Í sömu góðu sætunum ár eftir ár

Þegar veturinn nálgast fara margir á stjá og kaupa sér áskriftir að sinfóníutónleikum og leikhúsum. Lifðu núna ræddi við tvo fasta áskrifendur að tónleikum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu, þá Njörð P. Njarðvík og Viðar Ólafsson.  „Klassík er ein af mínum ástríðum“, segir Njörður. Alveg frá því ég lærði á píanó sem unglingur hjá Ragnari H. Ragnars. Hann og eiginkona hans Bera Þórisdóttir hafa verið ákrifendur að sinfóníutónleikum í 45 ár. „Við höfum verið áskrifendur síðan við fluttum heim frá Svíþjóð árið 1971 og hættum því ekki fyrr en við verðum alveg farlama“, segir Njörður.

Njörður og Bera hafa verið ákskrifendur að tónleikum Sinfóníunnar í 45 ár

Njörður og Bera hafa verið ákskrifendur að tónleikum Sinfóníunnar í 45 ár

Sjá vel yfir sviðið

Njörður og Bera keyptu bæði rauða tónleikaröð í vetur og gula. Fastir áskrifendur fá sömu sætin ár eftir ár og verða margir býsna vanafastir. Viðar Ólafsson og konan hans Birna Björnsdóttir keyptu rauða tónleikaröð fyrir veturinn, en þau hafa líka verið áskrifendur hjá Sinfóníunni í fjöldamörg ár. Byrjuðu í Háskólabíói. Þeirra sæti eru á fyrstu svölum, nálægt sviðinu þar sem Viðar segir að þau sjái vel yfir sviðið“. Hann segir tónleikana ánægjulega upplifun og að þeir séu góður hluti af vetrardagskránni. „ Það sem er líka, er að maður heyrir alltaf eitthvað nýtt, það er svo mikil fjölbreytni. Það er alltaf verið að koma með ný tónverk, maður kynnist nýjum tónskáldum, nýrri tónlist og öðlast víðara sjónarhorn“, segir hann.

Vill skynja tónlistina hjálparlaust

Ýmsir fá sér bita í Hörpunni fyrir tónleika, en það á hvorki við þá Viðar eða Njörð. Viðar segir að þá verði fólk syfjað og eigi erfitt með að einbeita sér á tónlistinni,  stöku sinnum fara þau Birna á kynningar fyrir tónleika, en það gerir Njörður yfirleitt ekki. „Það hefur komið fyrir, en ég er of sérvitur til þess. Ég vil skynja þetta sjálfur hjálparlaust“, segir hann. Þau Bera fóru fyrst að sækja sinfóníutónleika í Þjóðleikhúsinu og síðan var það Háskólabíó „Svo erum við loksins komin í almennilegt konserthús“, segir Njörður um Hörpuna. Viðar er líka ákaflega hrifinn af henni. „Harpan er upplifun út af fyrir sig. Glæsilegt hús með mikil hljómgæði. Jafn flott hús eru ekki endilega í boði annars staðar. Við höfum komið í Óperuhúsið í Sydney og í Vínarborg og Harpan stenst alveg samanburð við þau“.

Heltekinn af Sjostakovits

Það ríkir mikil ánægja með Hörpuna og flestir segja að hljómburðurinn sé góður alls staðar í salnum

Það ríkir mikil ánægja með Hörpuna og flestir segja að hljómburðurinn sé góður alls staðar í salnum

Þau Njörður og Bera sæta líka færist að sækja sinfóníutónleika þegar þau fara út fyrir landsteinana. „Í næsta mánuði ætlum við til Parísar þar sem við förum á tónleika og hlustum á  tíundu sinfóníu Mahlers,“ segir Njörður. Hann á sína uppáhaldstónlist og flytjendur. „Ég er allt að því heltekinn af Sjostókovits og finnst tónlistin hans stórkostleg. Ég hef líka gaman af píanókonsertum og konsert Rachmaninoffs númer 3 er þar sérflokki.  Hann segist einnig hafa verið á mögnuðum tónleikum hjá finnska stjórnandanum Esa Pekka Salonen.

„Professionalismi“ alltaf að aukast“

„Ég á mér ekki uppáhalds tónskáld“, segir Viðar sem nefnir þó Sjostakovits sem dæmi um gott tónskáld. Hann segir að Benjamin Britten hafi komið á óvart og að sér finnist íslensku tónskáldin góð, „Áskell Másson til dæmis, það er alltaf gaman að heyra eitthvað eftir hann“. En hann er líka hrifinn af yngri tónlistarmönnum. Þau Birna eru líka áskrifendur í leikhúsunum og hann segir að þau séu alltaf jafn ánægð þegar þau komi heim.  Honum finnst áberandi hvað  „professionalismi“  í bæði leikhúsunum og tónlistinni hefur aukist mikið hér á undanförnum árum. Hann hrósar líka Sinfóníunni fyrir val á einleikurum og einsöngvurum og segir val þeirra á gestastjórnendum mjög gott.

 

 

Ritstjórn september 1, 2016 12:11