„Hvernig stendur á því að ég er enn einhleyp? Mér vegnar vel í lífinu, ég á hóp vina og lifi skemmtilegu og áhugaverðu lífi. Ef ég ætla mér eitthvað næ ég yfirleitt árangri. Hvað veldur þessu eiginlega?“
Andrea McGinty bandarískur stefnumótaráðgjafi er ekki í vafa um hvers vegna konur sem hafa leitað að félaga eða maka í langan tíma fá oft litlu áorkað. Hún hefur 25 ára reynslu í þessum bransa og er ekkert að skafa utan af því, þegar hún fær spurningar eins og Hvers vegna er ég ennþá einhleyp? Hvers vegna finn ég engan félaga? Andrea segir „Hver er ástæðan? Það er leiðinlegt að segja það, en ástæðan ert þú sjálf. Það ert þú sem gerir að verkum að þú ert alltaf einhleyp. Það eru ekki örlög og það er ekki vegna þess að það sé ekki nægilegt framboð á karlmönnum, það er ekki aldurinn og það ekki vegna þess að þú býrð afskekkt. Þú berð ábyrgð á þessu sjálf“.
Andrea fer síðan yfir fimm helstu ástæður þess að makaleit ber ekki árangur:
1.Nenna ekki að leggja vinnu í að finna maka
Þú leggur enga vinnu í makaleitina. Já, þetta er vinna og aftur vinna. Ef þér hefur vegnað vel í starfi er ástæðan líklega ekki sú að þú hefur bara setið og óskað þess að þér gengi vel. Það er miklu sennilegra að þú hafir gert þér grein fyrir hvað þú vildir og ætlaðir þér og síðan unnið stíft að því marki. Jafnvel með aðstoð leiðbeinanda. Þetta var ekki bara heppni, er það?
Hvers vegna ætti það að vera eitthvað öðruvísi að leita að maka? Það er nefnilega það, það er ekkert öðruvísi. Ef þú leggur á þig vinnu, uppskerðu í samræmi við það.
- Þora ekki út fyrir þægindarammann
Þú ert alltof föst í þínum þægindaramma. Lífið er reglubundið, þú ferð út að ganga með hundinn, ferð í partý með vinum þínum og svo framvegis. En þú ert alltaf að gera það sama. Þú ert pikkföst í þægindarammanum og gerir þér ekki einu sinni grein fyrir því. Hvenær gerðir þú eitthvað alveg nýtt?
- Engin markmið og frestunarárátta
Ekkert plan og öllu slegið á frest. Sumir hugsa. Ég hitti ábyggilega einhvern á næst ári, ég strengi nýársheit, að finna einhvern þá. Allir vita hvernig nýársheitin eru. Flest fara þau í vaskinn fyrstu 10 dagana í janúar.
Þú þarft alvöru í málið og kannski markþjálfa þér til aðstoðar, ekki stóla á vini þína, þú verður að koma þér uppúr gömlu hjólförunum. Ef þú borgar fyrir golfnámskeið, Pilates tíma eða jóga, þá mætirðu á staðinn. Hvers vegna er það? Jú, af því að þú fjárfestir í þessu og steigst skref til að bæta líf þitt og heilsu.
Þá er það önnur spurning, hvers vegna er það eitthvað öðruvísi með stefnumót?
Það leitaði til mín ung kona fyrir sex mánuðum, sem heitir Anna. Hún er 66 ára, falleg og hefur verið fráskilin í 5 ár. Börnin hennar eru farin í háskóla og hún er mjög efins um stöðuna á stefnumótamarkaðinum. Hún finnur alls kyns afsakanir fyrir að henda sér ekki út í djúpu laugina.
„Karlar vilja vera með ungum konum“, segir hún. Það er rétt að vissu marki. Skoðanakannanir sýna að það gildir um 20% einhleypra karla. En það þýðir líka að 80% karlmanna eru ekki á þeim buxunum.
Anna segir líka að sig langi til að hitta einhvern á eðlilegan hátt. „Hvað þýðir það nú eiginlega“, spyr Andrea. „Í vinnunni? þegar þú ferð út að ganga með hundinn eða spilar badminton við vinkonur þínar?“
Andrea segist í hverjum mánuði fá tölfræði frá fyrirtæki, sem fylgist vel með þróun ýmissa atvinnugreina. „Síðasta skýrsla sem ég fékk, sýnir að rúmlega 52 þúsund og 800 einhleypir á aldrinum 50-70 ára skráðu sig á stefnumótasíðu í síðustu viku og bara á eina síðu – af mörgum. Veistu hvernig tölurnar eru í Desember og Janúar? Þær hækka verulega og þetta er bara venjulegt fólk, eins og þú og ég“.
En snúum okkur augnablik aftur að Önnu. Hún fór á stefnumót við sex karlmenn í síðasta mánuði. Hún hefur hitt þrjá þeirra aftur og skemmtir sér konunglega.
4.Óraunhæfar væntingar
Hann verður að vera 180 á hæð, ekki vera að burðast með farangur úr fyrri samböndum, íþróttamannslega vaxinn, hafa gaman af að ferðast og svo fram eftir götunum. „Reyndu að gleyma þessum væntingum um stund“, segir Andrea. Við erum öll með okkar farangur, ég kalla það lífsreynslu. Ekki gera óskalista yfir karlmenn sem þú vilt hitta. Snúðu þér hins vegar að því sem er mikilvægast í samböndum. Kemistríu, samræðum og sameiginlegum gildum. Hvað með það þó hann sé 175 centimetrar á hæð og sé skíðamaður, á meðan þú stundar golf? Langar þig virkilega að hitta einhvern sem er nákvæmlega eins og þú? Þú myndir deyja úr leiðindum“.
- Hræðsla við hið óþekkta
„Því miður eru margir hræddir við að fara inná stefnumótasíður á netinu og bara hræddir við að fara aftur út á stefnumótamarkaðinn yfirleitt“, segir Andrea og er ekki í vafa um hver lausnin er. „Hún er að æfa sig. Ef fólk er óöruggt eða kvíðið, á það að leita hjálpar. Ég býð lausn, en hún er að fara á fimm stefnumót á nokkrum vikum. Þá verður fólk fleygt og fært í því að hitta nýtt og nýtt fólk og lífið verður mun auðveldara“