Jón stal karakternum af Þórbergi

Jón Hjartarson leikari, rithöfundur og kennari mun ganga um gólf og segja sögu á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi í vetur. Og það er engin smásaga sem hann ætlar að færa áhorfendum heldur Sálmurinn um blómið eftir Þórberg Þórðarson. Ein ástsælasta bók þess mikla orðsnillings. Jón er hvorki ókunnur Þórbergi né Sálminum svo verkefnið vex honum ekki mikið í augum.

Þórbergur hefur fylgt Jóni nokkuð lengi og nú eru framundan ný átök við persónu hans og texta.

„Já, hún var mikið success þessi sýning á Ofvitanum á sínum tíma og gekk lengi,“ segir hann. „Svo var hún tekin upp fyrir sjónvarp og þá varð fjandinn laus. Á augabragði varð maður heimsfrægur á Íslandi ef svo má segja. Ég varð dálítið hvumsa þegar Kjartan Ragnarsson spurði mig í fyrravetur hvort ég vildi ekki taka Sálminn en ég sagði bara jú. Það er svolítið skemmtilegt að fá svona ögranir þegar maður er kominn á þennan aldur.“

Jón með börnum sínum f.v. Sigríður Láretta, Helga Braga,Jón, Ingveldur Ýr, Jódís og Hjörtur Jóhann.

Þriðja atrenna að Sálminum

Jón er er áttatíu og þriggja ára og sumum þætti þetta kannski dálítið stórt verkefni fyrir mann á hans aldri.

„Ég hef svolítið baukað við þessa bók, Sálmurinn um blómið, áður. Á hundrað ára ártíð Þórbergs 1988 skrifaði ég leikgerð upp úr henni fyrir sveitunga hans á Höfn í Hornafirði og hún var sett upp þar. Þá var Lilla Hegga eða Helga Jóna Ásbjarnardóttir orðin fullorðin kona og hún fór með mér þarna austur. Hún var góð kunningjakona okkar hjóna og það kom í ljós að maðurinn hennar var náskyldur Ragnheiði Tryggvadóttur, konunni minn. Við áttum talsverð samskipti við Helgu Jónu og hún er einhver sú skemmtilegasta manneskja sem ég hef nokkurn tíma hitt. Hún hafði margt að segja um Þórberg og mömmu Göggu og sagði okkur margar sögur af samlífi þeirra. Það var mjög gaman að kynnast Þórbergi frá hennar hlið. Ég setti verkið ekki upp sjálfur á Hornafirði en gerði það síðar á Selfossi. Þar lék Sigurgeir Hilmar áhugaleikari kallinn og passaði fjandi vel í hlutverkið, í raun miklu betur en ég. Hann var mun líkari honum.

Ég gerði svo einnig leikgerð fyrir útvarpið upp úr Sálminum svo ég er ekki alveg ókunnur honum. Þess vegna fannst mér í lagi að segja já þegar Kjartan bað mig um þetta. Ég væri þá búinn að gera þrjár atrennur að þessu verki og allt er þegar þrennt er. En þetta er auðvitað nokkuð mikið fyrir áttatíu og þriggja ára kall að muna allan þennan texta. Þetta verða tvisvar sinnum 45 mínútur eða full kvöldsýning. Mér hefur tekist bærilega að læra þetta, vona bara að ég klikki ekki á frumsýningu.

Ég er búinn að flytja þetta fyrir mitt fólk sem allt er sérfræðingar í leiklist. Ragnheiður er lærð leikkona sem og Sigríður dóttir mín og Hjörtur sonur minn leikari. Brynja tengdadóttir mín er leikmyndahönnuður, Ingveldur Ýr óperusöngkona, dóttir mín og Ársæll hennar maður eru líka búin að hlusta á þetta. En Helga Braga leikkona og elsta dóttir mín og svo Jódís fósturdóttir mín, sú eina sem er laus við leiklistarbakteríuna koma á frumsýningu.

Svo hef pínt nágranna okkar til að hlusta á þetta. Í gær fór ég í prufu upp í Borgarnes til að kynnast rýminu. Þetta er mjög skemmtilegt form og margar sýningar þarna tekist mjög vel. Þetta er svo einfalt og snjallt. Þú ert bara með áhorfendur beggja vegna og svo gengur þú um og segir sögur. Það eru engin leiktjöld eða leikmunir eða neitt, í mesta lagi stóll sem þú getur tyllt þér á og einhver búningur í anda persónunnar. Svo verður maður bara að segja söguna og leika karakterana og það er bara gaman.“

Líkari Þórbergi en Þórbergur sjálfur

Það skýtur kannski skökku við að Jón tali um að annar leikari hafi verið líkari Þórbergi en hann því margir höfðu á orði eftir að Ofvitinn var sýndur í sjónvarpinu að þú værir hreinlega alveg eins og hann og það jafnvel fólk sem þekkti Þórberg og var honum samtíða. Þekktir þú Þórberg?

