Ólafur Hallgrímsson fór á sjó sem unglingur og var 22 ára gamall þegar hann fór í Stýrimannaskólann. Hann var þá giftur og þegar hann kláraði skólann 25 ára gamall voru börnin orðin tvö. Þá bætti hann við sig útgerðartækni í Tækniskólanum og síðan þá hefur hann stundað sjómennsku og lengst af sem skipstjóri. En nú hefur Ólafur hafið nám í Háskóla Íslands.
Ólafur segist hafa verið einsamall að þvælast í mörg ár þar sem hann og fyrri eiginkona hans skildu um aldamótin síðustu. 2002 bauðst honum síðan að fara í leiðangur til Noregs sem stóð í tæpt ár. Að þeim tíma liðnum var hann búinn að komast að því að í Noregi var gott að vera og ákvað að sækja þar um vinnu. Ólafur var í Noregi þar til fyrir tveimur árum en þá hafði hann kynnst Bryndísi Bragadóttur sem átti eftir að verða eiginkona hans.
Skagamaður hitti annan samskonar
Ólafur er frá Akranesi og vissi af gömlum Akurnesingi, Hafsteini Jóhannssyni, sem bjó í Noregi. Sá átti yngri bróður sem var vinur Ólafs af Skaganum og bjó á þessum tíma hjá Hafsteini sem Ólafur segir að sé þekktur ofurhugi og siglingakappi. Hann hafði til dæmis siglt aleinn í kringum hnöttinn á skútu sinni og fylgdi líka Víkingaskipinu til Vesturheims á sínum tíma.
2007 gerðist Ólafur skipstjóri á norskum flutningaskipum. Þá var hann í sambandi við þá bræður og einhverju sinni varð Ólafi á orði að þótt hann væri búinn að vera á sjó frá því hann var unglingur hefði hann aldrei siglt á skútu. “Nú, við verðum þá að breyta því,” segir Ólafur að Hafsteinn hafi sagt að bragði. Sumarið eftir átti að vera ættarmót norður á Flæðareyri í Jökulfjörðum en Ólafur er ættaður úr Grunnavíkurhreppi og í staðinn fyrir að sigla til Skotlands eins og Hafsteinn hafði stungið upp á lagði Ólafur til að þeir sigldu til Íslands og færu á þetta ættarmót með skútuna. Hafsteinn var alveg til í það og undirbúningur hófst.
Gifting um borð í skútu
“Þá um veturinn kviknaði hugmyndin um að við Bryndís vildum gifta okkur og þar sem við vorum bæði að gifta okkur í annað sinn vildum við hafa athöfnina óhefðbundna,” segir Ólafur. “Við sögðum engum frá og vildum nota skútuna sem svið fyrir athöfnina. Ég hafði boðið föðurbróður mínum að sigla með okkur og þau tvö, Bryndís og Kristján, komu fljúgandi til Bergen í júní 2016 þar sem við Hafsteinn vorum komnir með skútuna. Svo lögðum við af stað morguninn eftir.”
Fyrsta hugmynd var að þau Ólafur og Bryndís myndu gifta sig í Færeyjum þar sem Ólafur á frænda. Sá var meira að segja búinn að finna prest fyrir þau en þegar til kom fengu þau að vita að færeyskir prestar mættu ekki gifta nema í guðshúsi. “En þar sem við vorum ákveðin í að gifta okkur um borð í skútunni voru góð ráð dýr. Ég mundi þá eftir því að ég átti skólasystur, Úrsúlu Árnadóttur, sem var aðstoðarprestur í Vestmannaeyjum þetta sumar. Ég hafði þá samband við hana og hún hélt nú að þetta yrði ekkert mál og sagðist auðvitað myndi redda þessu. Við vorum í 6 sólarhringa að sigla til Eyja og af því við vorum orðin stressuð að ná ekki í tæka tíð á ættarmótið sigldum við fram hjá Shetlandseyjum og Færeyjum. Komum svo eftir 6 sólarhringa til Vestmannaeyja þar sem við gátum drifið okkur í sund og haft það notalegt eftir volkið. Þá var hafist handa við að undirbúa brúðkaupið um borð í skútunni sem átti að vera daginn eftir. Um kvöldið sáum við Ísland vinna England í fótbolta á sportpöbbnum í Eyjum sem er geysilega eftirminnilegt líka,“ segir Ólafur brosandi.
