Keyrir vörurnar inní ísskáp

Það fylgja því ýmis þægindi að búa í húsnæði Samtaka aldraðra á Sléttuvegi 31. Því hefur Ingibjörg Elíasdóttir kynnst, en hún flutti í íbúð þar fyrir fjórum árum. Það er til að mynda hægt að keyra með vörurnar alveg „inní ísskáp“ eins og hún orðar það. En í bílageymslunni í húsinu er innkaupakarfa sem hægt er að stilla upp við hliðina á bílnum og setja innkaupokana í. Síðan er bara að keyra hana inní lyftu og alla leið inní eldhús. Hún segir að þetta sé mjög þægilegt þegar mikið er keypt í einu.

Ingibjörg raðar vörunum í kerruna í bílageymslunni

Ingibjörg raðar vörunum í kerruna í bílageymslunni

Sá fram á breytingar

Ingibjörg bjó í fjórbýlishúsi í Hlíðunum. Eiginmaður hennar sem er ný látinn var þá kominn á Sóltún og hún bjó ein. Hún segist hafa séð fram á breytingar í húsinu í Skaftahlíðinni. „Ég bjó með mjög góðu fólki og hjálplegu og gat borgað fyrir það sem þurfti að gera“, segir hún. „En þau voru líka að eldast og eru núna bæði dáin. Ég þurfti að breyta til. Mér þótti Sléttuvegurinn góður staður og sá í anda þjónustumiðstöðina sem átti að rísa hér við endann á lóðinni, þótt hún sé ekki risin enn. Ég er mjög ánægð með að hafa tekið þessa ákvörðun sem ég gerði með stuðningi barnanna minna. Ég sagði ég er tilbúin, enda sá ég fram á breytingar sem síðan hafa orðið“, segir Ingibjörg.

Drekka saman mogun- og kvöldkaffi

Systir hennar sem er níræð býr einnig í sama húsi á Sléttuveginum, en Ingibjörg segir það ákveðna tilviljun, þær hafi ekki gert áætlanir um flutninginn saman. Þær höfðu báðar áhuga á að breyta til og líkaði báðum staðurinn. „Við vorum báðar í þessum pælingum, en fluttum ekki hingað hvor fyrir aðra“, segir Ingibjörg. Engu að síður er notalegt fyrir þær að vera í sama húsi. „Við drekkum saman morgunkaffi og kvöldkaffi“, segir hún „og fáum okkur stöku sinnum bjór á kvöldin ef við viljum halda uppá eitthvað“.

Ingibjörg er með yfirbyggðar svalir og falleg blóm

Ingibjörg er með yfirbyggðar svalir og falleg blóm

Reka á eftir byggingu hjúkrunarheimilis

Ingibjörg segir nauðsynlegt að fólk fái að ráða sinni búsetu sjálft. „Það er mjög mikilvægt að menn ráði sínu lífi sjálfir þó þeir séu farnir að eldast“. Hún segir að margir í húsinu hafi litið á það sem kost, að til stóð að byggja þjónustumiðstöð og hjúkrunarheimili við endann á húsinu. Hún starfaði lengi í fjármálaráðuneytinu og fór nýlega ásamt nágrannakonu sinni á fund tveggja ráðherra til að „reka á eftir byggingu hjúkrunarheimilisins“, eins og hún segir. Hún segir að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hafi engu lofað, en sagt að málin myndu skýrast um mitt ár. Þetta sé mikið baráttumál fyrir eldra fólk og þau hafi safnað undirskriftum í fjórum fjölbýlishúsum á svæðinu til stuðnings málinu. Nánast allir skrifuðu undir og fram kom að fólki fannst ekki síst vanta þjónustumiðstöð þar sem hægt væri að setjast niður og spjalla. „Níutíu ára gamalt fólk getur ekki beðið“, segir hún.

Í ráðherraviðtali og kaffi á eftir

Sonur hennar hringdi í hana þegar þetta var til að tilkynna henni um andlát tengdamóður sinnar. Hann hringdi nokkrum sinnum en náði ekki í hana. Þegar hún kom heim og hann hringdi enn og aftur, sagði hann að hann hefði verið farinn að halda að hann þyrfti að tilkynna tvö andlát. Hafði óttast að hún lægi einhvers staðar dáin. Þá svaraði hún „Ég var í ráðherraviðtali og kaffi á eftir“.

 

 

Ritstjórn ágúst 18, 2015 11:25