„Hann kom einu sinni upp í Kennaraskóla þegar ég var þar og gekk um gólf og sagði draugasögur. Það var í eina skiptið sem ég hitti hann. En ég stúderaði auðvitað allar myndir sem voru til af honum og horfði á viðtal sem var tekið við hann í sjónvarpinu og var frægt. Hann var alltaf að ganga út úr mynd. Þeir höfðu markað honum einhvern bás í stúdíóinu og hann tók auðvitað ekkert mark á því og gekk af og til út úr sjónmáli myndavélarinnar. Magnús Bjarnfreðsson tók þetta viðtal við hann, minnir mig. Þórbergur var mjög skemmtilegur og ég reyndi að skoða allt sem til var af efni með honum en svo býr maður auðvitað til einhverja fígúru sem er í einhverri líkingu við persónuna. Fólk kaupir það svo eða ekki.

Það var svolítið fyndið þegar við vorum að setja upp sýninguna í Þórbergssetri. Jón Þórisson gerði eins konar leikmynd sem er sýningin og ég valdi allan texta í hana. Í opnuninni gekk sjónvarpsupptaka af Þórbergi í einu horninu og fólk fór að skoða þetta og sumir sögðu: „Þetta er ekkert líkt Þórbergi. Það var miklu líkara Þórbergi það sem Jón Hjartarson var að gera.“ Þótt skömm sé frá að segja þá hálfpartinn stal ég karakternum af Þórbergi.“

Auglýsingamyndin fyrir sýninguna. Með Jóni á myndinni er sonardóttir hans, Birta Hallgerður Hjartardóttir

Dásamleg þroskasaga barns

Sálmurinn um blómið er án efa vinsælasta bók Þórbergs og sú sem hefur lifað hvað lengst með fólki. Hvers vegna heldur þú að það sé?

„Þetta er auðvitað alveg dásamleg saga,“ segir Jón. „Hann setur sér það að komast inn í hugarheim barnsins, eiginlega frá því hún er í reifum og þar til hún verður státin stelpa. Hann fylgir þróun barnsins sem auðvitað þroskast mjög hratt á þessum tíma og tekur ýmsum breytingum. Fyrst er hún mjög lík honum guði, eins og hann segir. Svo fer hún að þokast frá honum guði og þá fer hún að ýta við karlinum með ýmiss konar uppákomum og skrökva að honum. Hann tekur það alltaf jafnnærri sér. Og þetta samspil þessa fullorðna manns við barnið er alveg einstök lýsing á þroskasögu barns og auðvitað persónuleika höfundar sem er sérvitur og hjátrúarfullur. Þórbergur er heldur ekkert að skafa utan af hvorki ýmsu í þroskasögu hennar né eigin fordómum og tiktúrum. En hann fylgir alveg uppvexti hennar frá frumbernsku og þar til hún verður eiginlega unglingur. Þetta held ég að einstakt í bókmenntasögunni.“

Í leit að sannleikanum og einfaldleikanum

Leit Þórbergs að sannleikanum eða innstu rökum lífsins gengur eins og rauður þráður í gegnum allar hans bækur. Þessi þrá eftir skilningi og manni finnst að í Sálminum sé hann að leitast við að skilja einmitt með að horfa á heiminn með augum barnsins.

„Hann segir í sögunni að hann líti á allt fólk sem krakka. Sumir eru litlir krakkar og aðrir stórir krakkar og þannig finnst honum mest gaman að tala við fólk. Þetta segir manni líka margt um hans leit að sannleikanum. Hann vill fá sannleikann fram og einfaldleikann og alltaf þegar Lilla Hegga fer út af sporinu og fer að ljúga að honum, hún fer auðvitað snemma að kunna á hann og spila með hann, þá finnst honum hún alltaf vera að þokast frá honum guði. Hann lætur guð koma og skipa sér að skrifa þessa bók og guð verður alltaf svolítið viðmið. Börn verða alltaf svo lík honum guði þegar þau fæðast en fara svo að þokast frá honum þegar þau stækka og þroskast. Sjálfur var hann svo mikill spíritisti og trúði að maður endurfæddist í einhverri annarri sveit, ekki Suðursveit, heldur einhverri annarri dásamlegri sveit.

En þetta er yndisleg saga. Hún er löng því hann er orðmargur og hefur svo gaman af að lýsa hlutunum nákvæmlega. Ég verð þess vegna að redúsera það mjög mikið því annars hefði ég orðið að vera á Söguloftinu í heila viku að flytja hana og ég hræddur um að það hefði orðið mér ofviða,“ segir hann og hlær við. „Það má kalla þetta úrdrátt úr sögunni en hann fylgir samt vel þroskasögu barnsins. Þórbergur var fjögur ár að skrifa þessa bók. Hún kemur út árið 1954 og slær strax í gegn og er vinsælasta bók Þórbergs. Lilla Hegga bjó í sama húsi og Margrét og Þórbergur og var fædd 1943 og hann tekur endurminningarnar frá þeirra sambandi. Undir það að hann er ljúka við að skrifa söguna var hún ekkert sátt við hann því það er farið að yrkja kvæði sem fjallar um samskipti hennar við karlinn. Hún kemur til hans upp í þjóðsögustofuna og segir: „Þú ert alltaf að skrifa helvítis bókina.“ Svo tekur hún hann í sátt rétt áður en bókin kemur út þá er hún ellefu ára.“

Jón fékk bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir bókina Troðninga.

