Hvaðan erum við? Erum við frá þeim stöðum þar sem foreldrar okkar fæddust, eða afi okkar og amma, langafi og langamma? Stefán Halldórsson félagsfræðingur sem titlar sig „ættfræðitækni“ svona í gríni og alvöru, hélt nýlega fyrirlestra í félagsmiðstöðvum eldri borgara, um ættfræðigrúsk á netinu. Hann hefur einnig haldið námskeið um sama efni hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Stefán sagði spurninguna Hverra manna ertu? hafa verið algenga hér áður fyrr, en hann hefði rekið sig á að ungu fólki þætti spurningin ekki eiga við í dag.
Best að byrja á Íslendingabók
Stefán sagði nærtækast ef menn vildu vita deili á mönnum eða vita eitthvað um sína eigin forfeður að byrja á því að fletta nöfnunum upp á Íslendingabók. Fyrir daga hennar urðu menn að reiða sig á skjalasöfn, kirkjubækur, manntöl og önnur skjöl sem gátu hjálpað til að draga upp mynd af því hverra manna við erum. Árið 1932 var farið að gefa út handhæg niðjatöl á bókum, sú fyrsta var um Bergsættina svokölluðu og um tíma þótti mjög fínt að vera af Bergsætt.
Íslendingabók var opnuð árið 2003. Nú eru notendur yfir 200 þúsund og mánaðarlega fær Íslendingabók um 100.000 heimsóknir.
Fyrsta manntalið var gert á Íslandi árið 1703 og var það í fyrsta skipti sem gert var manntal yfir heila þjóð. Danir, sem höfðu forgöngu um það, vildu vita hversu slæmt ástandið var á Íslandi á þessum tíma. Annars voru manntöl í ýmsum löndum einkum gerð til að hægt væri að skattleggja fólk og fá upplýsingar um hversu marga karlmenn væri unnt að kalla til herþjónustu.
Nóg að rekja ættina 200 ár aftur í tímann
Með tilkomu netsins hafa aðstæður til að afla upplýsinga um uppruna sinn og ættir gerbreyst. Stefán sagði að til að draga upp mynd af æviferli og aðstæðum forfeðranna væri nóg fyrir nútíma Íslendinga að fara eins og 200 ár aftur í tímann og skoða 6-7 kynslóðir. Fjölskyldusagan yki skilning á aðstæðum okkar í dag. Menn velta fyrir sér hvað af eiginleikum og lífi forfeðranna hefur síast niður til þeirra sjálfra.
Ástæða þess að ekki þarf að fara lengra aftur, er sú að fram á 19. öld voru litlar breytingar á högum Íslendinga almennt. „Núverandi sérstaða í krafti eigna eða valds hefur yfirleitt myndast á síðustu öld“ sagði Stefán.
Gagnlegir vefir
Hann rakti svo hvernig finna má upplýsingar um forfeðurna á mismunandi vefjum. Það er eins og áður sagði fyrsta skrefið að skoða www.islendingabok.is. Til að fá meira kjöt á beinin er líka hægt að skoða vefinn www.timarit.is þar sem oft er hægt að finna efni um fólk sem birst hefur í blöðum, minningargreinar og fleira. Þá er vefurinn www.heimildir.is gagnlegur, en þar er að finna manntöl, kirkjubækur, sóknarmannatöl og margvísleg önnur skjöl. Aðrir vefir sem hann nefndi sem einnig gætu verið gagnlegir eru þessir.
Á námskeiðum sínum fer Stefán yfir gagnlega vefi og leitaraðferðir fyrir þá sem hafa áhuga á að fræðast um forfeður sína og formæður. Þetta er sett í samhengi við Íslandssöguna og þróun íslensks samfélags.