„Kína er ævintýraland og engu öðru líkt“

Kristín A. Árnadóttir starfaði stærstan hluta starfsferilsins í utanríkisþjónustunni og var meðal annars sendiherra Íslands í Finnlandi, Austurríki og Kína. Hún hætti að vinna fyrir tveimur árum og segir að það hafi gefið henni frelsi til að upplifa og njóta á nýjan hátt og nú hlakkar hún til  að leyfa öðrum að njóta með sér þess ævintýris að upplifa þá vöggu menningar sem finna má í Kína.

Nú þegar þú hefur ákveðið að taka að þér þetta verkefni hvernig hefur þú hugsað þér að skipuleggja ferðina og hvað ætlar þú helst að sýna fólkinu?

Kristín A. Árnadóttir fyrrverandi sendiherra.

„Ferðin er skipulögð af Úrval Útsýn og fólkið þar hefur valið einmitt að fara á þá staði sem ég hefði valið sjálf ef ég hefði skipulagt ferðina. Það er flogið til höfuðborgarinnar  Beijing og þaðan, eftir viðburðaríka daga, er tekin hraðlest, sem ferðast á hraða ljóssins liggur við, til Xi’an. Það er forn borg á silkileiðinni, ein af stærstu miðstöðvum á þeirri fornu leið. Þar fundu bændur árið 1974 einar merkustu fornleifar tuttugustu aldar,  leirherinn. Sá einstaki herafli var gerður fyrir Qin Shi Huang einn af keisurum keisaraættanna í Kína árið 221 f. Krist. Hann hefur talið öruggara að fara inn í eilífðina eða lífið hinum megin með öflugan her til að tryggja sér sömu völd þar og í jarðlífinu. En hermennirnir eru mörg þúsund styttur í fullri raun stærð og enginn eins. Þetta eru stórkostlegt hagleiksverk. Auk þess má í Xi’an sjá margt annað sem minnir á hina fornu menningu Kínverja en einnig sögulegar minjar um byggðir og menningu múslima því þarna mættust tveir heimar.

Frá Xi’an er farið til staðar sem ég hef ekki komið á og er ein af náttúruperlum Kína og staður sem mig langaði mikið að skoða áður en ég fór þaðan en varð ekki af. Í Zhangjiajie standa saltstólpar, einstakt náttúrufyrirbæri sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta sér maður hvergi annars staðar í heiminum eftir því sem ég kemst næst. Þar er líka lengsta glerbrú í heimi. Fólk getur farið upp með kláfum og gengið yfir hana en þarna er náttúran og sagan í fyrirrúmi.

Næst verður haldið til Shanghai en það er lifandi, iðandi viðskiptaborg sem býr líka yfir óstjórnlega mörgum perlum bæði hvað varðar sögu og menningu. Shanghai er stór hafnarborg og enn í dag er gríðarleg umferð um höfnina. Þar fyrirfinnst allt milli himins og jarðar. Í Kína mætast á einstakan hátt austur og vestur, fortíð, nútíð og framtíð. Allt okkur afar framandi hér í  norðrinu, í bland við ævintýri hins framandi austurs á tímum keisara, krefjandi tímar umbyltinga og menningarbyltingar, og samtími og framtíð þar sem tækninýjungar virðast skýjum ofar, ef svo má segja. Frá Shanghai er svo haldið aftur til Bejing og þar lýkur þessari tólf daga ferð.“

Glerbrúin í Zhangjiajie. Það er ekki fyrir hugdeiga að ganga þarna yfir.

Bjóst við að Kínverjar höfnuðu henni

Þú varst sendiherra í Kína á árunum frá árinu 2010-2014. Hvernig kom að til að þú tókst það að þér?

