Björgvin Guðmundsson baráttumaður fyrir kjörum eldri borgara og öryrkja, hefur gefið út bók sem heitir Bætum lífi við árin, en í henni er að finna greinar sem hann hefur skrifað í blöð um þetta málefni á 13 ára tímabili. Elstu greinarnar eru frá árinu 2003. Það er áhugavert að grípa niður í greinarnar frá þessum tíma og sjá að þar er verið að ræða sömu málin varðandi hlutskipti eldri borgara og rædd eru í dag. Orðræðan er mjög lík og fátt virðist hafa breyst. Þann 9.júlí 2004 segir Björgvin til dæmis í grein sem ber fyrirsögnina Kjör aldraðra eru til skammar.
Einn stærsti bletturinn á stefnu ríkisstjórnarinnar er slæm kjör aldraðra og öryrkja. Á því tímabili, sem góðæri hefur ríkt í landinu og auðvelt hefði átt að vera að bæta kjör þessara hópa hafa kjör þeirra versnað í samanburði við kjör láglaunafólks á almennum vinnumarkaði. Aldraðir og öryrkjar hafa dregist aftur úr í launaþróun hinna lægst launuðu.
Skerðingin verði leiðrétt
Árið 1995 var skorið á tengsl milli elli- og örorkulífeyris og lágmarkslauna á vinnumarkaði. Fram að þeim tíma hækkuðu bætur aldraðra og öryrkja sjálfvirkt um leið og lágmarkslaun hækkuðu. Frá 1990 hefur kaupmáttur lágmarkslauna hækkað um 52% en á sama tímabili hefur kaupmáttur lífeyris aldraðra einstaklinga aðeins aukist um 25%. Það er skilyrðislaus krafa aldraðra, að þessi skerðing verði leiðrétt. Árið 1990 nam ellilífeyrir einstaklinga ásamt tekjutryggingu 83,3% af lágmarkslaunum verkafólks. Í dag nemur ellilífeyrir einstaklinga ásamt tekjutryggingu aðeins 66,5% af lágmarkslaunum. Þessar tölur tala sínu máli. Þær leiða í ljós, að þegar bæta hefði átt kjör aldraðra og öryrkja voru kjörin skert í samanburði við kjör láglaunafólks. Þetta er ótrúlegt á góðæristímum. Skattar aldraðra hafa einnig hækkað á sama tíma og ríkisstjórnin segist hafa lækkað skatta. Tekjuskattur af 100 þús. króna tekjum nemur í dag 11,1% en nam árið 1990 5,5%. (sambærilegar tekjur að teknu tilliti til verðlagsbreytinga). Lyf hafa einnig hækkað en það bitnar þungt á öldruðum.
Vantar 40 þús.á mánuði
Aldraður einstaklingur, sem einungis hefur bætur frá Tryggingastofnun ríkisins hefur í dag í kringum 100 þús. kr. á mánuði í lífeyri. Af þeirri fjárhæð greiðir hann 11 þús. kr. í skatt. Harpa Njáls, félagsfræðingur, sem ritaði bók um fátækt á Íslandi, telur í bókinni, að það vanti 40 þús.kr. á mánuði til þess að unnt sé að framfleyta sér á bótum Tryggingastofnunar. Það er sem sagt verið að skammta öldruðum skammarlega lágar bætur sem ekki duga til framfærslu og þetta gerist á góðæristímum.
Fyrirsagnir greinnanna í bókinni segja allt sem segja þarf um stöðu eldra fólks á Íslandi undanfarin 13 ár. Gildir þá einu hvert árið var, eða hvaða flokkar voru í ríkisstjórn. Fyrirsagnirnar tala sínu máli og hér koma nokkrar frá þessu tímabili. Aldraðir og öryrkjar gleymdir, Hagsmunir eldri borgara hafa verið fyrir borð bornir, Eiga eldri borgarar að bjóða fram? Hænufet ríkisstjórnar í lífeyrismálum aldraðra, Lífeyrir aldraðra hefur ekki verið hækkaður um eina krónu, Á hverju stendur Jóhanna! Félagsmálaráðherra stingur ályktunum eldri borgara undir stól, Ekki á að refsa öldruðum fyrir að vinna og spara,Stöðva verður „eignaupptöku“ lífeyris strax, Gróf mannréttindabrot á öldruðum og öryrkjum.
Árið 2005 skrifaði Björgvin í grein í Morgunblaðinu meðal annars um að fjárráð væru tekin af öldruðum. Efnið hljómar enn kunnuglega.
Lög varðandi vistun aldraðra eru brotin eins og heilbrigðisráðherra hefur nú viðurkennt opinberlega. Þrengslin á Sólvangi eru stjórnvöldum til skammar. En þar við bætist, að stór hópur aldraðra, yfir 300 í Reykjavík, fær hvergi rými á hjúkrunarheimili enda þótt fólkið sé búið að greiða skatta og skyldur til hins opinbera alla sína tíð. Það er einnig til skammar. Það hefði átt að taka fjármuni af símapeningunum til þess að leysa þetta vandamál, reisa hjúkrunarheimili til þess að útrýma biðlista aldraðra eftir hjúkrunarrými.
Þá þarf að afnema það mannréttindabrot að hjúkrunarheimili eða Tryggingastofnun felli niður allar tryggingabætur til aldraðra, þegar þeir vistast á dvalar- eða hjúkrunarheimili. En síðan verði aldraðir að fara bónarveg að Tryggingastofnun og sækja um vasapeninga til stofnunarinnar. Segja má að þeir missi fjárræði sitt með þessu fyrirkomulagi. Krafan er sú, að aldraðir fái greiddar þær bætur, sem þeir eiga rétt á en síðan greiði þeir sjálfir fyrfir dvöl sína á dvalar- eða hjúkrunarheimili og haldi eftir ákveðnum hluta í vasapeninga. Þannig er fyrirkomulagið í nálægum löndum.
Í lok formála bókarinnar segir Björgvin.
Í greinum mínum um kjaramálin er bæði úttekt á ástandinu í kjaramálum aldraðra en einnig tillögur um aðgerðir til úrbóta. Málefni aldraðra eru efst á baugi í dag. Það þolir enga við að bæta kjör þeirra. Það verður að gerast strax.
Sjá hér viðtal Lifðu núna við Björgvin sem birtist fyrr í vetur.