Jafnnotaleg og bolli af heitu súkkulaði

Stundum er notalegt að grípa bók sem maður veit fyrirfram að endar vel. Vistaskipti er ein slík. Beth O’Leary höfundur hennar nýtur mikilla vinsælda í Bretlandi um þessar mundir en sagan hennar Flat Share er orðin að vinsælum sjónvarpsþáttum. Switch eða Vistaskipti er ekki síðri. Ef fólk hefur séð kvikmyndina The Holiday með Cameron Diaz og Kate Winslet þá má upplýsa að uppbygging sögunnar er ekki ósvipuð nema önnur konan í leit að nýjum tækifærum er sjötíu og níu ára.

Leena nýtur mikillar velgengni í starfi, er klár, skipulögð og með allt á hreinu, þ.e. þar til hún missir systur sína. Það er eins og henni takist bara ekki að komast yfir sorgina og reiðina í garð móður sinnar. Hún ákveður að heimsækja ömmu sína og kemst þá að því að Eileen, amma hennar, er í leit að nýjum félaga og þeir eru fáir frambærilegir í smábænum þar sem hún býr. Það verður úr að Leena flytur til Hamleigh, smábæjar í Yorkshire en Eileen til London.

Fljótlega kemur í ljós að þær, nöfnurnar, (Leena er stytting á Eileen) eiga margt sameiginlegt þótt þær séu hvor af sinni kynslóð. Þær eru strax farnar að skipuleggja og bæta samfélögin í kringum sig um leið og þær lenda á nýjum stað. Þótt bókin sé jafnnotaleg og bolli af heitu súkkulaði á rigningardegi er alvarlegur undirtónn Vistaskiptum. Leena, móðir hennar Marian og Eileen hafa orðið fyrir mikilli sorg og hún hefur rekið fleyg á milli þeirra. Hér er öðrum þræði fjallað um mikilvægi samstöðu í fjölskyldum og að sýna skilning og umburðarlyndi í erfiðum aðstæðum. Einnig er komið inn á ofbeldi í nánu sambandi og nauðsyn þess að styðja við manneskju í slíkum aðstæðum.

Persónurnar eru skemmtilegar og heilsteyptar. Eileen er sjálfstæð, orðheppin og afskiptasöm en meinar vel og fyrirgefst því margt. Leena er lík ömmu sinni en móðir hennar hægari og hlédrægari karakter. Það er mikil kímni í sögunni og margar senur virkilega fyndnar. Þetta er einmitt bókin sem maður ætti að pakka fyrst þegar farið er í sumarbústaðinn, ekki hvað síst þessa dagana þegar veturinn virðist tregur til að sleppa tökum á landinu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 4, 2024 07:00