„Það er saga að segja frá því,“ segir Kristín og brosir. „Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra og ég var stödd á Kastrup-flugvelli á leið heim af helgarnámskeiði hjá Dalai Lama þegar ráðuneytisstjórinn hringir í mig og segir að ráðherra hafi beðið sig að spyrja mig að því hvernig mér lítist á að fara til Kína þá um haustið. Dalai Lama er auðvitað eins og rauð dula framan í kínversk stjórnvöld svo ég var viss um að Kínverjarnir myndu hafna mér. Sagði já og Dalai Lama flaug svo með sömu vél og ég átti far með heim til Íslands í mjög umdeilda heimsókn. Við tók nokkurra vikna ferli og ég var með hnút í maganum þar sem ég bjóst allt eins við því að verða fyrsti sendiherrann í sögu Íslands sem gistiríki hafnaði. En þeir samþykktu mig. Ég þorði ekki að anda þessu á meðan ég var í Kína. Ákveðin rauð flögg tengdust Dalai Lama, Tibet og Falun Gong, svo  dæmi séu tekin.“

Kristín hlær við en heldur svo áfram. „Hins vegar átti ég gott tímabil í Kína og það sem meira er Ísland átti gott tímabil í öllum samskiptum við Kína á meðan ég var þar. Í staðinn fyrir að utanríkisráðherra væri að senda mig út fyrir sína ystu sjónarrönd kom hann mjög oft í heimsóknir, forseti Íslands og aðrir ráðamenn líka. Ferill Jóhönnu Sigurðardóttur, sem þá var forsætisráðherra, endaði á því að hún kom í opinbera heimsókn til Kína ásamt eiginkonu sinni Jónínu Leósdóttur og það var alveg gríðarlega gaman og krefjandi  að undirbúa þá heimsókn. Ég þurfti svolítið að takast á við um kínverska utanríkisráðuneytið um hvernig tekið skyldi á móti samkynhneigðum forsætisráðherra sem var í fylgd eiginkonu sinnar og það stóð oft mjög tæpt. En á endanum varð þetta var ógleymanleg heimsókn. Kínverjar stóðu mjög vel að henni og sýndu þeim báðum og Íslandi um leið mikinn sóma.“

Leirherinn í X’an.

Ísland eina Norðurlandið sem á sér nafn á kínversku

Íslendingar almennt þekkja lítið til í Kína og byggja kannski mest á sögusögnum og staðalmyndum þegar þeir ímynda sér þetta gríðarstóra land. Hvernig upplifðir þú Kínverja og kínverskt mannlíf?

„Þetta er auðvitað heilt haf af fólki og mannlífið fjölbreytt. Í mínum huga eru Kínverjar mjög kurteisir og vilja helst aldrei styggja neinn. Jafnvel þótt þú berir fram svolítið galna hugmynd segja þeir ekki nei heldur reyna að skoða málin og finna aðra leið til að láta mann skilja að betra sé að gera þetta aðeins öðruvísi. Kurteisi er ríkjandi öðru fremur og forvitni. Þeir sýna okkur Íslendingum einstakan skilning og virðingu. Ísland, eitt Norðurlandanna, á sér nafn á kínversku. Það heitir Bing Dao en það þýðir bara íseyjan. Margir hafa velt fyrir sér hvers vegna Íslandi einu er þessi sómi sýndur. Líklega eru margar ástæður fyrir því, ein kann að vera sú að Ísland er minnst og nyrst en þeir eru stærstir og mestir. Kína, Zhounggou á kínversku þýðir miðríkið. Þeir sjá landið sitt sem miðju alheimsins.

Ég hef ekki komið til Kína síðan 2014 þegar ég lauk starfi mínu þar en ég átti ógleymanlegan tíma þar.  Það var svo margt að gerast á meðan ég var þar. Íslendingar eru í samstarfi við kínverska orkurisann, Sinopec. Þeir hafa byggt jarðhitavirkjanir til húshitunar og kerfið er orðið það stærsta í heiminum. Þeir nota jarðhitann til að hita húsin og kæla þau á sumrin. Ég vonast til að við getum fræðst um aðferðir þeirra í ferðinni en þeir eru með stóra stöð í Xi’an en það verður að koma í ljós hvort af því getur orðið. Ekki er víst að við höfum mikinn tíma til að gera margt fyrir utan þetta frábæra prógramm.

