Hvað kostar peysan ef lögfræðingur prjónar?

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar og tók einnig myndirnar sem fylgja greininni.

Ég man enn daginn sem ég lærði að prjóna. Það var öskudagur og ég var 6 ára, lasin í heimsókn hjá afasystur minni. Hún bjó bæði yfir þolinmæði og elsku sem er nauðsynleg blanda þegar litlir fingur eiga að læra að fitja upp. Ég var í prinsessubúningi með kinnar litaðar rauðar með export-pappír. Lítið vissi ég þá um hversu miklum tíma ég ætti eftir að verja í prjónaskap. Nokkrum árum seinna lærði ég „harðangur og klaustur“ hjá mömmu. Síðan hef ég kunnað að meta handavinnu, bæði mína eigin og annarra.

Á undanförnum árum hef ég ferðast um landið með ameríska ferðamenn. Margir þeirra koma með þau áform að kaupa íslenskar lopapeysur. Um leið og þeir sjá verðið verður of heitt í heimalandinu fyrir slíkar vörur! Vinkona mín í bransanum gaf mér ráð við þessu. Hún hafði reiknað út tímakaup prjónakvennanna. Svo hafði hún reiknað út hvað peysa myndi kosta ef píparinn prjónaði peysu á venjulegu tímakaupi iðnaðarmannsins og loks verðið ef lögfræðingurinn hennar prjónaði peysuna. Ég hef notað þetta reikningsdæmi og það er eins og við manninn mælt. Farþegi í síðustu ferð haustins fór t.d út með fjórar lopapeysur, alsæll.

Ein af saumakonunum sem ríkið greiðir fyrir að halda við hefðinni

Mér datt þetta í hug þegar ég heimsótti verslun/safn í Funchal á Madeira í vikunni. Þar eru til sölu hefðbundnir, útsaumaðir dúkar af öllum stærðum og gerðum, sem hafa svipað aðdráttarafl og íslenska lopapeysan heima. Þessi vara er partur af portúgalskri menningu. Mér fannst ég hafa dottið í gullnámu og keypti dúk sem ég ætla að breyta í gardínu þegar heim kemur. Konan sem afgreiddi mig afsakaði verðið, sem var ansi hátt. Hún sagði að þessar útsaumuðu vörur myndi hverfa eftir einhver ár þar sem handverkskonurnar væru núna allar um sjötugt og ekki fengjust neinir ungir til þess að koma inn í þessa listgrein, hvorki stúlkur né herrar. Hún sagði mér líka að tímakaupið væri svo lágt að engin leið væri að lifa á útsaumi. Því hefði ríkið gripið til þess ráðs að greiða saumakonunum laun úr ríkiskassanum til þess að reyna að halda þessar list lifandi.

Mér fannst þetta ansi athyglisvert ráð hjá yfirvöldum í Potrúgal og varð aftur hugsað til prjónafólksins á Íslandi. Sú merka kona Auður Sveinsdóttir Laxnes átti stóran þátt í að þróa „íslensku“ lopapeysuna eins og hún lítur út í dag. Sumir segja að hún hafi orðið fyrir áhrifum frá þjóðbúningi Grænlendinga um miðja síðustu öld og hannað axlamunstur í anda þess. Ég ætla ekki að fara dýpra í þá sálma en eitt er víst að lopapeysan er orðin að nokkurs konar vörumerki fyrir Ísland. Kannski væri umhugsunarvert að styðja á einhvern hátt betur við bakið á þeim illa launuðu prjónakonum sem enn láta sig hafa það að leggja metnað í vandað handverk og gott hráefni og bera þannig hróður landsins út fyrir landsteinana.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir desember 12, 2022 07:05