Kom í land trúlofaðist og tók sjómanninn

Við trúlofuðumst 1.maí árið 1956, um leið og ég útskrifaðist úr Sjómannaskólanum, segir Sigurður H. Brynjólfsson, sjómaður og skipsstjóri , sem kynntist konunni sinni Herdísi Jónsdóttur þegar hann fór í skólann, en hún vann þar í mötuneytinu. Raunar segir Sigurður, sem byrjaði að fara til sjós 13 ára gamall, að þetta hafi verið í eina skiptið sem hann kom í land á næstum 70 ára sjómannsferli og hann notaði tímann vel. „Ég gerði þetta allt í einu“, segir hann um tímann sem hann var í Sjómannaskólanum og eignaðist kærustu. Þau Herdís giftu sig  árið 1957 og fluttu til Keflavíkur. Herdís er ættuð úr Kjósinni en hann vestan úr Djúpi.  Sigurður hafði hugsað sér að fara líka í „farmanninn“ en það varð ekki af því, þar sem honum bauðst að verða skipsstjóri strax um haustið eftir útskrift.

Sjómennskan hefur alla tíð verið stór hluti af lífi þeirra hjóna

Talaði aldrei um vond veður á sjó

Herdís varð sjómannskona í Keflavík. „Það var alveg eðilegt og sjálfsagt, maður vandist þessu“, segir hún og bætir við að sér hafi ekki þótt slæmt að hafa hann úti á sjó. „Ég var einfær um að sjá um heimili og börn. Við eignuðumst 3 börn, en misstum son okkar fyrir þremur árum“, segir hún. Það var heilmikil vinna að sjá um heimilið og börnin á Keflavíkurárunum. „Það var nóg að gera og ég hef aldrei fundið fyrir þeirri kennd að vera hrædd um manninn minn úti á sjó. Það er misjafnt hvað konum finnst, margar óttast að eitthvað komi fyrir á sjónum, en ég hafði aldrei áhyggjur af því. Samt fórust skip á hverri einustu vertíð á þeim tíma. Hann talaði aldrei um vond veður á sjó og ég treysti honum fullkomlega“, segir hún æðrulaus. Sigurður segir að faðir hans hafi brýnt það fyrir sér þegar hann var strákur, að tala aldrei um það við móður sína að veðrið hefði verið vont á sjónum. Annars væri sér að mæta.

Fluttu vestur

Fjölskyldan bjó í Keflavík  til ársins 1980, en þá tóku þau sig upp og fluttu til Bíldudals. Sigurði bauðst skipsstjórastarf þar á nýjum togara, Sölva Bjarnasyni, en hann var búinn að vera skipsstjóri á ýmsum skipum alveg síðan 1956. Þau seldu húsið sitt í Keflavík og fluttu vestur. Þar byggðu þau sér stórt hús og Herdís segir að það hafi verið æðislegt að búa á Bíldudal. „Það var svo mikil veðurblíða þar og ég undi mér mjög vel. Ég var í kennslu og mikið í ýmiss konar félagslífi. Ég var í kirkjustarfi og sóknarnefndarformaður um skeið“, segir hún þegar hún rifjar dreymin upp árin á Bíldudal.

Herdísi þótti æðislegt að búa á Bíldudal

Hentaði ekki að eldast á Bíldudal

En skjótt skipast veður í lofti, bæði á sjónum og í lífinu sjálfu. Sigurður veiktist síðast liðið sumar og þá ákváðu þau að selja bæði bát og hús og fluttu suður, í Hveragerði, þar sem þau voru búin að eiga lítið raðhús í nokkur ár, við hliðina á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Þau segja að það hafi ekki hentað að verða gamall á Bíldudal. „Ef maður missir til dæmis bílprófið er maður í vanda, því það er allt sótt á Patreksfjörð. Við vorum búin að vera þrisvar sinnum á heilsuhælinu og keyptum þessa íbúð, þegar við vorum búin að kynnast því að vera hér. Við kynntumst líka yndislegu fólki hérna. Okkur líkaði svo vel að við keyptum þessa íbúð árið 2005. Við komum svo þegar færi gafst og dvöldum hér af og til, aðallega að vetrinum.