Fólk hefur líka lýst áhuga á að sjá íslenska sendiráðið og sé þess nokkur kostur mun ég leita eftir því. Mig langar líka að koma þangað sjálf. Ég var sendiherra í Kína þegar við ákváðum að flytja sendiráðið í hús sem Eistland var að byggja. Húsið var gríðarlega stórt og þeir vildu gjarnan leigja okkur. Norrænu ríkin og Eystrasaltsríkin sem kallast NB8 voru að leita leiða til að þétta samvinnuna og böndin. Okkur var einnig uppálagt að leita allra leiða til að lágmarka kostnað og nýta sameiginlega aðstöðu. Við höfum verið í þessu húsi frá árinu 2014 eða 2015 en ég kom þar síðast meðan það var enn í byggingu og gekk um með öryggishjálm á höfði.“

Í Shanghai er iðandi mannlíf, áhugaverð menning og ein stærsta höfn í heimi.

Vildi njóta góðu áranna

Kristín hætti að vinna árið 2023 þá sextíu og sex ára gömul. „Mig langaði að ná að njóta þessara góðu ára til fulls,“ segir hún. „Meðan heilsan er enn góð frá því maður hættir að vinna og þar til Elli kerling fer að taka mann glímutökum þá á maður að skoða allar leiðir til að njóta, ferðast og skoða sig um í heiminum. Og ef einhver myndi spyrja mig af hverju hann ætti að fara til Kína myndi ég svara, það að fara í atvinnuleyfi eða leyfi frá atvinnunni gefur manni stórkostlega möguleika og valkosti. Þeir sem eru búnir að vinna í áratugi, skila sínu á vinnumarkaði og öðrum skuldbindingum ættu ekki að hugsa sig um þegar býðst ferð eins og þessi. Ef menn hafa á annað borð áhuga á að kynnast þessu stóra, stóra landi og þeirri einstöku fimm þúsund ára menningu sem þar er þá er þetta frábært tækifæri. Þetta fimm þúsund ára heimsveldi og hagur þess fer vaxandi í heiminum í dag.“

Kristín hefur ferðast mjög víða, ekki bara sér til ánægju heldur einnig á vegum vinnunnar. Hún segir að þrátt fyrir að í vinnuferðum hafi hún oft séð meira af fundarsölum, hótelherbergjum og flugvöllum en landinu sjálfu hafi þær engu að síður gefið henni tækifæri til að upplifa samskipti við aðrar þjóðir. „Þegar maður ferðast undirbýr maður sig alltaf og maður fer að hugsa um viðkomandi land, menningu þess og setur sig inn í stjórnarfar. Svo er tíminn sem fer í undirbúning, jafnvel tihlökkun, dýrmætur. Gleymum ekki að hugurinn ber mann hálfa leið.“

Kína á þó sérstakan stað í hjarta hennar. „Allt er svo stórt og stórfenglegt í Kína en samt svo mikil fegurð í því smáa,“ segir hún. „Þeir nostra við öll smáatriði og unnið er af einstakri kostgæfni. Kína er ævintýraland og engu öðru líkt.

Þetta verður stórkostleg ferð. Það er flogið til Bejing í gegnum Ósló og Dubai og flogið með Emirates en það er samkvæmt minni reynslu eitt besta flugfélag í heimi hvað varðar þjónustu og allan umbúnað. Þetta er auðvitað langt ferðalag en búið að búa þannig um hnúta að það verður mjög þægilegt og það er einn miði alla leið sem skiptir rosalega miklu máli því þá þarf fólk ekki að tékka sig út og inn aftur. Við dveljum í um það bil þrjá daga á hverjum áfangastað.“

Hlakkar þú til ferðarinnar? „Já, ég hlakka alveg gríðarlega til,“ segir hún með áherslu. „Ég hlakka til að koma aftur, koma á þessa staði og til þess að leiða hópinn og miðla upplýsingum og vekja athygli á einu og öðru. Ég hlakka líka til að þeirra samskipti sem við komum til með eiga, tuttugu og fimm Íslendingar sem þekkjast kannski ekki mikið en munu kynnast og deila upplifunum, reynslu og þekkingu.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.