Í ermalausu um jólin

Olga Soffía Einarsdóttir

Olga Soffía Einarsdóttir

Olga Soffía Einarsdóttir, stílisti, segir að konur mættu alveg vera duglegri að ganga í björtum og skærum litum. Það megi sem best gefa dökku litunum frí af og til.

Hátíðarnar nálgast og þá langar margar konur að klæðast fallegum ermalausum kjólum eða flegnum toppum. Margar  eru sáróánægðar með upphandleggina á sér og forðast að fara í ermalausa kjóla eða toppa þó  þær langi til þess.

Olga Soffía segir að það sé val hverrar og einnar að  hylja á sér upphandleggina.

Sjöl hylja það helsta

Ef að konur kjósi að hylja handleggina og séu  í fínum kjólum, fari vel að nota sjal sem passar við kjólinn.  „Það hylur það helsta,“ segir hún og bendir á að það sé líka fallegt að nota þröngar beinsniðnar gollur við kjóla. Örþunnir gagnsæir bolir til að nota  undir ermalausa kjóla gefur meiri fjölbreytni og fer vel við ýmis tækifæri.

Svo má alltaf bregða sér í fallegan jakka yfir kjóla og toppa.  „Um að gera að vera hugmyndaríkur,“ segir Olga Soffía.

Jólakjóllinn í ár

Jólakjóllinn í ár

Olga Soffía lumar líka á ýmsum góðum ráðum ef konum finnst háls og bringa orðin of hrukkótt. „Konur geta fengið sér kjóla með hærra hálsmáli.  Það er líka hægt að nota stóra skartgripi, þeir draga að sér athygli og þunnar og fallegar slæður eru alltaf klassískar,“ segir hún og bætir við að ef konur séu brúnar beri minna á misfellum í húðinni.

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 2, 2014 14:30