Mosi-oa-Tunya eða Reykur sem rís og drynur er heiti Viktoríufossana í Zimbawe á máli heimamanna. Viktoria er þaðan upprunnin að hálfu og um leið og hún býður gesti Borgarleikhússins velkomna inn á heimili sitt fræðir hún þá um þetta heiti þeirrar náttúrugersemi sem er arfleifð hennar. Lundúnabúi, af jamaiískum ættum, heillast af íslenskri reggíhljómsveit íslenskri konu og drununum í Dettifossi. Ung Reykjavíkurmær heyrir tóna alsírsk tónlistarmanns og kroppurinn bregst við, einhver tenging kviknar í frumunum. Þessar sögur eru hluti af sýningunni Þegar ég sé þig sé ég mig, í Borgarleikhúsinu, heillandi og áhrifmikilli sýningu sem opnar áhorfendum sýn inn kviku nokkurra Íslendinga sem að hálfu tilheyra öðrum menningarheimi.
Upphafsatriði sýningarinnar er gríðarlega áhrifamikið og táknrænt. Persónurnar ganga fram á sviðið líkt og þau séu að stíga gegnum skil tveggja heima. Þau gefa okkur innsýn í upplifun sína af því að vera brúnn og alast upp á Íslandi. Tækifærunum sem felast í að finna óskastein við rætur Glyms í Hvalfirði, sorgina við að mæta rasisma og vinnunni við að slétta hár sitt í þrjá klukkutíma þótt maður kunni pönnukökuuppskrift ömmu utanað og eigi alltaf flatkökur í frystinum til að smyrja og henda á hangikjöti banki gestur óvænt upp á.
Það er svo hjartnæm einlægni í sögum þeirra hvort sem þær eru tjáðar í frásögn, söng, rappi eða dansi að þau hljóta að hræra meira að segja harðan steininn. Og það eru svo mörg lög í þessari sýningu. Alexander McCall Smith skrifaði í fyrstu bókinni um Precious Ramotswe, „…hver maður hefur í hjarta sínu kort af sínu eigin landi og hjartað mun aldrei leyfa þér að gleyma því korti.“ Fleiri skáld hafa tjáð svipaða tilfinningu og hugsanlega býr í genunum einhver minning eða þekking á umhverfi fjölskyldunnar, arfleifð ættarinnar. Er það þess vegna sem ung stúlka í leit að ömmu sinni í fátæku landi skynjar tilfinningar sem hún ekki skilur? Er það þess vegna sem reykur Viktoríufossana liðast um í huga og hjarta lítilla stelpu á Íslandi? Og hvað með reggítaktinn, áleitna tóna söngvarans Rachid Taha þegar hann syngur „Hvert ertu að fara ferðalangur“ og síðar hvers vegna hjarta hans sé svo dapurt, er þetta eitthvað sem eingöngu talar til þeirra sem eiga fleiri en eitt heimaland. Leggja langförul land undir fót en búa við innra landslag skreytt fjölbreyttara landslagi en fossum og fjallshlíðum?
Í leit að sjálfum sér

Svo er það leitin að sjálfsvitund og þekking á hver maður er og hver maður vill vera. Í seinni sögu Lewis Carroll af Lísu heldur hún ekki til Undralands heldur stígur í gegnum spegilinn inn veröld þar sem allt er öfugsnúið. Sólin skín á öldurnar um miðja nótt og rostungur og trésmiður tæla ostrur upp úr sjónum. Lísa stendur á mörkum tveggja heima, hún er að kveðja unglinginn og verða ungmenni, ganga inn í heim hinna fullorðnu. Öll þurfum við að finna okkur stað í þessum heimi, bæði sem börn og fullorðin. Íslendingar eru flestir svo heppnir að þeir geta speglað sig í augum mömmu sinnar, pabba, ömmu, afa, langafa og langömmu og sjá eigið svipmót skýrt og þekkja ræturnar. En þjóðin er að breytast, verða fjölskrúðugri og með breytilegar sögur að baki. Það fólk þarf að stíga í gegnum spegilinn og hljóta þar samastað, finna sér leið og finna kortið af landinu í hjarta sér.
Flytjendur stóðu sig allir með eindæmum vel. Viktoria Dalitso er sérlega hrífandi og hæfileikarík. Hún tekur á móti gestum á skörulegan og skemmtilegan hátt og sýnir svo seinna í sýningunni hve ótrúlega fjölhæf hún. Þórdís Nadia Semicat og Tara Sóley Mobee eru heillandi hvor á sinn hátt. Þórdís Nadia með dramatíska og blæbrigðaríka sögu og Tara Sóley með sinni einstæðu einlægni og innileika. Sedley Francis hefur áhrifamikla rödd og tjáir sig gegnum tónlist, sögur og myndir. Skúli Isaaq Quase eftirminnilegur og hreinskiptinn í túlkun sinni og frásögn af uppvexti sínum og dansar Luis Lucas vekja ótrúleg hughrif.
Þetta er ekki hefðbundin sýning með upphafi, miðju og enda heldur sjálfstæðar frásagnir samtengdar með dansi og tónlist. Erna Kanema Mashinkila skrifaði handritið í samstarfi við leikhópinn og leikstýrði. Hún nær að skapa einstaklega fallegan ramma utan um verkið með áhrifamiklum táknmyndum og hversdagslegum athöfnum sem minna á að í grunninn erum við eins, þurfum hrein föt, mat og tengsl við aðra. Tónlistarstjórn er í höndum Sonny Bouraima og oft nær tónlistin að koma rækilega á óvart, vekja óvænt hugrenningatengsl og upplýsa. Bjartur Örn Bachmann og Dýrfinna Benita sjá um leikmynd, fagurfræði og búninga og sviðið er listavel nýtt og leikmyndin í senn hversdagsleg og falleg. Þetta er heimili þar sem er rúm fyrir alla. Bjartur Örn sá einnig um ljósahönnun og Eva Halldóra Guðmundsdóttir var aðstoðarleikstjóri og dramatúrg. Dans-og sviðshreyfingar eru eftir Indy Yansane í samstarfi við Þórdísi Nadiu Semichat og Luis Lucas. Framleiðandi sýningarinnar er Jónmundur Grétarsson/Elefant. Þessi sýning er töfrandi og eftirminnileg og skilur mikið eftir hjá áhorfendum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