Þessa daga voru því undur og stórmerki að gerast í lífi margra Íslendinga, ekki bara Ólafs og Bryndísar.
Sigldu í Klettshelli með trompetleikara, prest og svaramenn
Um hádegi daginn eftir sigldu þau út undir Klettshelli í Eyjum með trompetleikara og prest og Hafsteinn og Kristján voru svaramenn. Að lokinni athöfninni í hellinum var viðstöddum boðið upp á súkkulaðitertu, Mackintosh og gos en kampavínið var látið bíða þar sem fyrir höndum var siglingin upp á land. Þegar þau komu í land í Eyjum eftir athöfnina hófust þau handa við að hringja í börnin og aðra ættingja til að láta vita af gjörningnum en enginn vissi fyrirætlan þeirra Ólafs og Bryndísar. Síðan var siglt sem leið lá í Jökulfirðina með viðkomu í Bolungarvík þar sem hluti af skyldfólki Ólafs kom um borð og fékk far á ættarmótið. Þar voru þau yfir helgina áður en siglt var aftur til Bolungarvíkur með fólkið og þar fór Kristján, föðurbróðir Ólafs, líka frá borði. Ólafur, Bryndís og Hafsteinn sigldu áfram og fóru aftur til Noregs með viðkomu í Grímsey, Færeyjum og Shetlandseyjum.
Hugmyndin að náminu kviknar
Ólafur tók ákvörðun um að hætta störfum sínum í Noregi og koma til Íslands en þau Bryndís höfðu fest kaup á húsi sem Ólafur hófst handa við að laga að þeirra þörfum. Bryndís er tónlistarkennari og hafði um nokkurra ára skeið átt og rekið tónlistarskólann Tónhæðina sem hún leigði húsnæði undir. En núna gátu þau innréttað skólahúsnæði á neðri hæðinn í nýja húsinu.
Vorið eftir að þau komu heim réði Ólafur sig sem skipstjóri á hvalaskoðunarskipi. Hann segist hafa verið svo grænn þegar hann réði sig að hafa ekki vitað að hvalaskoðunarfyrirtækin lytu ekki neinum lögmálum varðandi laun sjómannanna um borð og eins var hann ósáttur við umhverfis- (hreinlætis) stefnu fyrirtækisins sem hann starfaði fyrir og það endaði með því að Ólafur hætti ósáttur um mánaðamótin júlí/ágúst síðastliðinn.
Áhugamaður um ferðalög og landafræði
Eins og aðrir sjómenn segist Ólafur hafa átt sér drauma um að gera ýmislegt sem hann hafi ekki getað látið rætast af því hann hafi alltaf verið úti á sjó. Hann segist hafa ráðið sig á hvalaskoðunarskipið af því það væri eitt af fáum sjómannsstörfunum sem gerði honum kleift að koma heim að kvöldi. En þegar sá draumur var úti og Ólafi hafði verið ráðlagt af lækni að taka það rólega um tíma þá kom upp sú hugmynd að drífa sig í skóla. Það var þá sem hann kom auga á leiðsögumannanámið í Háskóla Íslands og segist sannarlega ekki sjá eftir því að hafa skráð sig í það nám. “Það er alveg ótrúlega skemmtilegt að takast á við þetta nám þar sem fögin eru sérlega áhugaverð og maður græðir mikið í hverjum fyrirlestri. Síðast en ekki síst eru þarna samankomnir nemendur sem eru hver öðrum merkilegri, allt frá krökkum sem eru nýskriðnir út úr menntaskóla upp í sjötuga vísindamenn og allt þar á milli.”
Draumurinn um að syngja
Aðrir draumar sem Óli lét rætast eftir að hann hætti í Noregi voru að fara að stunda fjallgöngur með Fjallavinum og ganga í kór. Hann hóf að syngja með blönduðum kór sem heitir Mánakórinn þar sem þau hjónin syngja bæði en Bryndís er vön kórastarfi. Þau Bryndís og Ólafur eiga 6 börn samtals og nú er ellefa barnabarnið á leiðinni svo að fullyrða má aðríkidæmi þeirra sé mikið sem er hvort með annað og svo alla afkomendurna.