Flestir afar og ömmur velta því fyrir sér hvaða nafn nýja barnabarnið þeirra fær. Nöfnin Lúkas og Emma eru vinsæl um allan heim og þau hafa verið að sækja í sig veðrið á Íslandi hin síðari ár.
Samkvæmt vef Hagstofu Íslands var Alexander vinsælasta eiginnafn nýfæddra drengja árið 2016 á Íslandi og þar á eftir Aron og Mikael. Emilía var vinsælasta stúlkunafnið en þar á eftir Emma og Elísabet. Listinn var svipaður árið á undan en þá var Aron í fyrsta sæti en þar á eftir komu Alexander og Viktor. Emilía var vinsælasta stúlkunafnið en í 2. og 3. sæti voru nöfnin Sara og Ísabella. Til gamans skoðuðum við vinsæl nöfn um allan heim en vefurinn Nameberry birtir upplýsingar um þau og þar er jafnframt að finna ýmsan skemmtilegan fróðleik um mannanöfn alls staðar í heiminum. Einhvern veginn hljómar þetta allt mjög kunnuglega. Í Ástralíu hafa nöfnin William og Lucas verið vinsælustu drengjanöfnin hin síðari ár en vinsælustu stúlknanöfnin eru Ruby og Charlotte. Í Belgíu eru nöfnin Lucas og Louis vinsælustu drengjanöfnin en Emma og Louise vinsælustu stúlknanöfnin. Í Kanada tróna nöfnin Ethan og Liam á toppnum fyrir stráka og Olivia og Emma fyrir stúlkur. Danir eru hrifnastir af því að gefa drengjum nöfnin William og Lucas en stúlkum Sofia og Ida. Finnar halda mest upp á nöfnin Onni og Elias fyrir drengi en Emma og Aino fyrir stúlkur. Lucas er í fyrsta sæti yfir drengjanöfn í Frakklandi og Ethan í öðru sæti en vinsælustu stúlknanöfnin eru Emma og Lea. Í Lúxemborg eru það Gabriel og Leo fyrir drengi og Emma og Lara fyrir stúlkur. Í Þýskalandi njóta nöfnin Ben og Luis/Louis mestrar hylli fyrir drengi en Emma og Mia fyrir stúlkur. Að lokum má nefna að vinsælustu drengjanöfnin á Ítalíu eru Francesco og Alessandro fyrir drengi en Sofia og Giulia fyrir stúlkur.