Er ástfanginn af þessum litlu krílum

Önnur dóttir þeirra Sigurðar og Herdísar býr á Bíldudal en hin í Reykjavík. Sonurinn sem þau misstu bjó líka á Bíldudal. Þau eiga 7 barnabörn og 8 barnabarnabörn. „Ég hafði svo lítinn tíma fyrir börnin, en núna er ég ástfanginn af þessum litlu krílum og sat hugfanginn við tölvuna í klukkutíma í gær, að skoða myndir af því nýjasta. Nú er loks nægur tími til að vera með fjölskyldunni og nóg að gera í því“, segir Sigurður. „Á Bíldudal var maður afsakaður og gat ekki mætt í afmæli og fjölskylduboð fyrir sunnan. En á þessum aldri verður maður virkari í fjölskyldulífinu, núna hefur maður tíma til þess“.

Lærði að „ganga“ í Hveragerði

Það er sannkallað heilsufæði á borðum á Heilsustofnun NLFÍ

Það fylgja því ýmsir kostir að búa í nábýli við heilsuhælið, eða Heilsustofnun NLFÍ eins og það heitir í dag. Þar er hægt að fá niðurgreiddan mat, aðgang að öllum fræðsluerindum sem þar er boðið uppá, aðgang að mjög góðum tækjasal og gönguhópum. „Ég lærði að ganga hér“, segir Sigurður. „Áður keyrði konan mig bara um borð, en núna geng ég fjóra kílómetra flesta daga“. Herdís notfærir sér líka þjónustuna á Heilsustofnun, Hún fer í fótaaðgerð sem hún segir að menn þurfi meira á að halda þegar þeir eldast og svo fer hún í hárgreiðslu.  Hún notar sundlaugina líka mikið og segir gott að hafa hana svona nálægt sér. Hún segist vera farin að sjá illa og lítið fara nema bóndinn keyri hana, þannig að henni hentar vel að hafa þessa þjónustu við hendina.

Verðum hér það sem eftir er

Þau Sigurður og Herdís eru að koma sér upp sólskála við raðhúsið í Hveragerði. „Við höfðum svo góðar svalir á Bíldudal og ákváðum að koma okkur upp sólaraðstöðu hér“, segja þau.  Þau segja að það hafi orðið svolítil skipti á fólki í íbúðunum í grenndinni. „Það eru fáir eftir af þeim sem voru hérna þegar við fórum að koma hingað. Sumir hafa kvatt, aðrir flutt eða farið á elliheimili. En almennt finnst fólki gott að búa hér í nágrenni við heilsuhælið“, segja þau. „Við verðum hér það sem eftir er. Við sömdum um það. Ég elda matinn en hann sér um eldhúsið í dag og ég fæ bara frí“ segir Herdís ánægð með þetta fyrirkomulag. Hún er gengin í kór eldri borgara í Hveragerði og Sigurður er á leiðinni á tölvunámskeið.

Sigurður og Herdís gera ýmislegt skemmtilegt í Hveragerði

Einhver spenna sem fylgir fiskeríinu

Herdís segir að það sé ágætt að Sigurður sé ekki út á sjó. „Hann er rólegri og er ekki að hugsa um sjóinn hér“. Sjálfur segist Sigurður aldrei hafa hugsað um neitt nema þorsk og það sé kvöl og pína að sitja aðgerðarlaus við glugga og horfa út á sjóinn.  „Mér hefur alltaf liðið vel á sjó og finnst það enn jafn skemmtilegt og þegar ég byrjaði. Það er aðallega „fiskiríið“ það er einhver spenna sem fylgir því“, segir hann og bætir við að fyrst eftir að þau komu í Hveragerði, hafi hann alltaf verið að skoða veðurkortin og verið að skoða það í tölvunni, hvar bátarnir væru. „En þetta er að lagast. Annars dreymir mig allar nætur að ég sé úti á sjó. Ég myndi fara út á sjó núna ef einhver byði mér pláss. Ég endurrnýjaði nýlega skírteinið frá Slysavarnarfélaginu og það gildir næstu fjögur árin, þannig að ég er viðbúinn“, segir Sigurður og brosir.

 

Ritstjórn apríl 12, 2019 07:24