Anna Kristine Magnúsdóttir skrifaði þessa skemmtilegu grein og við fengum að birta hana á Lifðu núna vefnum á sínum tíma. Við endurbirtum hana hér í minningu Önnu sem nú er fallin frá.
Börn eru oft skemmtilegustu viðmælendurnir og því kynntist ég fyrir 18 árum þegar ég vann á Rás 2 hjá Ríkisútvarpinu. Við vildum gjarnan hafa stutt og jákvæð viðtöl í fremri hluta þáttarins og því lagði ég leið mína á leikskóla á þrettándanum og hitti þar fyrir tvo drengi, 4 ára. Þeir heita Jón Steinar og Árni og vissu allt um hvað varð um jólin, meðal annars að það var mikið að gera hjá Grýlu við að þvo og laga búningana fyrir næstu jól.
Skömmu fyrir páska lagði ég aftur leið mína á leikskólann og fékk að hitta þessa bestu vini aftur og nú spurði ég þá: Hvað gerðist á páskunum?
,,Jesú fór út að borða með öllum vinum sínum og þar var einn svikari sem vildi bara peninga svo hann fór úr boðinu og hitti mann sem vildi borga honum fullt af peningum ef hann segði sér hvar Jesú væri.
Maðurinn gerði það og fullt af vondum mönnum komu í matarboðið hans Jesú og tóku hann.“
Hvað gerðist svo næsta dag, á föstudaginn langa?
,,Nú þá var Jesú hjá vondu mönnunum sem settu hann upp á kross og létu hann hanga allan daginn þangað til hann dó.“
Var hann í einhverjum fötum þarna á krossinum?
Þeir litu á mig mjög hneykslaðir á svip.
,,Auðvitað var hann í fötum. Hann var í bláum jakkafötum, hvítri skyrtu, hvítum sokkum og brúnum skóm.“
Gerðist svo eitthvað meira?
,,Já vinkonur hans fóru til hans þegar hann var dáinn en hann var lokaður inni í helli og stór steinn settur fyrir. En þegar þær komu var enginn steinn og Jesú ekki þar.“
Og hvert haldið þið að hann hafi farið?
,,Upp til Guðs og englanna. Þar á hann heima núna. Hann lifnaði við“
En hvað með annan í páskum, hvað var fólk að gera þá?
,,Mamma hans Jesú var bara að taka til í húsinu þeirra, en pabbi hans þurfti að smíða nýtt grindverk fyrir húsið sem vondu mennirnir höfðu brotið niður þegar þeir voru að leita að Jesú.“
Jæja strákar, þið svöruðuð mjög vel, sagði ég og fór að ganga frá upptökutækinu. Heyrist þá ekki mjórómar rödd: ,, Veist þú ekkert sjálf? Þú vissir ekkert hvert jólin fóru og nú veistu ekkert um páskana! Þú þarft alltaf að spyrja okkur!“