Mikill viðsnúningur í fjármálum félagsins

Ingibjörg H. Sverrisdóttir hefur verið formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni síðustu tvö ár og sækist eftir endurkjöri á aðalfundi félagsins 8. mars. Þorkell Sigurlaugsson gefur einnig kost á sér til formennsku í félaginu og verður kosið milli þeirra tveggja á aðalfundinum sem verður haldinn í Gullhömrum í Grafarholti á þriðjudag klukkan 13:30. Hér á eftir fara svör Ingibjargar við spurningum sem Lifðu núna sendi til beggja frambjóðenda.

Hver eru þín markmið varðandi starf Félags eldri borgara?

Félagið á að vera málsvari félagsmanna varðandi þau málefni sem varða eldra fólk. Kjaramálunum þarf að halda á lofti því þar er mörgu ábótavant. Samvinna við Landssamband eldri borgara og önnur aðildarfélög í þeim málum er mikilvæg og gerir félagið enn sterkara í allri hagsmunabaráttu. Nauðsynlegt er að viðhalda almennri virkni félagsmanna og því á félagið að vera með fjölbreytta og breytilega félagsstarfssemi samkvæmt eftirspurn hverju sinni.  Áhugi eldra fólks á ferðalögum innanlands sem utan hefur farið vaxandi enda hefur sá hópur, sérlega eftir starfslok, meiri tíma til að skoða sitt eigið land og önnur. Það er því verðugt verkefni Feb-ferða að svara þeirri eftirspurn.

Hver eru mikilvægustu verkefni félagsins að þínu mati?

Kjaramálin og önnur hagsmunamál eldra fólks eru efst á baugi hjá flestum félagsmönnum í almennum viðræðum og þar mun ég beita mér. Þá er það brýnt verkefni að efla félagsstarfið enn frekar nú þegar sóttvarnaraðgerðum vegna Covid hefur verið aflétt. Þær hafa haft mikil áhrif  síðustu tvö ár hjá félaginu hér í Reykjavík og nágrenni eins og annars staðar.

Hvað verður það fyrsta sem þú gerir náir þú kjöri?

Þar sem ég hef verið formaður síðast liðin 2 ár, liggur fyrir að ég mun halda þeim verkefnum áfram sem við erum nú þegar að glíma við. Þar vega húsnæðismálin mjög þungt. Það er mikil eftirspurn eftir húsnæði fyrir eldra fólk og varðandi þau mál höfum við hjá félaginu verið að leita lausna og munum halda því verkefni áfram. Það er líka brýnt að halda vel utanum fjármál félagsins. Þegar ég tók við formennskunni fyrir tveimur árum stóðu fjármál félagsins ekki vel. Sem betur fer hefur okkur tekist með samstilltu átaki stjórnar og starfsmanna félagsins að snúa því við, þannig að staðan er miklu betri, enda afar mikilvægt að fara vel með félagsgjöld þeirra sem eru í félaginu.

Telur þú þörf á að efla félagsstarfið? Hvernig?

Margt af því félagsstarfi sem verið hefur virkt til margra ára er vel sótt og mikil eftirspurn eftir því. Nýjungar og fjölbreytni er þó nauðsynleg allt eftir áhuga og eftirspurn félagsmanna hverju sinni og að sjálfsögðu er tækifæri nú þegar sóttvarnaraðgerðunum hefur verið aflétt að ráðst í enn frekari verkefni á því sviði.

Á hvern hátt ætlar þú að berjast fyrir kjörum  eldri borgara?

Ég vil að félagið sé virkt í samstarfi við Landsssambandið og önnur aðildarfélög þegar kemur að kjaramálum því styrkurinn felst í því að vera sameinuð um sameiginleg mál eins og kjaramálin.

Hver er afstaða þín til málaferla Gráa hersins?

Hún er mjög jákvæð enda er ég ein af þremur ákærendum sem eru að sækja málið og ég hef frá upphafi tekið virkan þátt í undirbúningi þessara málaferla við ríkið vegna skerðinga á greiðslum til lífeyrisþega.

Finnst þér mikilvægt að félagið höfði til „yngri“ eldri borgara?

Vissulega, því hægt er að gerast félagsmaður frá 60 ára aldri og nauðsynlegt að sinna mismunandi aldursskeiðum eldra fólks.

Hvernig á að laða yngra fólkið að félaginu?

Vegna aldursfordóma í þjóðfélaginu er erfitt að ná til þessa hóp sem er samhliða ögrandi verkefni.

Telur þú það samræmast formennsku í félaginu að vera í fullu starfi annars staðar?

Starf formanns hjá FEB er talsvert og miðað við reynslu síðustu tveggja ára sé ég það ekki unnið samhliða fullu starfi á öðrum stað. Mörg verkefni formanns krefjast viðveru bæði á skrifstofu og öðrum stöðum utan hennar við margt sem félagið hefur aðkomu að.

Annað sem þú vilt koma á framfæri?

Ég hef haft verulega mikla ánægju af starfinu og þakklát fyrir það tækifæri sem mér var veitt með kosningu í embættið árið 2020. Þetta er að mestu sjálfboðavinna í þágu eldra fólks sem ég hef lagt mikla vinnu í og hvergi slegið af þegar aðkomu minnar að ýmsum málum hefur verið óskað.  Ég fagna þeim mikla viðsnúningi sem hefur orðið í fjármálum félagsins síðasta ár og hef áhuga á að viðhalda þeim árangri. Tvö ár í embætti er ekki langur tími þannig að mörgum verkefnum er enn ólokið sem ég hef áhuga á að vinna frekar að þess vegna býð ég mig fram til endurkjörs með krafti og heilindum í þágu eldra fólks og félagsins.

Ritstjórn mars 6, 2022 16:50