hróðugur.

Marentza segir að eftir að Hörður veiktist geti hann eðlilega ekki dansað eins vel og áður en það séu nú samt ekki nema svona þrjú ár síðan hann hætti að dansa. „Ég bauð honum nú samt upp í dans í morgun,“ segir Marentza og skellihlær. „Það var svo skemmtileg tónlist í útvarpinu og Hörður var eitthvað dapur svo ég fékk hann bara til að dansa.

Þeir sem vilja lesa meira um gullmínútur Marentzu og Harðar geta smellt á viðtalið hér.

6. Vilhjálmur Egilsson fv. Rektor Háskóland á Bifröst

Þeir voru greinilega margir sem vildu heyra hvar Vilhjálmur Egisson væri niður kominn, en þátturinn á síðunni sem kallast Hvar eru þau nú? hefur notið mikilla vinsælda. Hann hefur mikinn áhuga á lestri sagnfræðibóka og bóka um samfélags og efnahagsmál.

„Sagan segir okkur svo mikið,” segir Vilhjálmur. „Mannseðlið er nefnilega alltaf óbreytt og þá spyr maður hvenær förum við næst í stríð. Sagan gengur nefnilega alltaf í hringi. Við sjáum að eftir heimsstyrjaldirnar á síðustu öld kom tímabil í sögunni þar sem leit út fyrir að við hefðum lært af reynslunni og enginn vildi þetta ástand aftur. En nú eru komnar kynslóðir sem hafa ekki tengsl við þessa atburði og þessi vondi tími er víðs fjarri og þær taka ákvarðanir á allt öðrum forsendum en við gerðum. Mér þykir óþægilegt að sjá umræðuna núna vera að færast í áttina að því hvernig hún var fyrir fyrra stríð. Smám saman spruttu upp alls konar öfgar og það hefur bara verið að gerast núna að við heyrum fólk tala af fullkomnu ábyrgðarleysi

Smelltu hér til að lesa viðtalið við Vilhjálm.

7. Kynntust gegnum blaðaauglýsingu og skoða nú lífið saman í hálfleik

Tónlistin var örlagavaldur í lífi hjónanna Bjarna Sveinbjörnssonar og Eddu Borg Ólafsdóttur. Hún þurfti leyfi dóms- og kirkjumálaráðherra til að giftast Bjarna enda var hún aðeins 18 ára. Nú glímir hún við MS sjúkdóminn, en þau hafa ákveðið að njóta lífsins eins og kostur er.  Sjá viðtalið við þau hér.

8. Frægir fyrr og nú

Alltaf gaman að sjá myndir af fólki eins og það leit út þegar það var ungt og svo aftur 50-60 árum síðar. Smellið hér til að sjá fræga fyrr og nú.

9. Fleygðu þessum þrettán hlutum strax

Það eru margir að minnka við sig á efri árum og þurfa þá iðulega að minnka við sig alls konar dót. Það voru því greinilega margir forvitnir um þessa grein sem sjá má hér.

10. Fór snemma á eftirlaun og fluttist til Íslands

Bandaríkjamaðurinn William Stuart ákvað að verja eftirlaunaárunum á Íslandi. Það er býsna óvenjulegt, en hann þaulhugsaði málið.  Sjá meira hér.

Ritstjórn desember 30, 2021 07:51