Byrjaði að yrkja sjö ára

En Jón gerir fleira en að skrifa leikgerðir upp úr bókum Þórbergs og flytja. Hann hefur skrifað fjórar barnabækur, þrjár viðtalsbækur og tvær ljóðabækur. Fyrri ljóðabókin, Troðningar fékk bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og sú seinni Tæpasta vað kom út í fyrra og fékk mjög góða dóma. Hefur þú verið að yrkja alla tíð eða er þetta eitthvað sem þú byrjaðir á nýlega?

„Ég byrjaði að yrkja þegar ég var sjö ára. Ég var alinn upp á Hellisandi og þangað komst enginn nema fuglinn fljúgandi, það var enginn vegur og bara keyrt í fjörunni undir Ólafsvíkurenni á jeppum og trukkum og varð að sæta sjávarföllum. Þá var heldur engin vatnsveita en stórt vatn í Höskuldsá og karlarnir sem sóttu vatnið gengu framhjá hliðinu að Munaðarhóli þar sem ég bjó. Þeir vildu prófa það hvort ég gæti búið til vísur eins og Jón afi minn sem ég heiti eftir og var mikill hagyrðingur. Þeir settu fram fyrripart þegar þeir fóru inn að ánni og svo átti ég að vera búinn að botna þegar þeir komu til baka. Þetta tókst ágætlega.

Ég hélt svo áfram að koma við þetta, ritstýrði skólablaðinu þegar ég var í Kennaraskólanum og orti þar kvæði og í leikhúsinu var alltaf verið að panta vísur inn í prólógúa og epilóga. Við Þórarinn Eldjárn sömdu saman revíu eftir pöntun, Skornir skammtar, hét hún og gekk ágætlega. Guðrún Ásmundsdóttir var mikið fyrir að bæta söngvum inn í leikrit og hún var oft að biðja mig að yrkja eitthvað. Ég var líka í að búa til dagskrár fyrir stofnanir, fyrirtæki og stór félagasamtök. Þá varð ég að yrkja mikið og allt eftir pöntun. Þegar ég var laus úr því stússi og leikhússtússinu langaði mig alltaf að setjast niður og skrifa alvöru ljóð. Hitt er allt gleymt og grafið, enda einnota kveðskapur eins og gengur. Þegar ég datt út úr skemmtanabransanum eða aðrir tóku það yfir sem betur fer langaði mig að skrifa alvarlegri ljóð og hugleiðingar.“

Ferðast um óbyggðir á hverju sumri

Í ljóðum Jóns er náttúran fyrirferðarmikil og ekki hvað síst þetta smáa, lauf sem svífa til moldar, barnamosi í mórauðri lygnu, öldugjálfur og mismunandi litur sandur. Fæstir taka eftir slíku en þegar þetta stækkar í ljóði og verður að verðugu ígrundunarefni gefur það tilefni til að hrífast og gleðjast. Er náttúran þér svona hugleikin?

„Já, við Ragnheiður erum miklir náttúruunnendur. Nánast á hverju ári fórum við í fjölskylduferðir um óbyggðir. Fórum í alls konar útilegur og Laugaveginn meðal annars. Svo erum við hluti af dásamlegum hópi sem heitir Trimmklúbbur Seltjarnarness, TKS. Þetta er hlaupahópur og ég hljóp lengi með honum en er hættur því en við höfum farið á hverju ári með þessum hópi í fimm daga ferðir inn til landsins og með ströndum fram. Við erum eiginlega búin að fara um allt Ísland.“

Safnar þú efni í næstu ljóðabók í þessum ferðum?

„Já, kannski en þetta er bara svo dásamlegt, að kúpla sig frá öllu. Maður er ekki í neinu símasambandi og gleymir öllu þessu áreiti sem alltaf er. Fyrst vorum við með allt á bakinu en nú eru allir orðnir svo gamlir og lúnir að þeir nenna því ekki svo við fáum trússa. En þetta hefur verið fastur liður öll sumur að fara þessar ferðir í stað þess að fara í sólina. Hópurinn er náttúrulega dásamlegur. Nú er hann aftur að yngjast og þessir gömlu að detta út. Ég er auðvitað að verða of gamall í þetta. Ég hleyp ekki lengur upp á hæstu fjöll eins og þetta sprettharða unga fólk sem þarna er, fer mest í láglendisgöngur,“ segir hann að lokum en það er talsverð brekka að ætla að ganga um í níutíu mínútur og segja söguna  af Lillu Heggu og Sobegga afa. Það er óneitanlega spennandi að sjá Sálminn um blómið lifna við og sannarlega vel þess virði að keyra í haustlitunum upp í Borgarnes til að njóta þeirrar upplifunar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.